Jarðspá og Galapagos

Markmið vísindanna er að kanna og skilja náttúruna. Þegar því takmarki er náð, þá eru vísindin fær um að beita samansafnaðri reynslu og upplýsingum  til að spá um framvindu mála á hverju sviði náttúrunnar.  Við spáum til dæmis í dag bæði veðurfari, þróun hagkerfa, þroskun fiskistofna og uppskeru. Spáin er það sem gefur vísindastarfsemi gildi. Vísindi sem eingöngu lýsa hegðun og ástandi náttúrunnar eru ónýt, ef spágildi er ekki fyrir hendi.  En stóri vandinn er sá, að stjórnmálamenn, yfirvöld og jafnvel almenningur hlusta oft ekki á spár vísindanna. Besta dæmið um það eru nær engin viðbrögð yfirvalda við spá um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar.  Ef vandamálið er hægfara og kemst ekki inn í fjögurra ára hring kosningabaráttunnar í hverju landi, þá er það ekki vandi sem stjórnmálamenn skifta sér að.  Ég hef til dæmis aldrei heyrt íslenskan stjórnmálaflokk setja loftslagsbreytingar framarlega á stefnuskrá sína.

 

Jarðvísindamenn hafa safnað í sarpinn fróðleik í meir en eina öld um hegðun jarðar, en satt að segja tókst þeim ekki að skilja eðli og hegðun jarðar fyrr en í kringum 1963, þegar flekakenningin kom fram.  Þá varð bylting í jarðvísindum sem er sambærileg við byltingu Darwinskenningarinnar í líffræðinni um einni öld fyrr.  Nú er svo komið að við getum spáð fyrir um flekahreyfingar á jörðu, þar sem stefna og hraði flekanna eru nokkuð vel þekktar einingar.  Þannig er nú mögulegt til dæmis að spá fyrir um staðsetningu og hreyfingu meginlandanna.  Önnur svið jarðvísindanna eru ekki komin jafn langt með spámennskuna. Þannig er erfitt eða nær ógjörlegt ennþá að spá fyrir um jarðskjálfta og eldgosaspá er aðeins góð í nokkra klukkutíma í besta falli. 

 Galapagos

Við getum notað jarðspá til að segja fyrir um breytingar á jarðskorpu Íslands í framtíðinni og um stöðu og lögun landsins.  Ég gerði fyrstu tilraun til þess í kaflanum “Galapagos – Ísland framtíðar?”  í bók minni Eldur Niðri, sem kom út árið 2011 (bls. 261-269).    Þar nýtti ég mér upplýsinar um þróun jarðskorpunnar á Galalapagos svæðinu í Kyrrahafi, en þar er jarðfræðin alveg ótrúlega lík Íslandi, eða öllu heldur hvernig Ísland mun líta út eftir nokkrar milljónir ára. 

Á Íslandi og Galapagos eru tvenns konar hreyfingar jarðskorpunnar í gangi.  Annars vegar eru láréttar hreyfingar, eða rek flekanna, en hins vegar eru lóðréttar hreyfingar, sem hafa auðvitað bein áhrif á stöðu sjávar og strandínuna.  Á báðum svæðunum eru einnig tvö fyrirbæri, sem stýra þessum hreyfingum, en það eru úthafshryggir (í okkar tilfelli Mið-Atlantshafshryggurinn) og heitir reitir eða “hotspots” í möttlinum undir skorpunni.  Á Galapagossvæðinu hefur úthafshryggurinn færst stöðugt frá heita retinum, sem illug undir vestustu eyjunum.  Afleiðing þess er sú, að jarðskorpan kólnar, dregst saman, lækkar í hafinu og strrandínan færist inn á landið. Myndin fyrir neðan sýnir strandlínu Galapagos eyja í dag (til vinstri) og fyrir um 20 þúsund árum (myndin til hægri).  Það er ljóst að eyjarnar eru að síga í sæ vegna þess að jarskorpan er að kólna.  Þetta er bein afleiðing af því, að úthafshryggurinn er smátt og smátt að mjakast til norðurs og fjarlægjast heita reitinn undir eyjunum.  Áður var töluvert undirlendi sem tengdi allar eyjarnar sem þurrt land, en nú eru eingöngu fjallatopparnir uppúr sjó.   Eins og ég greindi frá í bók minni Eldur Niðri, þá tel ég að svipuð þróun eigi sér stað á Íslandi, en hun er komin miklu skemur á veg heldur en í Galapagos.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Athyglisvert Haraldur, og gaman væri að geta spáð fyrir um framtíðarlögun Íslands!

Það er tvennt sem kemur upp í hugann hjá mér:

1) Heiti reiturinn undir Íslandi virðist hafa legið undir úthafshryggnum síðustu 50 milljón ár, eða frá því meginlöndin tvö byrjuðu að reka í sundur um úthafshrygginn.

2) Núverandi lögun Íslands hefur mótast verulega af virkni jökla.

Samkvæmt greininni sem ég hlekki til hér fyrir neðan hefur rekbeltið færst austuryfir landið síðustu 16 milljón árin (og eflaust lengur), hugsanlega elt heita reitinn.

http://www.fa.is/deildir/Jardfraedi/JAR203/19_jardsaga_islands.pdf

Brynjólfur Þorvarðsson, 1.5.2014 kl. 11:49

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Heiti reiturinn okkar hefulanga sögu. Hann var undir austur Grænlandi fyrir um 45 milljón árum. Hann var undir vestur Grænlandi fyrir um 60 milljón árum.  Hann var undir Baffinseyju fyrir um 65 milljón æarum. Nú telja sumari jarðfræingar að hann hafi verið undir Síberíu fyrir 250 milljón árum. Þetta er umdelit, en ef til vill er heiti reiturinn "okkar" reyndar rússneskur að uppruna.

En heiti reiturinn er stöðugur í möttlinu. Það eru flekarnir sem reka til og frá fyrir ofan hann. Þannig eru flekamótin í Norður Atlantshafi smátt og smátt að færast til vesturs og fjarlægjast nú heita reitinn.

Haraldur Sigurðsson, 1.5.2014 kl. 12:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband