Bloggfærslur mánaðarins, september 2014
Stafar mesta hættan af brennisteinsgasinu?
7.9.2014 | 07:09
Brennisteinsgas er eitt af aðal gastegundunum, sem streymir út við eldgos. Í Skaftáreldum árið 1783 streymdi út í andrúmsloftið um 150 milljón tonn af SO2 eða brennisteinstvíoxíði, ásamt miklu magni af flúórgasi og orsakaði það Móðuharðindin. Þá féll um 75% af öllum búpening á Íslandi og þjóðinni fækkaði um 24%. Sauðfé og nautgripir átu gras, sem var mengað af flúórefnum úr gosinu og olli það dauða þeirra. Gosið og Móðuharðindin eru mestu náttúruhamfarir, sem Íslendingar hafa orðið fyrir. EKKERT annað land hefur tapað svo stórum hluta þjóðarinnar. Einnig verður útblástur af gastegundinni H2S eða brennisteinsvetni við eldgos, en það er eiturgas ef það er fyrir hendi í miklum mæli. Stöðug virkni gíganna í Holuhrauni dælir nú út miklu magni af brennisteinsgasi í dag. Nú er hægt að fylgjast með útblæstrinum á vefsíðu NASA hér: http://so2.gsfc.nasa.gov/index.html
Myndin fyrir ofan er frá Aura gervihnettinum, en hún sýnir SO2 eða brennisteins oxíð magn í lofthjúpnum umhverfis Ísland hinn 4. september 2014. Aura mælir mökkinn einu sinni á degi hverjum. Magnið er mælt í Dobson units (DU). Brennisteinsgasið er sennilega mest fyrir neðan veðrahvörf, eða undir 10 km hæð yfir jörðu og rignir því út þegar gasið gengur í efnasambönd við raka í andrúmsloftinu. Vonandi fellur það súra regn að mestu yfir hafið, en eitthvað af því getur haft áhrif á landi. Ef það berst hærra, yfir veðrahvörf, þá er það komið upp í heiðhvolf (stratosferuna) og getur haft áhrif á loftslag (kólnun). En yfirleitt berst brennisteinsgas ekki upp í heiðhvolf nema í kröftugum sprengigosum, sem bera gjóskumökk uppfyrir um 15 km hæð. NASA hefur mælt heildarmagn af brennisteinsgasi SO2 í mökknum frá útblæstrinum í Holuhrauni með Aura gervihnettinum og er það sýnt á annari myndinni. Rauða línan sýnir magn brennisteinsgassins í kílótonnum (1 kílótonn = 1 þúsund tonn). Hinn 5. september var magnið í mekkinum því um 12 þúsund tonn. Þetta er enn bara upp í nös á ketti, en ef gosið heldur áfram með þessum krafti, mánuðum eða árum saman, þá er brennisteinsgas og móðan mjög mikið umhverfisvandamál fyrir Ísland og nágrannalöndin.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Berggangur á Grænlandi
4.9.2014 | 20:42
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)