Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Félagslegt Réttlæti

Getur þetta verið? Að Ísland sé á toppnum, hvað varðar félagslegt réttlæti í heiminum? Stofnunin Bertelsmann Stiftung hefur gert mikla könnun á ýmsum þáttum þjóðfélgagsins, sem varða félagslegt réttlæti í öllum 31 OECD löndunum. Þar lendir Ísland á toppnum og Tyrkland á botninum, eða númer 31. Hin Norðurlöndin eru að sjálfsögðu einnig nálægt toppnum. Hins vegar eru Bandaríkin mjög neðalega, númer 27, og er síðasta stórveldið lítið betra en Mexíkó, sem er númer 30. Hinis ýmsu þættir sem eru kannaðir eru fátækt (Ísland númer 4), menntun (1), atvinnuhorfur (1), jafnrétti (10) og heilsufar (1). Á einu sviði stendur Ísland sig mjög illa, og er mjög nærri botninum (númer 28). Það er á sviði skulda, en það eru skuldir sem næsta kynslóð verður ábyrg fyrir. Þar er Ísland í góðum félagsskap, með Grikklandi, Ítalíu og Japan. Sjálfsagt má deila um þær aðferðir, sem notaðar hafa verið til að mæla hina ýmsu þætti varðandi félagslegt réttarfar, en það kemur mér satt að segja mjög á óvart hvað Frón stendur sig vel í þessari könnun. Stórblaðið New York Times hefur tekið saman helstu þætti skýrslunnar, og set þá upp í myndformi, eins og sjá má hér fyrir neðan. Skýrsluna má lesa í heild sinni hér http://www.bertelsmann-stiftung.de/cps/rde/xchg/SID-7475996A-0738890B/bst/hs.xsl/nachrichten_110193.htm  29blow-ch-popup-v2

Einn milljarður í viðbót

Fjölgun SÞBergljót dóttir mín á afmæli í dag, hinn 31. október. Í dag er líka dagurinn, þegar mannkynið nær tölunni sjö milljarðar, samkvæmt teljara Sameinuðu Þjóðanna. Sennilega fæðist sjömilljarða barnið í Indlandi, þar sem fimmtíu og eitt barn fæðist á mínútu hverri. Hvernig í ósköpunum hefur mannkyninu fjölgað svona ótrúlega mikið? Fyrir tíu þúsund árum voru aðeins um fimm milljón manns á allri jörðinni. Þegar Jesú Kristur fæddist, fyrir rúmum tvö þúsund árum, var mannkynið komið í tvö hundruð milljón. Við náðum fyrsta milljarðinum í kringum árið 1800. Núna er fólksfjölgunin um einn milljarður í viðbót á hverjum tólf eða þrettán árum, eins og myndin sýnir. Það hefur verið talið, að það ætti að draga úr fjölguninni, vegna þess að í löndum eins og Kína og Japan hefur mannfjöldi að mestu staðið í stað undanfarið. En fyrir nokkrum mánuðum lýstu Sameinuðu Þjóðirnar því yfir, að áætlun þeirra væri of lág, vegna þess að barneignir í Afríku og víðar væru hærri en áætlað var.  Næsta mynd er úr Economist og sýnir lengar tímabil, en þar kemur fram mjög slándi hvað fjölgunin er mikil síðustu aldir.  EconomistEins og ég hef áður bloggað um hér, þá er eðlilegt að búast við því að fjósemi minnki í Afríku og annarstaðar í þriðja heiminum ÞEGAR eða EF efnahagur og menntun í þeim þjóðum batnar verulega. En það hefur ekki gerst enn. Á sextíu árum hefur barneign kvenna lækkað frá 6 til 2,5 í heiminum.  Sameinuðu Þjóðirnar sýndu áður of mikla bjartsýni og gerðu ráð fyrir að barneign eða frjósemi kvenna mundi lækka frekar niður í 1,85 barn árið 2100.  En nú hefur sú ágiskun verið hækkuð upp í 2,1.  Það er því mikil óvissa ríkjandi með þrjóun mannfjölda á jörðu, og efri mörkin hjá Sameinuðu Þjóðunum er til dæmis 15,8 billjón manns árið 2100.  En það er auðvitað ýmislegt fleira en frjósemi sem stýrir þessu.  Eitt mikilvægasta atriðið er langlífi.  Það er ótrúlegt en satt, að ævilengd hefur aukist frá 48 árum til 68 ára frá 1950 og 2011.   Hvernig á að fæða allan þennan fjölda? Það er einkum tvennt sem vinnur nú á móti aukinni framleiðslu á akuryrkjusvæðum heims: hnattræn hlýjun og skortur á vatni og tilbúnum áburði, einkum fosfór. Það er nú lauslega áætlað að við hverja eina gráðu, sem hitinn fer yfir hagstæðustu hitamörk á ökrunum, þá fái bóndinn um tíu prósent minni kornuppskeru. Þetta feyndist rétt spá til dæmis í hitabylgjunni miklu, sem gekk yfir Rússland sumarið 2010, en þá hrundi kornuppskera landsins um 40 prósent. Peak_P_websiteVatnsskortur er líka vandamál. Á Indlandi hafa bændur nú borað um 20 milljón holur til áveitu á akra sína, og er grunnvatnsborðið nú óðum að lækka og borholur að þorna upp. Alþjóðabankinn telur, að um 175 milljón Indverjar séu nú aldir á korni sem er sprottið vegna of mikillar uppdælingar úr þverrandi grunnvantslindum. Já, en er þá ekki hægt að auka kornframleiðsluna í heiminum bara með því að nota meiri áburð? Það er eðlilegt að þú spyrjir, og að vísu er það rétt, en vandinn er sá að nú eru heimsforinn af einu helsta efni í tilbúnum áburði að verða á þrotum: fosfór. Fosfór er eitt algengasta steinefnið í mannslíkamanum, næst á eftir kalsíum. Það er um 1% fosfór í líkama okkar og efnið er okkur nauðsynlegt og svo er einnig með allar plöntur á jörðu. Það þarf um eitt tonn af fosfati til að rækta um 130 tonn af korni, og það er þess vegna, sem 170 milljón tonn af fosfati eru unnin í námum og send um allan heiminn til að halda uppskerunni í lagi á ökrum með tilbúnum áburði. Margir telja að heimurinn sé hratt að nálgast fosfórtopinn, og sennilega verður honum náð árið 2034, með framleiðslu um 28 milljón tonn af fosfór á ári. Eftir það fer að draga verulega úr framleiðslu og skortur verður áberandi. bouCraaEin stærsta fosfór náman er Bou Craa í vestur Sahara, en frá námunni liggur 150 km langt færiband (lengsta færiband í heimi, sjá mynd) þvert í gegnum Marokkó, til hafnarinnar El Ayoun við Atlantshaf. Það er Mohammed hinn sjötti, konungur Marokkó, sem á námuna og námufyrirtækið. Um 80% af öllu vinnanlegu fosfati heims er að fiinna í vestur Sahara, en birgðir í jörðu í Bandaríkjunum eru nær að þrotum komnar. Ódýr tilbúinn áburður er búinn að vera, og verðið rýkur nú upp, með 700% hækkun frá US$50/tonn til US$350/tonn á fjórtán mánuðum. Línuritið sýnir verð á fosfór á heimsmarkaðinum undanfarin ár. Fosfórskortur verður einn af þáttunum, sem munu gera lífið erfitt fyrir komandi kynslóðir, ef fólksfjölgun heldur áfram sínu striki.dollarphosphorusresized

Uppruni Íslands liggur undir Baffinseyju

DonFrancisÞað er ekki oft sem við heyrum minnst á Baffinseyju, en samt er hún um fimm sinnum stærri en Ísland, og rétt vestan Grænlands. Ef til vill komu forfeður okkar við á Baffinseyju á leið sinni vestur til Vínlands hins góða á söguöld, og nefndu eynna þá Helluland. Nálægt suðaustur odda Baffinseyjar er Nanook, en fornleifarannsóknir þar árið 2002 hafa hugsanlega leitt í ljós minjar af norrænum uppruna. Það eru þó ekki þessi fornsögulegu þættir sem tengja okkur íslendinga við Baffinseyju, heldur er það uppruni landsins. Nú hefur nefnilega komið í ljós, að möttulstrókurinn sem liggur undir Íslandi hóf sögu sína undir Baffinseyju fyrir um sextíu og tveimur milljón árum síðan. Eldvirknin á Baffinseyju var basalt kvika sem átti uppruna sinn í möttulstrók djúpt í jörðu. Myndin fyrir ofan sýnir eitt af þeim svæðum á Baffinseyju, þar sem þykkar myndanir af basalthraunum hafa gosið fyrir um sextíu og tveimur milljón árum. Nú hefur komið í ljós, að basaltið hér er upprunnið úr möttulsbergi undir eynni, sem er um 4500 milljón ára gamalt. Þar með er þessi möttull undir Baffin nú elsta berg sem hefur fundist til þessa á jörðinni. Það er mjög ólíklegt að eldra berg finnist nokkurn tíma á jörðu, þar sem aldur jarðar og sólkerfisins er nú talinn 4568 milljón ár, og er skekkjan á þessari aldursgreiningu talin aðeins ein milljón ára, plús og mínus. Það er jarðefnafræðin sem hefur sýnt fram á mikilvægi basaltsins á Baffinseyju. Í basaltinu finnst til dæmis óvenju mikið af gasinu helíum-3. Helíum gas er mjög ríkt í sólkerfinu, en mest af því hefur þegar tapast út úr jörðinni. Varðandi jarðefnafræðina er rétt að geta þess, að atóm eða frumeindir efnis geta haft mismargar nifteindir. Slíkar frumeindir nefnast samsætur. Helíum hefur tvær samsætur: He3 og He4. He3 samsætan einkennir sólkerfið, en nú hefur fundist helíum í basaltinu á Baffinseyju með 3He/4He hlutfall sem er 50 sinnum hærra en í andrúmslofti jarðar. Þetta helíum undir Baffinseyju er því óbreytt allt frá fyrstu milljónum ára jarðarinnar. Frekari greiningar jarðefnafræðinganna sýna að önnur frumefni eða samsætur gefa aldur möttulsins undir Baffinseyju sem um 4500 miljón ár. Þessi hluti möttuls jarðar tók að bráðna fyrir um 62 milljón árum, og bráðin er basaltkvikan, sem þá gaus á Bafinseyju.MeyerMap  Ekki er enn ljóst hvað kom þessum möttli á hreyfingu til að mynda möttulstrók, en hann hefur verið virkur æ síðan, og nú er þessi möttulstrókur staðsettur undir Íslandi. Saga hans er merkileg á ýmsan hátt. Með tímanun færðust flekarnir til vesturs fyrir ofan möttulstrókinn, og Baffinseyja rak frá, en Grænland lenti beint fyrir ofan hann. Þá tók að gjósa á Diskóeyju með vesturströnd Grænlands, og síðar færðist virknin enn austar, þegar möttulstrókurinn var staðsettur undir austur strönd Grænlands fyrir um 50 milljón árum, eins og myndin sýnir. (Á myndina hef ég dregið rauða ör, sem sýnir lauslega feril möttulstróksins sl. sextíu milljón ár, en takið eftir að það er ekki möttulstrókurinn sem hreyfist, heldur jarðskorpuflekarnir fyrir ofan.) Þá klofnar Evrasíuflekinn fyrir ofan möttulstrókinn, og Grænland rekur með restinni af Norður Ameríku flekanum til vesturs, og Norður Atlantshafið opnast. Þótt staðsetning möttulstróksins sé stöðug í möttlinum, þá mjakast flekamótin smátt og smátt til vesturs, og af þeim sökum hefur strókurinn myndað mjög víðtækt belti af basaltmyndunum, allt frá Baffin, til Diskó, undir allt Grænland frá vestri til austurs, og loks undir Norður Atlantshafið og myndað Ísland. Þannig eigum við margt og mikið sameiginlegt með Baffinseyju, þótt það séu meir en sextíu milljón ár líðin síðan við vorum í nánu jarðbundnu sambandi.

Vantar Jarðskjálftamæla á Snæfellsnesi

10jul2011Það er stórt gat í jarðskjálftamælaneti Íslands. Gatið eru Vestfirðir og allt Snæfellsnes, en hér eru engir mælar. Við vitum nær ekkert um skjálftavirkni á svæðinu, og aðeins skjálftar sem eru af stærðinni 2 eða stærri mælast nú inn á landsnetið sem Veðurstofan rekur. Næsta varanlega jarðskjálftastöðin sem Veðurstofan rekur er í Ásbjarnarstöðum í Borgafirði. Í sumar var gerð fyrsta tilraun með fimm skjálftamæla á Snæfellsnesi af jarðeðlisfræðingnum Matteo Lupi við háskólann í Bonn í Þýskalandi. Hann mældi skjálfta á Snæfellsnesi frá 20. júní til 25. júlí 2011. Hann setti upp fjórar stöðvar umhverfis Snæfellsjökul, og eina í Álftarfirði, í grennd við megineldstöðina Ljósufjöll. Lupi og félagar eru enn að vinna úr gögnunum, en það kom strax í ljós, að staðbundnir skjálftar mældust, sem eiga upptök sín undir Snæfellsnesi, bæði í Álftafjarðarstöðinni og umhverfis Jökul. Myndin sem fylgir sýnir til dæmis staðbundinn skjálfta sem varð undir Snæfellsjökli hinn 10. júlí. Slíkir smáskjálftar geta veitt okkur miklar upploýsingar um eðli og hegðun eldfjalla á Nesinu. Sjá hér varðandi fyrra blogg mitt um þetta mikilvæga mál: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1051312/

Skjálftarnir tengdir Hellisheiðarvirkjun

Dæling HellisheiðarvirkjunÍ desember árið 2009 bloggaði ég hér um hugsanlegan afturkipp í virkjun jarðvarma erlendis, vegna manngerðra jarðskjálfta. Það blogg má sjá hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/993423/ Nú er tímabært að endurskoða þetta mál, vegna jarðskjálftanna síðustu daga, sem virðast tengdir Hellisheiðarvikjun. Tveir skjálftar, sem voru tæplega 4 að styrkleika urðu hinn 15. október 2011 og yfir 1500 smærri skjálftar með upptök í grennd við Hellisheiðarvirkjun hafa verið staðsettir undanfarna viku. Slíkar hrinur hafa gengið yfir svæðið síðan í byrjun september, þegar niðurdæling hófst. Myndin fyrir ofan sýnir niðurdælingu (efri hluti myndar), sem er um eða yfir 500 lítrar á sekúndu, og tíðni jarðskjálfta (neðri hluti myndar).  Myndin er úr skúrslu Orkuveitunnar. Það verður ekki deilt um, að tengslin milli dælingar og skjálfta eru áberandi, og jafnvel sjálf Orkuveita Reykjavíkur virðist á þeirri skoðun. Það er því niðurdæling affallsvatns frá virkjuninni sem virðist orsaka þessa skjálfta. Slík niðurdæling hefur tvennan tilgang: í fyrsta lagi að losa virkjunina við affallsvatn sem inniheldur mikið magn af steinefnum og þar á meðal óæskilegum og jafnvel hættulegum efnum eins og arsen, og í öðru lagi til að jafna vatnsforðann í berginu undir og umhverfis virkjunarsvæðið. En eins og komið hefur fram í jarðvarmavirkjunum til dæmis í Kalíforníu og í Basel í Svisslandi, þá getur niðurdæling haft alvarlegar afleiðingar. Ég bloggaði einmitt um það hér árið 2009, eins og að ofan er getið. Það er vel þekkt fyrirbæri að þegar vatnsþrýstingur vex í jarðskorpunni vegna niðurdælingar, þá minnkar núningur á sprunguflötum og getur það svo hleypt af stað skjálftum. Auk skjálftavirkni, þá er annar þáttur sem veldur áhyggjum varðandi niðurdælingu. Það er efnasamsetning jarðhitavökvans og affallsvatnsins. Í því eru nokkur óæskileg efni, og þar á meðal arsen, kadmín og blý, sem geta eyðilagt grunnvatn sem nýtt hefur verið til neyslu í höfuðborginni og fyrir sunnan fjall. En lagt hefur verið til að Hellisheiðarvirkjun verði stækkuð. Við mat á umhverfisáhrifum stækkunar Hellisheiðarvirkjunar var áætlað að rennsli og niðurdæling affallsvatns tvöfaldist og yrði þá um 1100 l/s, þar af væri skiljuvatn um 800 l/s, þegar uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar yrði 303 MWe. Þá er hætt við að skjálftavirkni verði mun meiri og einnig að hættan vaxi með mengun grunnvatns. Nú er affallsvatni dælt niður í holur á um 400 metra dýpi, og er talið að það fari því neðar eða undir grunnvatn sem er tekið til neyslu. En grunnvatn höfurborgarsvæðisins og reyndar fyrir allan Reykjanesskagann er svo mikilvægt að hér verður auðvitað að sýna fyllstu varúð. En hver ber ábyrgð og hverjum má treysta? Er það Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem fylgist með? Hvað með skjálftavirknina? Verða Hvergerðingar bara að venjast því að fá skjálfta af stærðargráðunni 3 til 4 alltaf öðru hvoru? Er hætta á enn stærri skjálftum af þessum sökum? Mikil óvissa virðist ríkja á þessu sviði.

Jarðvangur á Snæfellsnesi

Frá nátturunnar hendi er Snæfellsnes kjörið til þess að þar verði stofnaður jarðvangur. Á Nesinu er ótrúleg fjölbreytni jarðmyndana og náttúrufyrirbæra af ýmsu tagi, og má með réttu segja að hér finnist á tiltölulega vel afmörkuðu svæði nær allar tegundir bergtegunda sem Ísland hefur uppá að bjóða. Á undanförnum árum hafa jarðvangar (jarðminjagarðar eða geoparks) verið stofnaðir um allan heim. Það eru nú 77 jarðvangar í 25 löndum, og þeim fer stöðugt fjölgandi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og sýnir þætti í náttúru, sögu og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Aðal tilgangur jarðvangs er að benda á mikilvægi svæðis, að beina náttúruunnendum inn á svæðið og þar með að styrkja ferðaþjónustu. Jarðvangur er ekki verndað svæði, en telja má, að með viðurkenningu á mikilvægi svæðisins fylgi betri umgengni og aukin virðing fyrir gæðum þess. Forgöngumennirnir fyrir hugmyndinni um jarðvang voru jarðfræðingar og þeir fyrstu voru stofnaðir í Evrópu. Innan Evrópu eru sérstök samtök – European Geopark Netvork. Utan um alþjóðlega þróun jarðminjagarða heldur Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNESCO). Nú er búið að stofna fyrsta jarðvanginn á Íslandi: Katla Geopark Project á Suðurlandi og hann hefur þegar fengið aðild að Evrópusamtökunum og vottun UNESCO. LjósufjöllHér leggjum við fram tillögu um þróun jarðvangs á Snæfellsnesi. Hugmyndin um jarðvang á Snæfellsnesi getur verið einn mikilvægur þáttur í varnaráætlun til að stemma stigu við fólksfækkun í þessum byggðakjörnum. Á Snæfellsnesi búa um fjögur þúsund manns, en fólksfækkun á svæðinu var um 5% á tímabilinu 2001–2010. Ekki er þó þróun mannfjölda alveg eins í öllum bæjarfélögum á Nesinu. Á tímabilinu 1994 til 2003 var til dæmis breyting á mannfjölda í einstökum bæjarfélögum á Snæfellsnesi sem hér segir: Kolbeinsstaðahreppur -11,0% , Grundarfjarðarbær 3,9%, Helgafellssveit -30,7%, Stykkishólmur -7,8% , Eyja- og Miklaholtshreppur -12,2% , Snæfellsbær -5,7%. Nú er brýn nauðsyn að vinna að þróun svæðisins í heild ogleita nýrra leiða til þess að stemma stigu við hinni miklu fólksfækkun sem hér er greinilega í gangi. Líklega er enginn atvinnuvegur sem getur vaxið jafnhratt á Snæfellsnesi og skapað jafnmörg ný störf á næstu misserum eins og ferðaþjónustan. Sem gjaldeyrisskapandigrein, þá er ferðaþjónustan og tekjur af erlendum ferðamönnum mikilvægur þáttur í efnahag landsins. Í dag skapar íslensk ferðaþjónusta meir en 20% gjaldeyristekna þjóðarbúsins, og undanfarin ár hefur hlutur ferðaþjónustu verið á bilinu 15 til 22% af heildarútflutningstekjum Íslands. Alls vinna nú um 9000 íslendingar við ferðaþjóustu eða í tengdum störfum. Skoðanakannanir sýna, að langvinsælasta afþreying erlendra ferðamanna á Íslandi er náttúruskoðun, gönguferðir og fjallgöngur, og einnig að minnisstæðasti þáttur dvalar þeirra hér á landi er náttúran og landslagið. Á Vesturlandi hefur ferðaþjónustan vaxið undanfarin ár. Á níu ára tímabilinu frá 1998 til 2008 hefur gistinóttum til dæmis fjölgað um meir en 200% á öllu Vesturlandi. Þessi fjölgun er töluvert yfir landsmeðaltali og lofar góðu um framtíðina, en ekki er enn ljóst hvort fjölgunin á Snæfellsnesi er sambærileg við þá sem mælst hefur á öllu Vesturlandi. Það má segja að undirbúningur fyrir vistvæna og sjálfbæra ferðaþjónustu á Snæfellsnesi sé þegar kominn í góðan farveg. Eins og kunnugt er hefur Snæfellsnes hlotið nýlega vottun frá hinum alþjóðlegu vottunarsamtökum Green Globe sem votta sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull dregur stöðugt fleiri ferðamenn inn á svæðið. Einnig er nú rekin fræðandi ferðaþjónusta (educational tourism) umhverfis allt Nesið sumar hvert, en það eru eins dags fræðsluferðir í jarðfræði og sögu á vegum Eldfjallasafns í Stykkishólmi. Jarðvangur er svæði, sem nær yfir merkilega jarðfræðilega arfleifð og þætti í náttúru og menningu, sem eru mikilvægir fyrir sjálfbæra þróun lands. Jarðvangur skal ná yfir svæði, sem er nægilega stórt til að leyfa hagnýta þróun þess. Innan jarðvangs skal vera nægilegur fjöldi af jarðfræðifyrirbærum, hvað snertir mikilvægi fyrir vísindin, eru sjaldgæf, og túlka til fegurðarskyns og mikilvægis fyrir menntun. Mikilvægi jarðvangs getur einnig verið tengt fornminjum, vistfræði, sögu eða menningu. Jarðvangur skal vinna samhliða að verndun svæðis og hagnýtri þróun þess í sjálfbæru jafnvægi, einkum fyrir ferðaþjónustu. Rekstur jarðvangs skal fara fram á þann hátt, að verndun, sjálfbær og hagnýt þróun sé í fyrirrúmi. Hvorki rýrnun, sala eða eyðilegging jarðminja og náttúrulegra verðmæta skal á nokkurn hátt vera leyfileg. Jarðvangur skal taka virkan þátt í efnahagslegri þróun svæðisins með því að styrkja ímynd sína og tengsl við ferðaþjónustu. Jarðvangur hefur bein áhrif á svæðið með því að bæta afkomu íbúa þess og umhverfið, en stofnun jarðvangs gerir ekki kröfur um lagalega verndun. Það er eðlilegt frá náttúrunnar hendi að allt Snæfellsnes myndi einn jarðvang. Á Snæfellsnesi mun Eyja- og Miklaholtshreppur gera ráð fyrir jarðvangi í aðalskipulagi sem nú er í auglýsingaferli og verður bráðlega staðfest. Helgafellssveit mun væntanlega einnig gera ráð fyrir því í fyrirhuguðu aðalskipulagi að jarðvangur geti verið innan marka hennar. Landfræðilega kemur einnig til greina að nærliggjandi svæði s.s. fyrrum Skógarstrandarhreppur, nú í Dalabyggð, fyrrum Kolbeinsstaðahreppur, nú í Borgarbyggð og Stykkishólmsbær, verði innan marka hugsanlegs jarðvangs á Snæfellsnesi og fleiri svæði koma einnig til greina. Tenging Jarðvangs við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul er fullkomlega eðlileg og raunar æskileg. Í Stykkishólmi eru stofnanir eins og Náttúrustofa Vesturlands, Háskólasetrið og Eldfjallasafn, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir starfssemi jarðvangs. Þessi sveitarfélög á innanverðu Snæfellsnesi gætu í góðu samstarfi við nærliggjandi byggðir, byggt upp áhugaverðan jarðvang að fyrirmynd European Geopark Network og stuðlað þar með að aukinni ferðamennsku innan svæðisins. Á Snæfellsnesi er að finna mjög fjölbreyttar jarðminjar og aðrar náttúruminjar. Fjölbreytileikinn felst í mismunandi gerð eldstöðva og hrauna, ölkeldum og áhugaverðri jarðsögu, fornum býlum og landnámsjörðum. Þrjár megineldstöðvar hafa skapað fjallgarðinn sem liggur eftir Snæfellsnesi endilöngu, frá austri til vesturs. Austast er megineldstöðin Ljósufjöll, sem reyndar nær alla leið frá Grábrók, um Hnappadal og vestur til Berserkjahrauns, alls 90 km leið. Myndin af Ljósufjöllum hér fyrir ofan er tekin af Söndru Dögg Björnsdóttur. Um mitt Nesið er lítt þekkt megineldstöð sem hefur verið nefnd Lýsuskarð, og vestast er sjálfur Snæfellsjökull, sem hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu sem þjóðgarður. Auk þess er þetta skrifar eru meðlimir í vinnuhópi um stofnun jarðvangs á Snæfellsnesi þessir: Reynir Ingibjartsson frá Hraunholtum í Hnappadal, Sturla Böðvarsson, Stykkishólmi og Skúli Alexandersson, Hellissandi.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband