Kólnar Norður Atlantshafið?
7.10.2015 | 15:13
Árið 1987 birti Bandaríski vísindamaðurinn Wally Broecker fræga grein í ritinu Nature, sem ber nafnið Unpleasant surprises in the greenhouse? Hann benti á að ein afleiðing af hnattrænni hlýnun gæti verið staðbundin kólnun á Norður Atlantshafi vegna veikari Golfstraums. Síðan greinin birtist fyrir 28 árum hafa stöðugt komið fram meiri upplýsingar sem styrkja kenningu Broeckers. Við félagar fjölluðum um þetta í sambandi við umhverfi Íslands í ítarlegri skýrslu til forsætisráðherrra árið 2006 (ESSI) og sýndum fram á þá að miklar breytingar eru að gerast á hitafari jafnvel djúpsjávar norðan og vestan Íslands. Einnig hef ég fjallað um breytingar í hafinu hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1283642/
Kenningin er sú, að hnattræn hlýnun geti hægt á Golfstraumnum og valdið staðbun dinni kólnun hér í norðri. Margir telja að hringrás hafstraumanna sé þegar byrjuð. Í þessu smabandi við ég benda á mynd, sem fylgir hér með. Stefan Rahmsdorf og félagar hafa nú í ár tekið saman öll gögn sem varða hitafar á yfirborði sjávar í Norður Atlantshafi, eins og myndin sýnir. Þetta er fyrir tímabilið frá 1900 til 2013. Takið eftir bláa blettinum í hafinu rétt sunnan Íslands og Grænlands. Hann sýnir kólnun á þessu svæði sem nemur um háfri til einni gráðu á öld. Þetta svæði er mjög vel kannað og mælingar traustar, ólíkt og blái bletturinn í miðri Afríku, þar sem gögn vantar. Blái bletturinn kemur einnig vel fram í nýjum gögnum sem NOAA hefur tekið saman fyrir tímabilið desember 2014 til febrúar 2015, sýnt á annari myndinni. Þar kemur í ljós að kólnunin á þessu svæði er einstök á heimsmælikvarða. Blái bletturinn eða kólnunin í Norður Atlantshafi er einmitt það sem líkön hafa spáð fyrir um, þegar Golfstraumurinn hægir á sér. Sérfræðingar kalla þennan straum AMOC (Atlantic meridional overturning circulation) eða hringrás Atlantshafsins. Sérfræðingar hafa spáð að það muni draga úr hringrásinni á milli 12 til 54% fyrir árið 2100. Rahmsdorf og félagar hafa notað ýmis gögn (ískjarna, trjáhringi ofl.) til að sýna hvernig hiti í Norður Atlantshafi sunnan Grænlands og Íslands hefur verið undanfarin eitt þúsund ár, eins og sýnt er á mynd númer þrjú. Myndin sýnir mismuninn á hita í bláa blettinum, og hita á yfirborði alls Norður Atlantshafs. Kónunin í bláa blettinum sunnan Grænlands of Íslands síðan um 1975 kemur hér vel fram og að hún fer vaxandi. Hverjar verða afleiðingarnar af þessum breytingum fyrir Ísland, miðin okkar, veðurfar? Enginn veit, og lítið eða ekkert fjallað um málið hér á landi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Þessi kuldapollur er frekar nýtilkominn á þessu svæði. Þarna var jákvætt hitafrávik þangað til fyrir nokkrum árum. Það má sjá frávik á þessu svæði víðsvegar í samantektum, t.d.
http://old.ecmwf.int/products/forecasts/d/charts/oras4/reanalysis/sections/xymaps/1y!1y!2005!Anomaly!Sea%20Surface%20Temperature!/
Þetta hafsvæði sveiflast mjög í hita, og kuldapollurinn er enn sem komið er langlíkastur því sem búast mætti við vegna óvenjumargra vetrarstorma, mælingar á styrk MOC yfir 35N (Rapid Array) sýna ekki slíkan samdrátt að það útskýri þennan kuldapoll.
Það breytir því ekki að þessi kuldapollur er ákaflega líkur því sem sést í loftslagslíkönum þar sem samdráttur er á MOC. Í meðaltölum líkana er þetta oft svæði þar sem lítið hlýnar, en í einstökum líkönum beinlínis kólnar. Eins og þú bendir á hefur þetta verið til umfjöllunar lengi, og m.a. er fjallað um þetta á bls 78 í þessari skýrslu hérna:
http://brunnur.vedur.is/pub/visindanefnd/Visindanefndarskyrsla_Lagupplausn.pdf
Hvort núverandi kuldapollur er tímabundið frávik þeirri almennu hlýnun sem hefur orðið á N-Atlantshafi á undanförnum áratugum, eða fyrstu merki samdráttar í MOC hringrásinni, - er samt enn sem komið er ekki ljóst.
Megnið af hafinu norðan við Ísland er ennþá óvenju hlýtt, en ef hægði á MOC mætti búast við að streymi hlýsjávar þangað færi líka að dragast saman. Við myndum þá sjá kólnun þar(sjá t.d. í sjávarhitagreiningunum hér að ofan á kaldsjávartímanum, t.d. árið 1970).
Páll Bergþórsson hefur skrifað nokkuð um að viðsnúningur í aðstæðum í hafi sé þegar orðinn að veruleika. Hafi hann rétt fyrir sér mætti þá búast við kólnun á hafsvæðinu norðan við landið, - og útbreiðslu hafíss. Hjá Páli er þetta reyndar hluti af flóknara ferli sem ég ætla ekki að rekja hér, en það er tvímælalaust rétt hjá honum að áratugasveiflur á hitafari á Íslandi eru staðreynd, og engin ástæða til að ætla að þær hverfi þó það hlýni í heiminum (sjá t.d. bls 72 í ofangreindri heimild).
Það er hinsvegar mikill munur á niðursveiflu MOC í einhver ár, eða áratug og hruni kerfisins og Rahmstorf og co gefa til kynna að geti verið að gerast. IPCC hefur lengi metið líkur þess ákaflega litlar, en Stefan hefur held ég aldrei verið alveg sammála því mati.
Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 7.10.2015 kl. 23:27
Haraldur. Mér finnst eins og allt sem gerist hér á jörðinni sé stjórnað af einhverjum öflum, sem ekki sjá heildarmyndina á ábyrgan hátt.
Í dag er engu líkara en að stjórnsýslustöð allra heimsins fræða sé eins ótraustvekjandi og illa ofið teppi, með óteljandi lausa og munaðarlausa villuráfanda spotta.
Og hvernig á að greiða úr netaflækju regluverka-ruglsins, og festa alla lausu spottana í trygga höfn?
Ekki hef ég nægt vitrænt hugmyndaflug til að láta mér detta í hug einhverja allsherjarvitræna lausn á bankabrellu-vefnaðarvillu-vandanum endafestu-lausa.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 8.10.2015 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.