Askja sígur
29.6.2014 | 07:07
Askja er ein stærsta eldstöð Íslands. Í Öskju eru þrjár öskjur eða hringlaga sigdældir, og er sú yngsta frá gosinu 1875: Öskjuvatn. Það var stórt sprengigos, sem dreifði mikilli ösku yfir Austurland og kann að hafa hrint af stað fólksflótta til Norður Ameríku. Ekki hefur gosið hér síðan 1961 en Askja er ætíð óróleg undir niðri. Jarðeðlisfræðingar hafa fylgst með Öskju síðan 1966. Myndin sýnir hæðarbreytingar í Öskju frá 1966 til vorra daga, eftir Sturkell. Þetta er alls ekki einfalt, því ýmist rís eða sígur öskjubotninn. Þessar mælingar benda til þess að það séu hreyfingar á kviku á um 2,5 til 3 km dýpi undir miðri öskjunni. Einnig virðist kvika vera á hreyfingu á um 16 km dýpi, eins og önnur mynd sýnir, eftir Soosalu og félaga. Þar kemur vel í ljós að jarðskjálftar raða sér á tvö vel aðskilin dýpi í jarðskorpunni undir Öskju og Herðubreiðartöglum. En Askja er einnig á flekamótum og gliðnun og aðrar flekahreyfingar hafa því einnig áhrif á lóðréttar hreyfingar jarðskorpunnar. Það er reyndar allt nágrenni Öskju sem hefur verið á hreyfingu undanfarin ár. Ekki má gleyma hinum stöðugu jarðskjálftum, sem herjuðu í jarðskorpunni djúpt undir Upptyppingum árið 2007 og tíðum jarðskjálftum undir Herðubreiðartöglum. Að öllum líkindum er kvika oft á hreyfingu á flekamótunum í grennd við Öskju. En það er ekki þar með sagt að eldgos séu í nánd. Okkur ber að hafa það í huga, að meiri hluti kvikunnar, sem kemur upp úr möttlinum, safnast fyrir í jarðskorpunni sem berggangar og önnur kvikuinnskot, og aðeins brot af kvikunni kemur upp á yfirborðið. Það er því miður engin GPS stöð staðsett í Öskju, en sú næsta er á Dyngjuhálsi, um 40 km fyrir suðvestan og við norður rönd Vatnajökuls. Á Dyngjuhálsi rís land, sennilega vegna bráðnunar Vatnajökuls. Bráðnunin kemur vel fram í árstíðasveiflum á GPS ritinu fyrir neðan.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Askja, Eldgos, Jarðeðlisfræði | Facebook
Athugasemdir
En af hverju er landris undir Skrokköldu og Grímsvötnum eins og sést hér á mynd 5 :
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1365-246X.2008.04059.x/full
Pétur Þorleifsson , 29.6.2014 kl. 09:46
Landris á báðum þessum svæðum og reyndar á öllu umhverfi Vatnajökuls, stafar af bráðnun jökuls. Það léttir á skorpunni.
Haraldur Sigurðsson, 29.6.2014 kl. 10:52
Einhvers staðar sá ég því haldið fram að landrisið þarna undir Skrokköldu og Grímsvötnum væri ekki vegna loftslagsbreytinga. Ég veit ekki meir, en landrisið virðist ekki vera jafnt í og við jökulinn. Allt landið að rísa nema Suðvesturlandið. Mest á Suðausturlandi. Áhrif á eldvirkni verði eins og eitt Gjálpargos á þrjátíu ára fresti.
Hér var minnst á að vegalengdin frá miðju jökulsins væri sú sama til Hornafjarðar og til Kárahnjúka, 75 kílómetrar.
Pétur Þorleifsson , 29.6.2014 kl. 18:59
Sæll Haraldur. Í tilefni skrifa þinna um jarðskorpuna, sem þú ert manna fróðastur um, langar mig að spyrja um álit þitt á því að vinna eldsneyti úr jörðu með svokölluðu bergbroti (fracking). Er það ekki einfaldlega stórhættulegt að fokka svona í berggrunni jarðarinnar?
Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 1.7.2014 kl. 14:45
Ingibjörg: Ég er einmitt að skrifa um þetta efni núna. Kannske á morgun.......
Haraldur Sigurðsson, 1.7.2014 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.