Aftur á Jökulinn
27.5.2010 | 07:01
Það var blíðskaparveður í gær þegar við flugum austur, en Reynir Pétursson þyrluflugmaður var ekkert sérlega hrifinn af öskufokinu sem lá eins og brúnt teppi yfir Markarfljótsaurum og öllu svæðinu umhverfis Eyjafjallajökul. Eftir að við tókum eldsneyti á Hvolsvelli var farið beint upp til að sjá hvað teppið væri þykkt og hvort nokkur von væri að komast yfir það og að eldstöðvunum. Það var útilokað að fljúga í gegnum það vegna áhrifa ösku á þotuhreyfil Bell þyrlunnar. Ég var í ferð með kvikmyndaliði Profilm, sem nú vinnur að annari heimildamynd um gosið fyrir National Geographic TV. Þegar við vorum kominir í 7000 fet sást loksins Hekla, dökkgrá af öskufalli, og einnig kolsvartir topparnir á Tindfjallajökli. Allstaðar virtist þyrlast upp af jörðu mjög fín aska sem hélt áfram að bæta við rykteppið. Við fórum aðeins hærra og nú sást í hvítan gufumökkinn úr Eyjafjallajökli og umhverfi toppgígsins var klárt. Reynir valdi leið fyrir ofan öskuteppið, beint að gígnum. Það var stórkostlegt að komast loks alveg að nýja gígnum og geta horft niður í hvítan gufumökkinn sem liðaðist uppúr honum, eins og risastórum sjóðandi potti. En satt að segja var ég meira heillaður af því að fá loks að sjá nýja hraunið sem þekur nú dalinn þar sem áður var efri hluti Gígjökuls. Hér er komið alveg nýtt og stórfenglegt landslag. Ég var loksins kominn upp aftur að eldstöðvunum, eftir tíu daga fjarveru. Gígurinn er hlaðinn upp af gjalli og hraunbombum, en norður brún gígsins er nú orðin gulgræn af brennisteinsútfellingum. Öðru hvoru glitti í kólnað hraun inni í gígnum, þar sem gufan rauk stöðugt út. Hraunið sem fer í norður, niður farveg Gígjökuls, er brúnleitt og virðist vera apalhraun. Mér datt í hug að lenda á hrauninu með þyrluna til að taka sýni, en það var ekki efst á lista okkar og verður því að bíða. Eftir að hringsóla um gíginn lentum við á vestur barmi öskjunnar eða stóra gígsins, rétt fyrir sunnan Goðastein. Yfirborðið er slétt og fremur harður dökkbrúnn vikur. Við vorum um 100 metra frá stóra bombugígnum sem ég kannaði í ferðinni 16. maí, eins og ég hef bloggað um hér. Aðrir bombugígar voru á víð og dreif, og yfirborð vikursins minnir jarðsprengjusvæði. Þetta eru gígar eftir hraunslettur af ýmsum stærðum, sem sprengingarnar hafa varpað upp, og þegar þær lenda grafast þær djúpt niður í vikur og ís. Ég gróf upp nokkrar bombur, sem eru fremur glerkenndar. Mér til mikillar gleði innihalda sumar þeirra gabbró mola eða stórar þyrpingar af steindum eða mínerölum af tegundunum olívín, plagíóklas og pýroxen. Glerkennd áferð þeirra er stórfalleg. Við flýttum okkur eftir megni við að taka upp myndefnið, en öskuteppið var stöðugt að hækka og Reynir var greinilega orðinn áhyggjufullur og órólegur. Að lokum tók hann af skarið og skipaði okkur um borð í þyrluna. Við fórum aftur beint upp, og loks í 8500 feta hæð vorum við komnir upp fyrir öskuteppið og höfðum aftur sjón af Heklu og Tindafjallajökli og áttum örugga leið til baka í byggð.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 07:06 | Facebook
Athugasemdir
Skemmtileg og afar fróðleg frásögn af sofandi kerlu með teppið sitt.
Júlíus Valsson, 27.5.2010 kl. 08:56
Kærar þakkir. Það er eitt að skrifa og annað að skrifa skemmtilega. Dr. Haraldur kann þá list að spinna saman fróðleik og skemmtan.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 14:02
Sæll
Áttu ekki nærmynd af fallegu hraunmolunum sem þú grófst upp...það væri gaman að fá að sjá...
HelgaS
Helga S (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 15:04
Tek undir með ofangreindum, bæði fróðlegt og skemmtilegt. Takk fyrir mig.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 19:58
Mjög gaman að lesa bloggið hjá þér. Áttu ekki mynd af þessum steinum (hraunmolum)?
Marinó Már Marinósson, 27.5.2010 kl. 20:04
Sjá næstu færslu, varðandi steinana sem við söfnuðum.
Haraldur Sigurðsson, 27.5.2010 kl. 20:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.