Hvað er gosið í Eyjafjallajökli orðið stórt?
17.5.2010 | 14:17
Margir spyrja: Hvað er gosið í Eyjafjallajökli orðið stórt? Við skulum reyna að setja gosið í samhengi við önnur eldgos á Íslandi. Þegar rætt er um eldgos er oft fjallað um fjölda gosa á einhverju tímabili, en miklu mikilvægari eining eða mælikvarði er magn af gosefni eða kviku sem berst upp á yfirborð jarðar. Það er talið að alls um 90 rúmkílómetrar af kviku hafi gosið hér síðan Ísland var byggt fyrir 1100 árum. Besta aðferðin til að ákvarða stærð á eldgosi er að mæla magn af gjósku og hrauni sem berst upp á yfirborð, en oft er magnið svo mikið að það er greint frá því í rúmkílómetrum (km3) fyrir stór gos, en í rúmmetrum (m3) fyrir smæri gos. Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands er nú að framkvæma mælingu á gosmagni úr Eyjafjallajökli með því að mæla þykkt öskufalls á ýmsum stöðum á Íslandi og kortleggja þykkt gjóskufallsins. Verkið er enn í framkvæmd, enda gosinu ekki lokið. Aðuvitað ná slíkar mælingar ekki til gjósku sem fellur í hafið en hægt er að áætla það magn út frá slíkum gögnum. Hæð öskumökksins er nokkuð góður mælikvarði á magn af kviku sem berst upp á yfirborð í sprengigosi, eins og ég hef bloggað um hér. Undanfarið hefur mökkurinn oft verið í um 5 til 6 km hæð, eins og sjá má í radar eða vefsjá Veðurstofunnar, en það bendir til að magn af kviku sem gýs sé á bilinu 10 til 100 rúmmetrar á sekúndu í slíkum hrinum. Það hefur verið áætlað að nú hafi borist upp um 250 miljón rúmmetrar af kviku í gosinu og má telja að það sé lágmark. En hvað er það raunverulega mikið og hvenig ber því saman við önnur gos? Taflan fyrir ofan sýnir magn af öllu gosefni í nokkrum gosum, þar sem gosefnið er reiknað sem kvika. Rúmmálið er sýnt í rúmkílómetrum. Til að gera frekari samanburð á þessum gosum hef ég áætlað hvað kvikan úr hverju gosi gæti myndað þykkt lag yfir Reykjavíkurborg, en flatarmál höfuðborgarinnar er 273 km2. Í þessum gögnum kemur fram að gosið í Eyjafjallajökli er þegar orðið sambærilegt af stærð við gosið á Heimaey 1973, sem hlóð upp Eldfelli. Magn af gosefni úr Eyjafjallajökli er nú nægilegt til að mynda lag yfir allri Reykjavík sem er tæpur meter á þykkt. Gosin í Heklu 1947 og Kötlu 1918 gætu hafa myndað lag yfir hofuðborginni sem er meir en 3 metrar á þykkt, en gosefnið frá Lakagíum árið 1783 myndi þekja Reykjavík með hvorki meira né minna en 55 metra þykku lagi. Svo læt ég fljóta með í töflunni tvö virkileg stórgos, Tambóra í Indónesíu árið 1815 (360 m lag yfir Reykjavík) og stórgosið í Yellowstone fyrir um 600 þúsund árum, sem nægir í 3.7 km þykkt lag yfir höfuðborgina.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eyjafjallajökull | Breytt 18.5.2010 kl. 17:17 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nú samt orðið ágætlega stórt. Ef þetta heldur áfram í tvo mánuði enn á svipuðu róli og nú þá verður þetta komið upp í svipað og Katla 1918 og Hekla 1947, sem er ágætlega stórt. Við vitum það að Eyjafjallajökull hefur tilhneigingu til að gjósa nokkuð lengi, lengur en Katla og Hekla sem endast oftast ekki lengur en í nokkrar vikur.
Er vitað hversu stór fyrri gos, t.d. 1821, voru.
Egill A. (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 14:42
Gagnmerkar upplýsingar. Sést vel á töflunni hvað Vestmannaeyjagosið var í raun lítið, þrátt fyrir að afleiðingar þess hafi ekki verið litlar. Enda gosið í útjaðri bæjarinns og kaffærði hann í hrauni og vikri.
Njörður Helgason, 17.5.2010 kl. 14:48
Ég hef svoldið verið að velta fyrir mér Reykjanesinu. Ég hef verið að skoða kort af eldstöðvakerfunum þar og mér sýnist t.d. Trölldyngjukerfið, sem er með megineldstöð í kringum Kleifarvatn, ná alla leiðina inn í Kópavog og út á Mosfellssveit. Nú bý ég í Salahverfinu í Kópavoginum nokkurn veginn inni á eldstöðvakerfinu og er að velta fyrir mér: Er einhver möguleiki á því að kvika geti komið upp á þessu svæði úr eitthvað af sprungunum. Það eru hraun t.d. hja Ikea og hérna rétt fyrir aftan í Heiðmörkinni.
Hér er mynd af elstöðvakerfunum á Reykjanesi:
http://dl.dropbox.com/u/1700355/eldstodvakerfin_fjogur.jpg
Egill A. (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 15:08
Þetta er bara spennandi. Ég er alinn upp með Kötlu undir jöklinum sem ég horfði á frá blautu barnsbeini. Katla hefur ekki gosið ennþá. Ég flutti á Vellina þeir eru þá umbrotasvæði eins og er fyrir austan.
Njörður Helgason, 17.5.2010 kl. 16:37
Afar fróðleg áætlun um stærð gossins Haraldur. Mig langar að vita hvað talið er að komið hafi upp af gosefnum í gosinu í Eyjafjallajökli 1821-23, ég hef hvergi séð neinar tölur um það en einhver fræðingurinn sagði að þetta gos væri þegar orðið stærra þó hitt hafi staðið í rúmt ár.
Varðandi Reykjanesskagann, ég mundi ALDREI kaupa mér íbúð á Völlunum! Hverfið stendur á hluta til á hrauni sem er runnið eftir landnám og er mjög berskjaldað fyrir hraunstraumi sem kann að renna frá eldstöðvum þar nærri, reyndar getur gosið þar mjög nærri ef út í það er farið. Se ekki betur en að þarna séu gígar ekki langt sunnan við hverfið. Hef velt þessu aðeins fyrir mér á eldgos.is vona að Haraldur fyrirgefi mér að linka þangað!
Óskar, 17.5.2010 kl. 17:54
Þú talar um 25 milljón rúmmetra fyrir Eyjafjallajökul í texta en 0,3 rúmkílómetra í töflu. 0,3 km3 samsvarar 300 milljón m3 en ekki 25 milljón m3, enda þúsund milljón m3 í einum km3. Er þetta misskilningur hjá mér eða er þetta prentvilla og þá í textanum en ekki töflunni.
Gretar Ívarsson (IP-tala skráð) 18.5.2010 kl. 12:04
Grétar: Þarna datt éitt núll út hjá mér! Talan átti að vera 250 miljón m3. Rúnnað af er það um 0.3 km3. Takk fyrir ábendinguna.
Haraldur Sigurðsson, 18.5.2010 kl. 17:10
Sæll Haraldur
Fróðleg samantekt, en flatarmálsviðmiðið hjá þér er kannski ekki alveg lýsandi. Þú talar réttilega um 273km2, sem stærð Reykjavíkur en það er allt landsvæðið sem teigir sig upp í Bláfjöll auk lands sem tilheyrir Kjalarnesi sem inniheldur m.a stóran hluta Esjunar. Á http://arcgis.reykjavik.is/borgarvefsja/ getur þú séð og mælt flatarmálin. Fæstir gera sér grein fyrir þessum svæðum. Meira lýsandi hefði verið að nota til dæmis landsvæði Reykjavíkur vestan Elliðaár eða Reykjanesbrautar sem er um 10 sinnum minna en allt landsvæði Reykjavíkur. Þykktir gosefnanna yrðu því 10 sinnum meiri ef miðað væri við þetta svæði sem flestir þekkja og gera sér grein fyrir.
Kveðja
Þorbergur
Þorbergur Steinn Leifsson (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 13:21
Þorbergur: Þetta er ágæt ábending. Ég tók flatarmál höfuðborgarinnar eins og það er gefið út af Reykjavíkurborg. Ef þú ert með "betri" tölu, þá væri gott að eyra það. Kærar þakkir.
Haraldur Sigurðsson, 24.5.2010 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.