Framrás atburða í Bárðarbungu og Holuhrauni

fjöldi skjálftaFjöldi skjálfta er einn mælikvarði á virkni Bárðarbungu.  Fyrsta myndin sýnir uppsafnaðan fjölda skjálfta undir eldstöðinni frá upphafi óróans hinn 16. ágúst 2014.   Betri mæling væri að skoða uppsafnað skjálftavægi, því skjálftarnir eru að sjálfsögðu misstórir,  en ég hef ekki aðgang að þeim gögnum.  Í þessu tilfelli skiftir það ekki svo miklu máli, því stóru skjálftarnir (um 5 til 5,5) hafa alltaf verið fyrir hendi.   Það er greinilegt að eftir umbrotin miklu í lok ágúst og byrjun september, þá hægði mikið á,  og skjálftavirkni var nokkuð stöðug  þar til hægði á henni enn meir í kringum 13. október.   

Flatarmál hraunsAnnað línurit sem ég læt fylgja hér með, er þróun á flatarmáli hraunsins í Holuhrauni. Gögnin eru frá Fjarkönnun ehf.,  TerraSAR gervihnetti og vef Veðurstofunnar.  Eins og myndin sýnir, þá óx flatarmál hraunsins nokkurn veginn línulega í september, en í október hefur kúrvan greinilega beygt af og vex nú flatarmálið hægar en áður. Það geta verið tvær orsakir á því: (1) að meira magn af kviku fari í að gera hraunið þykkara, eða (2) að framleiðsla á kviku upp á yfirborð sé að minnka.  Aðeins upplýsingar um þykkt hraunsins geta skorið úr um það, en ég hyllist að því að það hafi smátt og smátt dregið úr hraunrennsli.  Það verður fróðlegt að fylgjast með þessari þróun, því hægt er að nota þessa kúrvu til að spá fyrir um hvenær hraun hættir að renna.  Það gerist þegar kúrvan er orðin lárétt.   Verður það samtíma því, að sig íshettunnar yfir Bárðarbungu hættir?  Enginn veit, en við fylgjumst spennt með.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér hefur sýnst á nýlegum myndum að hraunrennsli úr gígunum sé ennþá mjög mikið og fari síst minnkandi. Eðlilega rennur það meira en áður yfir þegar runnin hraun þannig að í heildina ætti hraunið að þykkna.

Hinsvegar er greinilegt að gosstrókarnir eru orðnir mjög litlir og ná varla flugi. Kvikar kraumar eiginlega bara í gígunum áður en hún flæðir frá þeim eins og glóandi stórfljót.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.10.2014 kl. 12:21

2 identicon

Alltaf finnst mér spennandi sú tilgáta að gosið í Holuhrauni sé í raun byrjun á myndun hraundyngju.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 18.10.2014 kl. 14:15

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Flatarmálstölurnar bend til að gríðarlegur kraftur haf verið í gosinu áður en það lenti í ánni en eftir það hafi dregið mikið úr því.

Ég held að hraunið hafi bara verið mjög þunnt þangað til að það lenti í ánni og eftir það hefur það aðalega þykknað. Nýlegar frásagnir af staðnum, aukið gas, myndir sem sýna hrauntjarnir í allt að 100m hæð yfir lálendinu, ný hraun ofan á nokkura vikna gömlum hraunum og stöðugur órói á staðnum passar líka illa við að hraunrennsli hafi minnkað. Minni strókar stafa þá kannski af því að gosrásin hefur víkkað, hrauntjörnin stækkað og rennslishraðinn minnkað.

Guðmundur Jónsson, 18.10.2014 kl. 15:29

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nú virðist sem skjalftavirkni sé að aukast við Tungnafellsjökul og minnka við gosstöðvarnar og Dyngjujökul. Er hugsanlegt að ný útrás sé að verða þar?

Jón Steinar Ragnarsson, 18.10.2014 kl. 19:05

5 Smámynd: Snorri Hansson

Ég bíð óþolinmóður eftir rúmmáls mælingu á hrauninu  sem hlýtur að birtast þegar gosið hefur í tvo mánuði.

Eitt fer í taugarnar hjá mé.

Það eru fréttamenn sem eru að "redda" fréttum af 

þessum náttúru hamförum, greinilega án þess að hafa nokkurn minnsta áhuga á þeim sjálfir. Síðan kemur fréttin sem segir að gosið sé að stórminka.

Þannig hefur það verið alveg síðan gosið byrjaði.

Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á jarðfræðinni er eldgos álíka spennandi og að horfa á málningu þorna .

Snorri Hansson, 19.10.2014 kl. 03:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband