Drekasvæðið: hvað er kolvetnið orðið þroskað?

þroskun olíuOlía myndast sennilega í nær öllum tegundum setlaga á hafsbotni. Hvernig hún þróast og hvort olían varðveitist í setinu er háð því, sem jarðfræðingar kalla maturation eða þroskun.  Fyrsta myndin sýnir þroskun í setlögum á vissu svæði, þar sem ákveðinn hitastigull ríkir. Takið eftir að hér er olían aðallega á 2000 til 4000 metra dýpi í setinu. Þar fyrir neðan hverfur eða minnkar olían og gas tekur við dýpra. Við hærri hitastigul hverfur þessi olía og í hennar stað kemur metan gas.

Olían myndast úr lífrænum efnum í setinu á milli 60 og 150 stiga hita.  Þegar hitinn fer yfir um 150 stig, þá breytist olían og þroskast í metan gas.  “Olíuglugginn” er því lítill og þröngur og algjörlega háður hitastigul í jarðlögunum. Kolvetni í jarðlögunum þroskast því með hækkandi hita. Fyrst eru lífrænar leifar  ríkjandi í setinu við lágan hita, en þegar hitinn vex myndast olían í “olíuglugganum” frá 60 til 150 stigum, og með frekari hitun setlaganna brotnar olían niður í metan og önnur gas sambönd.  

Ef hitastigull er hár, þá þroskast olían snemma og breytist hratt í metan gas.  Síðan getur gasið haldist í setinu eða risið uppá við og sloppið út í hafið fyrir ofan hafsbotninn.  Nú eruð þið sjálfsagt að velta því fyrir ykkur, eins og ég, hve hitastigull er hár í setlögum á Drekasvæðinu.  Það er von að þið spyrjið, því hár hitastigull þýðir engin olía og ef til vill eitthvað gas, eða jafnvel ekki einu sinni gas!  Ég hef leitað víða, en mér hefur ekki enn tekist að finna neinar upplýsingar um hitastigul á þessu svæði. Ef til vill hefur hann aldrei verið mældur. 

Það er alþekkt að hitastigull er hár í grennd við gosbelti og nálægt jarðmyndunum sem hafa myndast við eldgos.  Undir Íslandi er til dæmis oft mældur hitastigull sem er um 200oC á km dýpis, en sennilega er hitastigull undir Íslandi víðast hvar um eða yfir 80oC á km. Af þeim sökum er mjög ósennilegt að olía finnist til dæmis í hinni feikna þykku setmyndun, sem fyllir upp Eyjafjarðarál.  Setið hefur sennilega hitnað svo mikið, að öll lífræn efni hafa breyst í metan gas eða kolagas og gufað á brott. Í olíuríku setlögunum undir Norðursjó er hitastigullinn hins vegar aðeins um 30°C/1000 m, sem er kjörið fyrir myndun og verndun olíu í setinu.  Hætt er við að hitastigullinn sé mun hærri á öllum svæðum í grennd við Ísland.  Vonandi fáum við að heyra um mælingar á hitastigul á Drekasvæðinu fljótlega, eða búum við ekki einmitt í þjóðfélagi, þar sem allt er opið og aðgengi greitt að öllum slíkum opinberum skjölum?  Ég vona stranglega að svo sé. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

"eða búum við ekki einmitt í þjóðfélagi, þar sem allt er opið og aðgengi greitt að öllum slíkum opinberum skjölum?" Ég vona stranglega að svo sé.

Í þessari setningu býr eitthvað undir, líklega með hitastigul sem er hærri en 30°C/1000 m. En þú getur búist við því að heit rök þín bíti ekki á kalda karla í pólitík og bisness, sem aldrei hlusta á rök og fara alla leið þótt þekking og fræði mæli gegn því. Það eru til margir slíkir stórlaxar á Íslandi og þetta draumóraævintýri er eftir að kosta Íslendinga dýrt.

ÍSOR veit örugglega miklu meira en þegar orkuáhugamaður eins og Ketill á Orkublogginu var að skrifa um Drekasvæðið hér um árið:

En við erum aftur á móti svo ljónheppinn að eiga lögsögu norður á Jan Mayen hrygginn. Sem sést svo prýðilega á myndinni hér til hliðar. Hluta hans svipar mjög til bæði landgrunns Noregs og Grænlands. Olíuauðlindir norska landgrunnsins eru alkunnar og einnig er gert ráð fyrir mikilli olíu við austurströnd Grænlands. Sama gæti einmitt verið upp á teningnum á Jan Mayen hryggnum – a.m.k. ákveðnum hluta hans. Eftir því sem sunnar dregur á hryggnum, hverfur hann undir landgrunn Íslands, sem er miklu yngri jarðfræðimyndun. 

Sjá bjartsýnina árið 2008 http://askja.blog.is/blog/askja/entry/717613/

Maður þarf ekkert annað að sjá en þessa mynd til að skilja að jörðin (hafsbotninn) umhverfis Jan Mayen ber merki mikilla umbrota og er ekkert lík hafsbotni þeim sem er yfir þeim svæðum sem Norðmenn dæla upp auðæfum sínum:

dreki_sildarsmuga_732186

Þakka þér fyrir þessa grein, Haraldur! Vonandi er að sem flestir lesi hana. Íslendingar eiga ekki neinn möguleika í olíu eða gas, Færeyingar og síðar Grænlendingar verða næstu olígarkarnir.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2.3.2013 kl. 07:41

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Takk fyrir þessar ágætu upplýsingar Haraldur, sem geta ásamt fleiri slíkum fært okkur nær staðreyndum um líkur um olíu á Drekasvæðinu.  Reyndar mun frekar en húrrahróp og svartsýnisraus, eða upphrópanir um gróðatölur sem hingað til hafa verið það eina sem hefur verið í boði í fjölmiðlum, þeim öllum til skammar.

Hrólfur Þ Hraundal, 2.3.2013 kl. 08:52

3 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Takk fyrir þetta blogg með góðum fræðilegum upplýsingum. Vonandi gleyma menn sér ekki í ofurbjartsýni og hlusta á sérfræðinga á þessu sviði.

Úrsúla Jünemann, 5.3.2013 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband