Loftslagsspá og Norðurheimskaut

HafísVísindin eru til lítils gagns, ef við getum ekki beitt þeim til að gera spár um framtíðina.  Þannig höfum við til dæmis veðurspá, hagspá og síðast en ekki síst loftslagsspá.  Loftslag á Norðurheimskautinu hlýnar nú hraðar en á nokkru öðru svæði á jörðu.  Hvað með framhaldið?  Mest áberandi af breytingum á þessu svæði er bráðnun hafíss, en hann hefur dregist saman sem nemur 75% síðan á áttugasta áratug síðustu aldar.   Fyrsta myndin sýnir flatarmál hafíss á norðurhveli (svarta þykka línan).  Lituðu línurnar sýna ýmis líkön af þróun hafíss á norðurhveli allt til ársins 2100.  Þetta er einn þáttur af spá, sem James Overland og félagar hafa nýlega birt um framtíðarhorfur loftslags á norðurslóðum.  Þetta er byggt á flóknu reiknilíkani, þar sem vaxandi CO2 er mikilvægur þáttur, en einnig breytingar sem verða á endurskini eða albedo jarðar þegar hafísinn fer af og dökkt hafið drekkur í sig sólarhitann.  Takið eftir að það er mikil breidd í hafísspánum  sem sýndar eru af lituðu línunum, en mér þykir merkilegast að raunveruleikinn (svarta línan) er fyrir neðan þær allar. Sem sagt: spárnar fyrir hafísinn eru sennilega of bjartsýnar.  Hafís á norðurhveli verður sennilega horfinn að fullu í kringum 2050. HitafarÞeir reikna út tvennskonar loftslagslíkön, sem sýnd eru í annari myndinni.  Annars vegar er bjartsýnislíkan þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði verulega úr CO2 útblæstri á jörðu í náinni framtíð (bláa línan), en hins vegar er svartsýnislíkan, sem byggist á business-as-usual, þ.e.a.s. að við jarðarbúar höldum áfram uppteknum hætti og mengum CO2 út í andrúmsloftið á sama hátt og nú ríkir (rauða línan).  Spáin er fyrir Norðurheimskautssvæðið (60oN–90oN) og nær því einnig yfir Ísland.  Kúrfurnar eru frávik frá langtíma meðaltalinu fyrir árin 1981 til 2005, en líkanið nær til ársins 2100 en ég sýni aðeins tvo mánuði hér: janúar og maí.  Takið eftir að línuritið sýnir ekki absolút hitastig, heldur hlutfallslega hækkun, miðað við 1981-2005 meðaltalið fyrir viðkomandi mánuð.  Það er augljóst að líkönin sýna stórfelda hlýnun á norðurhveli, jafnvel fyrir bjartsýnasta líkanið.  Hlýnun er hlutfallslega miklu meiri að vetri til en sumri.  Nú er bara að fylgjast með, og einnig sjá hvernig líkön verða bætt og endurbætt í náinni framtíð. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta slææmt eða gott, þ.e. hvað áhrif mun þetta hafa, t.d. hér á landi?

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 17.7.2014 kl. 08:48

2 identicon

Eldfjallafræðingurinn Haraldur Sigurðsson fer létt með að bræða ís í þessu kostulega spábloggi.

"Þannig höfum við til dæmis veðurspá, hagspá og síðast en ekki síst loftslagsspá."(sic) Íslendingar þekkja mæta vel að lítið er að marka veðurspá og hagspá. Loftslagsspár IPCC hafa sýnt sig að vera 99% ómarktækar!

Nóbelsverðlaunahafinn (!) Al Gore spáði fyrir um íslaust Norður-íshaf árið 2014. Hvernig skyldi staðan vera á Arktíku um þessar mundir HS? :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 17.7.2014 kl. 09:13

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Er það slæmt eða gott, ef viussar tegundir af fiskum koma inn á miðin og aðrar hverfa? Er það slæmt eða gott, ef makríllinn étur öll sandsílin og krían fær ekkert til að fæða unga sína? Er það slæmt eða gott, ef sjórinn hlýnar umhverfis land og við getum farið í sjóbað?  Gott fyrir suma, en slæmt fyrir aðra. Það er ekki hlutverk vísindanna að dæma um slæmt eða gott, heldur að reyna að finna út hvað er að gerast og hversvegna það gerist.

Haraldur Sigurðsson, 17.7.2014 kl. 11:14

4 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Var það slæmt eða gott hjá Rússum að henda viðmiðun ICES um 20% aflareglu í Barentshafi, fundna með "vísindalegum" aðferðum ICES og leyfa miklu meiri veiðar en ICES mælti með eftir allar vísindarannsóknirnar? Útkoman varð tvöföldun heildarafla samkvæmt lögmálum náttúrunnar þ.e. þú geymir ekki fisk í sjónum ef hann hefur ekki fæðu því þá fer hann að éta undan sér, þannig að nú hefur ICES fylgt á eftir og aukið sína "vísindalegu" veiðiráðgjöf ár frá ári út frá náttúrulegri veiðireynslu Rússa, sem ekki laut vísindalögmálum ICES! Man ekki til að hátt hafi farið með úrskýringar ICES hvernig á þessu stendur.

Við töpum milljörðum á hverju ári vegna þess að við látum ICES ákvarða heildarafla okkar samanber nýútgefna veiðiráðgjöf. Af því jú, við erum nefnilega svo ábyrg, og förum eftir vísindum sem ekki má efast um. Og höfum þess vegna ekkert lært af misheppnaðri veiðiráðgjöf sem hefur ekki tekist að auka heildarafla við Íslandsstrendur í 30 ár, og heildarafli þorsks er helmingi minni nú, eftir vísindalegri ráðgjöf, en þegar illa menntaðir Bretar óðu hér uppi í landsteinum og "arðrændu" fiskimiðin okkar eftir nefvisku sinni. Hvers konar vísindi eru það sem ekki þróast þegar ekkert gengur?

Farið er að sveipa vísindamenn dýrðarljóma þannig að flest allt sem frá þeim kemur er talið hafið yfir allan vafa. Og sérstaklega ef það fjallar um loftslagsmál. Þeir sem dirfast að andmæla eru bara sagðir vera farnir að afneita vísindum og hafi ekkert vit á málunum. Það eru ekki góð vísindi ef þau eru hafin yfir allan vafa. Stundum virðast "vísindamenn" gleyma þessu.

Mér finnst líka magnað þegar vísindamenn eru farnir að tala um CO2 sem mengun. Án CO2 værum við ekki hér!

Loftslagsreiknilíkön eru það sem þau eru, manngerð og þannig takmörkuð af spádómsgetu út frá vitneskju mannsins sem býr þau til. Það er nú þegar viðurkennt að mannkyn á margt eftir ólært um hringrás loftslags til að geta líkt nákvæmlega eftir því, enda ganga engar loftslagsspár eftir og illa hefur gengið að útskýra hvers vegna þær reynast rangar. Menn halda hitt og þetta og m.a. það að hafið gleypi nú hita sem ekki skilar sér í andrúmsloftið samkvæmt þessu ofurgóðu og manngerðu reiknilíkönum. Sömu menn segja líka að heitara haf bindi minna CO2, en vita að sjálfsögðu ekki hvenær hitastig hafs nær þeim punkti að fara gefa frá sér meira CO2 en það bindur, og búa þar með til aðra "runaway" theory um þróun hitastigs á jörðunni, sem að sjálfsögðu er manninum að kenna, ekki náttúrunni. Það reiknilíkan er ekki til sem líkir það vel eftir loftslagi jarðar að nákvæmar framtíðarspár komi út úr endaþarmi þess.

Loftslagsvísindi snúast fyrst og fremst um það að búa til bókhaldslega eign úr lífsnauðsynlegri lofttegund og kalla hana mengun til að áróðurinn verði áhrifaríkari fyrir fávísan almenninginn þannig að hægt verði að verðleggja hana meira. Þegar menn verða búnir að ná markmiðum sínum með að verðleggja allan útreiknaðan CO2 útblástur mannsins, og án þess að ná að hemja náttúruna nokkurn hlut, snúa þeir sér að vatnsgufu sem er enn áhrifameiri gróðurhúsalofttegund en CO2, og búa til losunarkvóta fyrir hana líka.

PS: Í athugasemd við annan pistil spurði ég þig Haraldur hvort það væri rétt að um fjórðungur þess CO2 sem talið er að maðurinn hafi losað hafi verið losaður eftir 1998. En bólar ekki á svari.

Erlingur Alfreð Jónsson, 17.7.2014 kl. 22:56

5 identicon

Varðandi athugasemd Erlings um fjórða partinn þá er það rétt að stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá iðnbyltingu átti sér stað á síðustu áratugum. Það er aðeins breytilegt hvaða hlutfall reiknast eftir því hvaða þættir eru teknir með.

Besta yfirlitið um losun má finna hjá Global Carbon Project verkefninu (http://www.globalcarbonproject.org/carbonbudget/index.htm ) og sérstaklega má benda á nýjustu kynningar þeirra, t.d.  á
http://www.globalcarbonproject.org/carbonbudget/13/presentation.htm

Mynd 22 í þeim glærum (bls 22 í pdf skjali; titill er: Cumulative emissions and emission scenarios) sýnir núverandi losun í samhengi við sviðsmyndir af framtíðarlosun. Mér sýnist af þeirri mynd að árið 1980 hafi uppsöfnuð losun verið c.a. 335 CtC. Árið 2000 hafi uppsöfnuð losun verið orðin um 480 GtC og árið 2012 um 600 GtC. Ég las þessar tölur bara af myndinni svo þeim fylgir rífleg óvissa, en af þeim má þó ráða að um fimmtungur losunar hafi átt sér stað á nýhafinni öld.  Miðað við óvissumörk  passar þetta  ekki illa við fjórðungshlutfallið sem Erlingur nefnir.

Hvað þýðir þetta? Til að svara því þarf að skoða afganginn af bókhaldinu, t.d. myndir bls 36 og áfram. Upptaka kolefnis hefur líka aukist (bæði hafið og yfirborð lands) en eftir sem áður verður sífellt meira eftir í lofthjúpnum. Þetta má sjá á mynd 41 sýnir að vaxtarhraðinn í lofthjúpnum hefur aukist, en ekki jafnhratt og losun.  Á nýhafinni öld hefur styrkur CO2 í lofthjúpnum aukist úr um 370 í um 397 ppm (m.v. ársmeðaltöl á Hawaii, sjá http://co2now.org/Current-CO2/CO2-Now/noaa-mauna-loa-co2-data.html).

Þessi aukning er oft rædd í samhengi við "meintan skort á hlýnun" (sem á "fínu" máli er einnig kallað "warming hiatus") en þá er átt við að hlýnun á þessari öld er minni en hlýnun áratugina á undan, þrátt fyrir aukinn styrk CO2.

Því fer fjarri að öll kurl séu komin til grafar varðandi þetta "hik", og skýringar stangast nokkuð á. Meðal skýringa má nefna að a) þetta sé að hluta misskilningur, það sé að hlýna en á svæðum þar sem lítið sé um hitamæla (sjá t.d. Cowtan og Way 2013 http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1002/qj.2297/abstract ), b) aðstæður í Kyrrahafi valdi því að þar sé upptaka varma meiri en áður sem hægi á hlýnun (England ofl 2014,http://www.nature.com/nclimate/journal/v4/n3/full/nclimate2106.html ) og c) brennisteinsmengun vegna eldgosa hafi kælt lofthjúpinn á síðustu árum (Santer ofl 2014,  http://www.nature.com/ngeo/journal/v7/n3/full/ngeo2098.html ).

Eins er oft bent á að 15 ár er stuttur tími og hnattrænt hitastig hefur hlýnað skrykkjótt á síðustu öld. Gögnin sýna að nokkur tímabil kyrrstöðu eða jafnvel kólnunar skipst á við árabil með ákafri hlýnun. Og benda má á að þær skýringar sem nefndar eru hér að ofan gefa ekki tilefni til þess að halda að kyrrstaðan haldi áfram. Vandinn við CO2 er að það er langlíft í lofthjúpnum, megnið af þeirri umframlosun sem nú á sér stað verður til staðar öldum saman. 

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 19.7.2014 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband