Ferð á Eyjafjallajökul 16. maí 2010

 

Í öskuregniÍ gær tók ég þátt í leiðangri á Eyjafjallajökul með Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands,  í þeim tilgangi að safna sýnum og mæla þykkt á gjósku sem fallið hefur á jökulinn vestan gígs.  Við ókum í þremur jeppum frá Seljalandsfossi og upp Hamragarðaheiði.  Síðan var ekið upp á jökulin og gekk ferðin nokkuð vel. Þegar við vorum komnir rétt austur fyrir Skerin, í um 1000 metra hæð, var stanzað til að taka sýni af öskunni sem þekur jökulinn.  Rétt í þann mund hófst kraftmikil hrina af sprengingum, sem myndaði stóra og dökkgráa öskubólstra hátt í loft. Um leið blossuðu eldingar í mekkinum og þrumurnar skullu yfir okkur.  Eldingar og miklar rafmagnstruflanir eru eitt af einkennum sprengigosa, einkum ef vatn er í mekkinum. Þá virkar gjóskan eins og skammhlaup milli jarðar og háloftsins, og  stöðurafmagn eða static verður mjög mikið vegna mismunandi rafpóla í öskukornum og gufu í mekkinum. Lesið frekar um eldingar í gosinu hér.  

Rafmagnið var svo mikið að hárið stóð beint upp á höfði okkar, og ef við réttum upp handleggi hátt upp,  þá titraði loftið á fingurgómunum.  Aska á framrúðunni Við nálguðumst gígbrúnina, með hjálma á höfði, en tókum þá ákvörðun að fara ekki upp á Goðasein vegna hættu af eldingum.  Askan féll stöðugt og var svo þét að erfitt var að sjá út úr bílnum. Ég hafði áður komið á Goðastein undir allt öðrum kringumstæðum og glampandi sól, eins og ég bloggaði um hér.   Hávaðinn var gífurlegur í þrumunum, en þess á milli var hljóðið sem gosið gaf frá sér eins og mjög mikið brim. Mökkurinn reis hátt beint yfir höfðum okkar, en hann fór í um 8 km hæð þann dag.  Við færðum okkur nær, og stöðvuðumst rétt fyrir vestan Goðasein, sem er á brún stóra gígs Eyjafjallajökuls. Þá erum við um 1 km frá gígnum sem er nú virkur. Ekki var ráðlegt að fara upp á Goðastein vegna eldingahættu.  Hér vorum við komnir í stöðugt öskufall, og ringdi yfir okkur sandur og aska allt að 4 mm að stærð.  Liturinn á gjóskunni sem þekur jökulinn nálægt Goðasteini er nokkuð ljósgrar, eiginlega khaki litur. Einnig er mikið af gjóskunni vikur, nokkuð útblásinn.  BombugígurHér og þar lágu 10 til 15 sm gjallstykki á yfirborði, og skammt frá gígbrúninni eru stórir pyttir eða holur eftir “bombur” sem hafa fallið á jökulinn.  Í sprengingum kastast oft mjög stór flykki af hraunslettum í loft upp og þær geta verið á stærð við rúmdýnur eða jafnvel bíla.  Bomburnar skella á jökulinn og mynda gíga í ísinn.  Einn gígurinn er um 5 m í þvermál og rúmlega 2 m djúpur. Í botni hans var stór bomba sem er rúmlega 1 m í þvermál og sennilega um 2.5 tonn.  Sprenging hefur varpað henni hátt í loft og síðan féll hún til jarðar um 1 km fra gígnum.  Stór hluti hennar er nú kominn á Eldfjallasafn í Stykkishólmi, en afgangurinn er kominn í safn Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.  Slíkar bombur eru mjög góð sýni af kvikunni sem nú berst upp á yfirborðið, og munu gefa verðmætar upplýsingar um gerð kvikunnar og gasinnihald hennar eftir rannsóknir jarðefnafræðinga og bergfræðinga.  En slíkar rannsóknir taka því miður nokkuð langan tíma.  Við vildum ekki dvelja lengur á hættusvæðinu en nauðsyn krefur, og héldum því frá gígnum. Bombugígur RAX Guðrún Sverrisdóttir jarðfræðingur og félagar hennar gerðu síðan fjölda af mælingum á þykkt öskulagsins víðs vegar um vestanverðan jökulinn áður en við héldum til byggða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta er mjög skemmtilegur pistill. Þú nærð að gera þetta bæði spennandi og fræðandi - myndirnar magna upp stemmninguna.

Sumarliði Einar Daðason, 18.5.2010 kl. 07:24

2 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Þér finnst þetta enn vera túristagos og vilt hleypa almenningi að svæðinu?

Mér persónulega finnst þessi ferð ykkar hin glæfralegasta og furðulegt að þið hafið haldið áfram eftir að hamfarirnar byrjuðu. Mannslíf er kannski líitls virði og vel fórnandi fyrir "vísindin"?

Torfi Kristján Stefánsson, 18.5.2010 kl. 09:04

3 Smámynd: Njörður Helgason

Þetta hefur verið afskaplega spennandi ferð Haraldur. Inn í miðja axjónina. Get trúað að loftið hafi verið rafmagnar þarna uppi. Man að frændur mínir sem mundu eftir Kötlugosinu 1918 sögðu mér frá hrævareldum sem fylgdu öskufallinu þegar það varð í Reynishverfinu.

Njörður Helgason, 18.5.2010 kl. 09:15

4 Smámynd: Ragnheiður

frábær færsla, las mestan hluta hennar fyrir húsbóndann.

Ragnheiður , 18.5.2010 kl. 14:36

5 identicon

Ótrúlegt og vonandi ekki of hættulegt.  Skemmtilegar myndir í mogga í dag.  Kveðja, Elín Hirst. 

Elín Hirst (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 20:04

6 identicon

Mjög skemmtileg og fræðandi síða. Myndin síðast í þessari færslu fannst mér alveg frábær, verðlaunamynd.

Kveðja Steina

Steina Aradóttir (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband