Stóra öskjusigið

stóra sigiðStærsta öskjusigið til þessa undir Bárðarbungu varð um kl. 5 í morgun.  Þá seig miðja jökulsins yfir Bárðarbungu um meir en einn meter, samkvæmt GPS mælinum, sem er staðsetur yfir miðri öskjunni.  Sjá mynd hér með, sem er af vef Veðurstofunnar.  Ekki er enn ljóst hvort jarðskjálfti hefur verið þessu samfara, en sennilega er þó svo.  Eftir er að yfirfara jarðskjálftagögnin áður en þau birtast á vefnum. Þetta boðar einhverja rúmmálsbreytingu í kvikuþrónni og ef til vill aukið streymi kviku í ganginum og upp á yfirborð.

Viðbætir: Skömmu síðar hefur yfirborð jökulsins hækkað, og er því heildarsigið í þessu atviki um 30 cm.  En þessi sveifla er einkennandi um meiri óróa í lóðréttum hreyfingum jökulsins  undanfarinn sólarhring.  Ef til vill er þaðvegna þess að jökullinn er bæði að brotna og síga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Getur verið að sveiflan á hæð yfirborðs jökulsins stafi af því að mikið vatn sé komið undir hann, þannig að þegar askjan sígur um 30 cm þá sekkur jökullinn aðeins meira ofan í vatnið en réttir sig svo af?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 09:12

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Mér dettur í hug helst að sprungur séu að myndast í jöklinum og að spildur séu að sprreisast á yfirborði hans, þaðr sem GPS mælirinn er staðsettur. Óreglur í mælingum geta verið tengdar slíkum yfirborðshreyfingum, en ekki beinu sigi alls jökulsins.

Haraldur Sigurðsson, 27.9.2014 kl. 11:39

3 identicon

Ein spurning

Hvort er yfirborð Bárðarbungu (fjallsins) að síga eða jökullinn á yfirborði hennar að bráðna (nema hvortveggja sé). Ég hef ekki séð neitt um það. Myndist skál á yfirborðinu er eitthvað að gefa eftir undir yfirborðinu.

Björn Sigurður Lárusson (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 12:39

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Jú, ég fjallaði einmitt um þetta í fyrirlestri mínum hjá Ferðafélagi Íslands á fimmtudag sl.  Setti fram þá hugmynd að sigið á yfirborði jökulsins væri bæði vegna raunverulegs öskjusigs (botn öskjunnar sígur niður í kvikuþró) og vegna bráðnunar á botni jökuls inni í öskjunni. Þrepsig verða þegar stórir skjálftar ríða yfir, en þess á milli er hægfara sig, ef til vill vegns stöðugrar bráðnunar. Þýðir það að kvika er komin upp undir jöklinum, í botni öskjunnar, eða er það einungis hiti, sem streymir upp sprungur í jarðskorpunni?  Veit ekki....

Haraldur Sigurðsson, 27.9.2014 kl. 13:38

5 Smámynd: Snorri Hansson

Þetta náttúrufyrirbrigði er ótrúlega mikilfenglegt og margbrotið.

Snorri Hansson, 28.9.2014 kl. 01:52

6 identicon

Askjan eða tappinn öllu heldur skoppaði a.m.k. áðan ef marka má GPS mælingarnar.

Gunnar Ingi Halldórsson (IP-tala skráð) 30.9.2014 kl. 21:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband