Gangurinn undir Vatnajökli
23.8.2014 | 16:17
Öll þjóðin hefur fengist að fylgjast með vexti og þróun berggangsins, sem hefur klofið sér leið í gegnum jarðskorpuna norðaustan við Bárðarbungu. Hvergi á jörðu er jafn almennur áhugi fyrir hegðun jarðar, enda hafa fyrri byltingar íslenskra eldfjalla haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þjóðina. Nú virðist kvika úr ganginum hafa náð yfirborði í Dyngjujökli. ISOR hefur birt ágæta mynda af dreifingu jarðskjálfta undanfarið og tengt virknina nú við fyrri eldvirkni á svæðinu. Þessa mynd má sjá hér: http://www.isor.is/frettir/holuhraun-kvikuflutningar-fra-bardarbungu
ISOR stingur uppá, að eldgosið sem myndaði Holuhraun við norður rönd Dyngjujökuls árið 1797 kunni að vera komið úr Bárðarbungu, á svipaðan hátt og gosið, sem hófst í dag. Það gos, árið 1797, braust út á yfirborðið utan jökulsins og olli því ekki jökulhlaupi.
Þróun nýja kvikugangsins er vel lýst í gögnum, sem Jarðvísindadeild Háskóla Íslands hefur birt. Mynd þeirra er hér sýnd fyrir neðan, en hana má finna hér: http://jardvis.hi.is/uppfaert_kort_stadsetning_jardskjalfta_sil_jardskjalftamaelakerfi_vedurstofu_islands_og_faerslur
Hreyfingar mældar af GPS stöðvum umhverfis jökulinn gera kleift að mynda líkan af kvikuinnskotinu eða þróun kvikugangsins. Þetta bendir til gangs sem er um 1,6 m á breidd og um 20 km langur. Þá vakna spurningar um það, hvaðan kemur kvikan, sem safnast fyrir í ganginum? Kemur hún út úr grunnri kvikuþró, undir öskju Bárðarbungu? Er kvikustreymi í gangi undir Bárðarbungu, sem kemur dýpra að?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bárðarbunga, Berggangar, Eldgos | Breytt s.d. kl. 16:19 | Facebook
Athugasemdir
setti upp smá bíó af þróuninni á https://dl.dropboxusercontent.com/u/40576923/bardarbunga.gif
myndin ætti að skýra sig sjálf nema hvað að guli hringurinn er miðgildi á staðsetningu skjálfta hverrar klukkustundar, svarta línan sýnir sögu á miðgildi.
kveðjur
einar
einar (IP-tala skráð) 23.8.2014 kl. 17:00
Einar: Takk fyrir þetta. En ég hef eina spurningu: Sýnir þú alla skjálfta hér, burtséð frá gæðum? Veðurstofan gefur upplýsingar um gæði á ákvörðun hvers skjálfta. Það er best að sleppa öllum skjálftum sem hafa gæði undir 60%, að mínu áliti. Þá verður myndin enn skýrari.
Haraldur Sigurðsson, 23.8.2014 kl. 18:31
þegar filterað, gæði >= 60
uri-gso kveðjur - þú finnur mig í símaskránni :-)
einar
einar (IP-tala skráð) 23.8.2014 kl. 18:48
Sæll Haraldur
Mig langar bara til að þakka fyrir góðan og fróðlegan pistil.
Með góðri kveðju
Ágúst H Bjarnason, 24.8.2014 kl. 00:36
Haraldur, í Öskju 1875 varð plínískt gos þegar basaltgangur komst í snertingu við súran gúl (eldgos.is). Er eitthvað vitað um efnasamsetningu á þessum kvikugangi núna og efnasamsetningu á því sem er undir Öskju nú? Eru líkur á plínísku gosi ef kvikugangurinn nær inn í Öskju?
Með kveðju
Einar
Einar Árnason (IP-tala skráð) 27.8.2014 kl. 19:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.