Móbergskúlur eru jarðfræðilegar náttúruminjar
21.9.2009 | 20:29
Það er dálítið undarlegt að mesta gos á Íslandi, og reyndar stærsta hraunflóð á jörðu á sögulegum tíma, er kennt við fjall sem ekki gaus. Ég á auðvitað við móbergsfjallið Laka í Skaftáröræfum. Laki klofnaði í gosinu mikla 1783, þegar um 25 km löng sprunga reif öræfin, frá norðaustri til suðvesturs og hið mikla Eldhraun kom upp. Tvö mikil misgengi mynduðust í Laka umhverfis sprunguna, þar sem innri gerð móbergsins kemur vel fram. Í austara misgenginu er frábær opna inn í móbergið, sem hefur myndast við gos undir jökli á síðasta jökulskeiði, eða fyr en meir en tíu þúsund árum síðan. Allir sem koma inn í gilið sem misgengið myndar verða forviða að sjá að móbergið er allt fullt af kúlum sem eru á stærð við fótbolta. Ferðamenn kannast vel við staðinn, og Kári Kristjánsson, landvörður í Lakagígum, er lítið hrifinn af því hvernig ferðamenn hafa farið með þessar merku jarðfræðilegu náttúruminjar. Sumir hlaða móbergskúlunum upp í hrauka eins og hermenn í stórskotaliði gerðu með fallbyssukúlur áður fyrr, en aðrir bregða á leik og rúlla kúlunum um völlinn í keiluspili. En það keyrir þó um þverbak þegar ferðalangar stinga kúlunum í bakpokann og hverfa á braut með þessa minjagripi.
Eins og sjá má af myndinni fyrir ofan, þá eru móbergskúlurnar á víð og dreif inní móberginu, en við veðrun detta þær úr og liggja lausar á vellinum. Kúlurnar eru sem sagt eittthvað harðari en móbergið og veðrast hægar, en eru annars að öðru leyti alveg eins og móbergið, samansettar af glerkornum, ösku og litlum basalt steinbrotum sem hafa límst saman í berg. Móberg er reynar ein merkilegasta bergtegund Íslands, og með réttu ætti móberg að vera þjóðarsteinninn. Það er miklu algengara hér en í nokkru öðru landi á jörðu, og móbergsfjöllin setja sérkennilegan svip á landið. Að mínu áliti sýnum viðþessari merkilegu bergtegund ekki nægilega virðingu, en það var reyndar ekki fyrr en Surtsey gaus árið 1963 að vísindin fengu fulla mynd af því hvernig móberg myndast. Við vitum að móberg er hörnuð gjóska eða eldfjalls aska, sem hefur límst saman í berg. Í flestum tilfellum er gjóskan með efnasamsetningu basalts, og myndast við eldgos þar sem basalt kvika kemur í návígi við vatn, annað hvort undir jökli, í sjó eða vatni. En hvernig verða þessar undarlegu móbergskúlur til?
Sá fyrsti sem lýsir móbergskúlum á prenti var Jón Jónsson, í greinarkorni í Náttúrufræðingnum árið 1987. Jón hafði rekist á þetta fyrirbæri í Bæjarfelli í Krísuvík, Skiphelli í Mýrdal, Lambaskörðum í Kerlingardalsheiði og Syðri Stapa við Kleifarvatn. Jón segir þetta um uppruna móbergskúlanna í grein sinni frá 1987: Þær eru einfaldlega öskuboltar, sem orðið hafa til við það að blautt eða hæfilega rakt öskulag rúllaðist upp. Þetta er þá það sem við köllum syndepositional í jarðfræðinni: fyrirbæri sem verður til um leið og setlagið myndast.
Besta og stærsta myndun af móbergskúlum sem ég hef rekist á er í vestur hluta Kerlingarfjalls á Snæfellsnesi. Hér er móbergshamar sem er nokkrir tugir metra á hæð, alsettur móbergskúlum sem eru flestar um 30 sm í þvermál. Myndin til vinstri sýnir hamarinn, en við réttar aðstæður er þetta einn draugalegasti staður sem ég hef komið á, einkum þegar fer að rökkva. Þá líta kúlurnar út eins og mörg hundruð mannshöfuð sem kíkja út úr móberginu. Móbergskúlur af ýmsum stærðum finnast víðar í Kerlingarfjalli og einnig í móbergsfjallinu Valabjörgum, skammt fyrir austan Kerlingarfjall.
Við nánari athugun má sjá að það er dauf lagskifting í móberginu í Kerlingarfjalli, og að lagskiftingin liggur beint í gegnum móbergskúlurnar, eins og myndirnar hér til hægri og fyrir neðan sýna. Lagskifting verður auðvitað til á meðan á gosinu stendur, og orsakast af því að sprengingar í gosinu framleiða mismunandi gróft set. Ef lagskiftingin liggur í gegnum kúluna, þá hlýtur móbergskúlan auðvitað að myndast eftir lagskiftinguna, og er þá móbergskúlan postdepositional fyrirbæri, eða hefur myndast einhvern tíma eftir gosið.
Ef móbergskúlur myndast eftir gos, en ekki í gosinu, eins og Jón Jónsson taldi, þá verðum við að leita annara skýringa varðandi uppruna þeirra. Kúlur eru algengt fyrirbæri í setlögum um allan heim, og eru oftast nefndar concretions eða setkúlur, en þær eru algjörlega óþekktar í setlögum af gjóskubergi, eins og móberginu á Íslandi -- þar til nú. Slíkar kúlur myndast í setlögum vegna þess að límefni byrjar að myndast á milli sandkorna á einhverjum púnkti í setinu og límefnið berst út í allar áttir, til að mynda setkúlu. Þetta virðist vera tilfellið í íslensku móbergskúlunum, en ennþá vitum við ekki hvað límefnið er. Lang sennilegast er að það sé palagónít, sem er leirsteind eða míneral sem myndast þegar basalt gler byrjar að myndbreytast yfir í móberg, en sú myndbreyting veldur því að gjóska rennur saman í hart berg. Surtsey kenndi okkur að sú hörðnun getur gerst furðu hratt, eða á einum áratug eða svo.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bergfræði, Snæfellsnes, Ferðalög | Breytt 21.3.2010 kl. 14:39 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Haraldur,
þessar kúlur í Laka hafa áður vakið athygli mína en það var í annað sinn sem ég hef rekist á kúlur í íslenskri náttúru. Ég er ekki að tala um baggalúta heldur kúlur úr flykrubergi sem að því virðist veðrast úr flykrubergi utan í Hvítserk í Borgarfirði eystra. Kúlurnar eru allar brúnleitar en flykrubergið sem þær eru í er bleikt. Þetta er á frekar afskekktum stað en það var mjög undarlegt að sjá þær liggjandi á víð og dreif, sumar reyndar klofnar í skífur. Stærðin á þeim nær frá borðtenniskúlu upp í bowlingkúlu.
Ferðafélagi minn á þeim, heimamaðurinn Helgi Arngrímsson heitinn, hefur safnað nokkrum góðum stykkjum í garðinn sinn. Um uppruna eða myndun er erfitt að segja, þær virðast að hafa orðið til sem kúlur í þessu flykrubergslagi, sem er reyndar eitt mesta sem ég veit um á Íslandi, a.m.k. 350 m að þykkt, mjög sambrætt neðst og bleikt, líkt og sandsteinn efst þar sem við fundum kúlurnar. Sveinn Jakobsson frá Náttúrufræðistofnun hefur skoðað þetta eitthvað en hefur heldur ekki skýringu á tilurð þessara kúlna. Hefur þú hugmynd hvað hér gæti verið á ferðinni? Ef þú hefur áhuga get ég upplýst þig nánar um fundarstað o.þ.h. Því miður á ég engar myndir á rafrænu formi af kúlunum, bara gamaldags slidesmyndir.
Sendu mér t-póst á: legg@hive.is ef þú vilt vita meira.
Bestu kveðjur
Lúðvík E. Gústafsson, jarðfræðingur, Otrateigur 18, 105 Reykjavík
Lúðvík Eckardt Gústafsson (IP-tala skráð) 21.9.2009 kl. 21:00
Komdu sæll, Lúðvík, og takk fyrir ábendingarnar. Ég þarf að skoða þetta fyrirbæri. Ef lagið hefur verið mjög heitt, eins og sambræðslan bendir til, þá er hugsanlegt að þetta séu spherolitar, en ekki concretions. En báðir möguleikarnir eru fyrir hendi. Það er alltaf sama sagan: merkir steinar rata oft inn í garðana hjá mönnum!
Bestu kveðjur
Haraldur
Haraldur Sigurðsson, 5.10.2009 kl. 12:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.