Súrefni í sjó og síldargöngur

Mettun súrefnis í sjóÞað virðist vera nú nær árlegur atburður, að síld veður inn á grunnsævi á sunnanverðum Breiðafirði.  Þessar göngur eru einkum áberandi í grend  við Grundarfjörð og Kolgrafarfjörð, en einnig inn á Hofstaðavog.  Nú liggur síldin dauð í hrönnum á fjörum Kolgrafarfjarðar.  Hvað veldur þessari hegðun síldarinnar? Sumir telja að síldin leiti inn á grunna firði snemma vetrar til að komast í kaldari sjó, til vetursetu. Þá dregur úr fæðunámi síldarinnar og öll líkamsstarfsemi hennar hægir á sér. Hún legst í dvala.  En hvers vegna er síldin að drepast?  Það virðist nær örugglega vera vegna súrefnisskorts, eins og fiskifræðingar hafa bent á.  Sjór sem er mettaður af súrefni inniheldur um 10 mg af súrefni í hverjum lítra (rauði hringurinn á fyrstu mynd).   Í innilokuðum fjörðum eyðist súrefnið hratt vegna starfsemi lífríkisins og niðurbrots á fóðurleifum og saur. Endurnýjun súrefnis í fjörðum gerist vegna hafstrauma. Kolgrafarfjörður var þveraður af Vegagerðinni árið 2004 og síðan hefur dregið úr magni nýsjávar innan brúar. Endurnýjunartími fyrir sjó í innilokuðum fjörðum getur því verið langur, og á meðan hrapar súrefnisinnihald vatnsins.  Þannig fór í Lóni í Kelduhverfi árið 2001 og síðar í Grundarfirði í janúar árið 2007. Þar lækkaði súrefnismagn í sjónum niður í 2 til 2,9 ml á líter og þorskur drapst og einnig síld.  Önnur myndin sýnir að súrefnismagn í sjó í Grundarfirði í janúar árið 2007 var innan við 3 ml á líter á stóru svæði innarlega í firðinum (rauða svæðið).   Þé er sjórinn innan við um 30% af mettun súrefnis. Súrefni í Grundarfirði 2007

Sum hafsvæði eru nær súrefnissnauð, og má þar telja til dæmis Eystrasalt, Mexíkóflóa og Svartahaf.  Yfir mikinn hluta Eystrasalts  er súrefni í botnsjó aðeins um eða undir 2 ml á líter. Fyrir neðan 2 til 3 ml á líter er krítiskt ástand sjávar og dauði blasir við fyrir flestar fisktegundir. Ásæðan er sú, að straumur af söltum sjó frá Norðursjó inn í Eystrasalt er mjög lítill. Önnur ástæða er að úrgangur og mengun frá um 80 milljón íbúum umhverfis Eystrasalt hefur borið inn efni, sem hafa gleypt upp nær allt súrefni hafsins. Allt fram til ársins 1950 var Eystrasalt við góða heilsu. En nú horfir illa og hugmyndir hafa komið fram um betrumbætur.  Nú er til dæmis í athugun að nota eitt hundrað fljótandi vindmyllur til að dæla súrefni niður í djúpið til að lífga aftur Eystrasaltið.   Takið eftir á fyrstu myndinni að súrefnisinnihald sjávar lækkar með hækkandi hitastigi hafsins. Þetta er mjög mikilvægur þáttur.  Sumir vísindamenn hafa bent á, að með hækkandi hita vegna hnattrænnar hlýnunar og minnkandi súrefni í hafinu, þá muni stærð fiska minnka og afli okkar úr heimshöfunum dragast saman af þessum sökum um fjórðung næstu áratugina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ætli það mætti ekki endurskoða hvernig firðir eru þveraðir sumstaðar vestanlands þar sem brýrnar eru hafðar eins litlar og mögulegt er, eða svona rétt til að viðhalda lágmarksrennsli í gegn. Hvort þverunin ráði úrslitum í þesssu tilfelli veit ég ekki en mér finnst furðu lítið fjallað um þetta atriði í fréttum af þessum mikla síldardauða.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.12.2012 kl. 22:35

2 Smámynd: Kristinn Pétursson

Emil.Minna er fjallað um það sem auðveldast er að gera ráðstafanir við. að veiða meira  og geyma minna. Geymslubrjálæðið er löngu komið í tóma vitleysu.

Þverun fjarðar  og brú er hins vegar einmitt það hálmstrá sem "vísindasamfélagið" mun grípa á lofti og velta fyrir sér fram og aftur - því  það virðist upplagt atriði til að þvæla um fram og aftur og engin niðurstaða - bara tilgátur út í loftið.

Á hinn bóginn eru margir fiskifræðingar og líffræðingar sem  margsinnis hafa varað við því að veiða of lítið. Svo drepst síld og þorskur - síldin "sýkist" og þá má ekki ræða að sýkingin stafi hugsanlega af of lítilli veiði - eða síldin hafi leitað í kuldann til að hæga á brennslu og lokast þarna af þess vegna.

Fiskar eiga til að leita í kulda til að bremsa niður orkunotkun - til að lifa frekar veturinn af og koma "sterkir inn" næsta vor. Þetta er þekkt úr vötnum (vatnalíffræði) þar sem bleikjan heldur sig  stundum ´við botn +4 og stundum upp við ísröndina og stundum þar á milli - til að "regulera" eigin orkubrennslu. Jamm

Kristinn Pétursson, 18.12.2012 kl. 00:04

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kristinn, ég hef ekki skoðanir á fiskveiðiráðgjöf enda þekki ég fiskilíffræði ekki nógu vel. Ég sé samt fyrir mér að þessi fjörður sé dauðagildra fyrir síldartorfur sem þangað leita - ekki síst vegna vegalagningarinnar sem lokar nánast útgönguleiðinni og takmarkar hita- og súrefnisblöndun við sjóinn fyrir utan, í samræmi við það sem Haraldur bendir á.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.12.2012 kl. 00:27

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Emil - Kristinn fullyrðir hér um eigin skoðanir og hugmyndir og ágæti þeirra, en ég held samt ekki að við getum sjálfkrafa gert ráð fyrir að hann þekki fiskifræði eða fiskiráðgjöf ýkja vel fyrir því - þó svo hann telji sér (og öðrum) trú um það. Það má líka taka því með fyrirvara þegar hann talar um ""vísindasamfélagið"" - eins og um sé að ræða einhverja sem nota þvælu og tilgátur út í loftið í stað gagna og mælinga...eins og hann velur að ýja að. Ekki virðast þó gögn hans standast skoðun í mörgum tilfellum (eins og sést hefur í umræðum hans). En þeir sem velja að afneita hinni vísindalegu nálgun (eins og Kristinn gerir æ ofan í æ) geta ekki verið teknir alvarlega í vitrænni umræðu um vísindaleg gögn eða mælingar.

Kristinn Pétursson hefur fyrir löngu stimplað sig út úr allri vitrænni umræðu sem tengist vísindalegri aðferðafræði - hvort sem það er fiskifræði eða loftslagsvísindi (svo einhver dæmi séu nefnd). Því miður þá er ekki hægt að taka upphrópanir og innantómar fullyrðingar Kristins alvarlega. Í hans huga eru vísindamenn og sérfræðingar bara með "akademísk[a] minnimáttarkennd - sumt af þessu fólki virðist alið upp af einhverjum ofstækis-prófessorum" - sjá hér - þar sem hann ásakar sérfræðinga líka um falsanir. Jamm...

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.12.2012 kl. 00:58

5 identicon

Sveinn,

hvar er hinn vísindalegi þanki í því líkani sem stuðst er við þegar tekin er ákvörðun um hve mikið sé leyft að veiða?

Þegar Íslendigar veiða um 1,5 milljón tonn af sjávafangi á ári en fuglar og sjávarspendýr taka til sín 15 milljón tonn á sama tíma sér til viðurværis. Hvernig fellur þá veiðiráðgjöf um t.d. 5% minnkun aflaheimilda að vísindalegri aðferð?

Telur þú ásættanlegt að sami aðili sé í hlutverki vísindastofnunar og stjórnvalds?

Ólafur Jónsson (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 10:29

6 Smámynd: Einar Þór Strand

Sveinn Atli það sem er að verða helsta vandamál vísindanna er hjarðhegðunin og skorturinn á sjálfsgagnrýni.

Það væri til dæmis gaman að sjá skýringar hvers vegna allar innri pláneturnar eru að hitna ekki bara jörðin, varla er það af mannavöldum.

Einar Þór Strand, 18.12.2012 kl. 10:30

7 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Í Lóni í Kelduhverfi varð súrefnisþurrð vegna þess sem á dönsku er kallað bundvending, sem gerist þegar mikið magn lífræns efnis sem safnast hefur fyrir á botninum hefur myndað það mikið metan í setinu að botninn hvirflast upp, að sjálfu sér eða í tengslum við öldurót og kemst í snertingu við vatnsbolinn. Það súrefnisfirrða niðurbrot sem áður hefur átt sér stað í setinu hefur framleitt mikið magn súlfíðs sem gengur strax í samband við súrefnið í vatnsbolnum og eyðir því á skammri stund.

Gestur Guðjónsson, 18.12.2012 kl. 13:48

8 identicon

Þetta er merkileg ekki-vísindaumræða hjá eldfjallafræðingnum. Hið sanna í málinu mun vera að undirkæling hafi orsakað síldardauðan. Síldin hreinlega fraus í hel - sjá frétt mbl. (http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/18/sjor_i_breidafirdi_var_um_frostmark/)

En háloftaspekingar grípa eins og venjulega gervivísindin á lofti og fabúlera út frá þeim. Undirkæling bendir líka til kólnunar, sem snillingarnir vilja alls ekki kannast við!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 14:16

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Mér þykja kuldaskýringar sem um hefur verið fjallað á öðrum miðlum líklegastar í þessu tilfelli, sjá t.a.m. fróðlega umfjöllun Einars Sveinbjörnssonar.

Ég þykist ekki hafa mikla þekkingu á staðháttum þarna - enda var minni athugasemd beint að Kristni Péturssyni og hans umræðumenningu, sem er verulega ábótavant, en ekki fiskifræðinni eða nákvæmum orsökum þess sem þarna gerðist. Ég ætla því ekki að blanda mér í fiskifræðina frekar - þó einhverjir heimti að ég hafi skoðun á því hér...

Einar Þór Strand:

Fullyrðing þín (engar heimildir að vanda) um að aðrar plánetur séu að hlýna líka og að það geti á einhvern hátt tengst hlýnun jarðar stenst ekki skoðuna, sjá m.a. MÝTA - Aðrar reikistjörnur í sólkerfinu eru að hlýna og Hefur Jörðin kólnað? - af hinum fróðlega vef loftslag.is

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.12.2012 kl. 15:23

10 identicon

ps. "Vísindamenn frá Hafrannsóknastofnun eru nú við mælingar í Kolgrafarfirði við Snæfellsnes og leita orsaka síldardauða þar. Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri nytjasviðs Hafrannsóknastofnunar segir mikið af síld í firðinum.

Ekkert er enn frekara að frétta af því af hverju síldin drapst. Talið er þó líklegt að hún hafi drepist úr kulda. Mörg hundruð tonn af dauðri síld komu í fjöruna í Kolgrafarfirði um helgina og mikið af henni er á botni fjarðarins." (http://www.ruv.is/frett/visindamenn-vid-rannsoknir-i-kolgrafafirdi)

Þetta er eitthvað örlítið á skjön við "vísindalegan" þankagang eldfjallafræðingsins:

"Sumir vísindamenn hafa bent á, að með hækkandi hita vegna hnattrænnar hlýnunar(!) og minnkandi súrefni í hafinu, þá muni stærð fiska minnka og afli okkar úr heimshöfunum dragast saman af þessum sökum um fjórðung næstu áratugina."

Heilræði dagsins, Haraldur minn: Don't jump to conclusions 'cause the conclusions might jump on you.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 15:25

11 identicon

Sveinn Atli Gunnarsson, 18.12.2012 kl. 15:23: Þakka málefnalega umfjöllun og góðar undirtektir Sveinn Atli.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 15:27

12 identicon

Haraldur eru ekki líkur á að slíkt gæti gerst þar sem laxeldi verður mjög umsvifamikið eins og ráðgert er í Arnarfirði sem er lokaðaður af á 3 vegu.

Alma Jenný Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2012 kl. 23:51

13 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Vert að geta þess að fyrir rúmum mánuði síðan mælti skipstjóri með því að leyfð yrði meiri veiði á síld sem væri í óheyrilegu magni frá Grundafirði inní Stykkishólm. Var farið eftir þessum ráðleggingum. Nei betra að láta síldina drepast en að auka kvótann og eiga á hættu að verð á kvóta félli.

Ólafur Örn Jónsson, 19.12.2012 kl. 00:40

14 Smámynd: Jón Kristjánsson

Einar, þú sagðir í færslunni á undan:

" Þar sem ár renna til sjávar lækkar seltan við blöndunina og lagnaðarís myndast þannig á sjónum í langvarandi frosthörkum."

Ferskvatnið flýtur ofan á og einangrar. Undir er eðlisþyngri sjór, sem er væntanlega jafn heitur og sá sem er fyrir utan. Fiskur þolir frost niður í -1 gráðu, en við það hitastig er sjór ekki frosinn. Það er ólíklegt, nær útilokað, að kuldi hafi drepið fiskinn. Fræðilega séð getur þetta síldarmagn klárað allt súrefni í firðinum á 4 dögum, miðað við mestu mettun súrefnis í sjó og við lágmarks (viðhalds) notkun síldarinnar.

Einnig, fiskurinn leitaði í fjörurnar. Það er vel þekkt úr fiskeldisstöðvum að fiskurinn leitar í yfirborðið þegar hann er í andnauð.

En stóri skandallinn er að maðurinn, sem fór á staðinn á vegum Hafró hafði engin mælitæki með sér og enn eru engar tölur komnar hvorki um hitastig eða súrefni frá yfirborði í botn.

Jafnvel dýralæknar hafa með sér læknatöskuna þegar þeir fara í vitjun. Hafró fer úr á lakkskónum einum saman.

Jón Kristjánsson, 19.12.2012 kl. 21:48

15 Smámynd: Jón Kristjánsson

Sveinn Atli

Þú ættir ekki að gera lítið úr Kristni Péturssyni, hann er betur lesinn en flestir "sérfræðingar" Hafró, sem aldir eru upp í tölvuleikjum.

Auk þess er betra að fara í boltann en ekki manninn,  gagnrýna á málefnalegan og faglegan hátt, ef menn ekki geta þeð eiga þeir að láta það vera. 

Jón Kristjánsson, 19.12.2012 kl. 22:05

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jón, held að ég sé ekkert að gera lítið úr manninum með því að vísa í hans eigin orð...hann sér um það sjálfur.

Sveinn Atli Gunnarsson, 19.12.2012 kl. 23:03

17 Smámynd: Kristinn Pétursson

Sveinn Atli.   Taktu mark á Jóni Kristjánssyni fiskisfræðingi. Hann er harðari en ég við Hafró, - Svatli segir;  Kristinn Pétursson hefur fyrir löngu stimplað sig út úr allri vitrænni umræðu sem tengist vísindalegri aðferðafræði - hvort sem það er fiskifræði eða loftslagsvísindi (svo einhver dæmi séu nefnd). Því miður þá er ekki hægt að taka upphrópanir og innantómar fullyrðingar Kristins alvarlega"...

Þetta er óheilbrigt ofstæki hjá þér Svatli minn, leitaðu til læknis.

Ég hef gaman af skoðanaskiptum við heilbrigt fólk , - en frábið mér skoðanskipti við þig Svatli. Vinsamlega láttu mig í friði,- svona fyrir jólin a.m.k.

Kristinn Pétursson, 20.12.2012 kl. 21:49

18 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Kristinn, ef þú vilt ekki standa við þín eigin orð sem þú hefur látið falla í umræðunni, þá ættirðu kannski að vanda þig betur í framtíðinni. Ég bendi vinsamlega á þína umræðumenningu - ef þú ert ekki maður til að standa við þín eigin orð - þá þú um það. Gleðileg jól Kristinn...ekki láta mig trufla hátíðarskapið með því að vísa í hvernig umræður þú stundar með innantómum fullyrðingum og ásakanir um að sérfræðingar stundi fals.

Sveinn Atli Gunnarsson, 20.12.2012 kl. 23:57

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jón Kristjánsson, þú skrifaðir hér að ofan í athugasemd orðrétt:

En stóri skandallinn er að maðurinn, sem fór á staðinn á vegum Hafró hafði engin mælitæki með sér og enn eru engar tölur komnar hvorki um hitastig eða súrefni frá yfirborði í botn.

Jafnvel dýralæknar hafa með sér læknatöskuna þegar þeir fara í vitjun. Hafró fer úr á lakkskónum einum saman.

Í frétt mbl.is kemur eftirfarandi fram:

Þorsteinn Sigurðsson og hans fólk á Hafró fer í leiðangur í dag til mælinga á hita, seltu, súrefni og fleiri þáttum. Þá skýrist væntanlega enn frekar gátan mikla um síldardauðann á vetrarstöðvum íslensku sumargotssíldarinnar á Breiðafirði. [heimild - Sjór í Breiðafirði var um frostmark]

Ég geri fastlega ráð fyrir því að sérfræðingar Hafró noti mælitæki til að mæla þessa þætti sem þarna eru nefndir og gef því lítið í þínar fullyrðingar um sérfræðinga Hafró og meint getuleysi þeirra. Ætli þeir geri ekki sitt besta til að reyna að ráða gátuna - hver sem niðurstaðan verður eða hvort við fáum óyggjandi svar.

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.12.2012 kl. 00:10

20 Smámynd: Kristinn Pétursson

Hvað merkir þetta?

"Kristinn, ef þú vilt ekki standa við þín eigin orð sem þú hefur látið falla í umræðunni, þá ættirðu kannski að vanda þig betur í framtíðinni. Ég bendi vinsamlega á þína umræðumenningu - ef þú ert ekki maður til að standa við þín eigin orð - þá þú um það"

Þú mátt alveg sleppa Haraldi við að vera með svona skítmeldingar um mig - á hans síðu.  Þú getur bara sent mér tölvupóst beint á  krp@simnet.is   Ég veit ekki hvað ég hef nú gert af mér - annað en það sama og aðrir sem hafa gefist upp á þér og lokað á þig í umræðum vegna svona skrifa hjá þér.

Varðandi Jón Kristjánsson - þá á hann við fyrstu ferðina hjá Hafró þarna vestur. Síðar fóru þeir með lið með sér sem er ferðin sem þú vitnar í. Vonandi kemur niðurstaða fyrir jól. Ef niðurstaðan er súrefnisþurrð, - þá er álitaefnið hvort ofvernd hafi ekki drepið þessa síld - og betra hefði verið að veiðar meira - eins og Jón Kristjánsson fiskifræðingur og tugir annarra fagmanna í náttúrufræðum hefur oft bent á - en einokun Hafró á rannsókn og ráðgjöf kemur í veg fyrir heilbrigð skoðanaskipti og eðlilega samkeppni.

Það er það sem við Jón gagnrýnum - og það er það sem ég bendi á í sambandi við loftslagsmál - heilbrigð samkeppni er mikilvæg til að viðhalda ferskleika umræðunnar um framþróun.

Hátíðarskapið hjá mér er ódrepandi Svatlti. Guð veri með þér.

Kristinn Pétursson, 21.12.2012 kl. 03:24

21 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Kristinn, hér er tilvísun í þig, sem ég vísa til hér að ofan - bein tilvísun í Kristinn þar sem hann fjallar um sérfræðinga:

"akademísk[a] minnimáttarkennd - sumt af þessu fólki virðist alið upp af einhverjum ofstækis-prófessorum"[Kristinn Pétursson]

Sjá athugasemd 4. Hitt er annað mál að ég skil vel að þú skulir ekki þola mig þar sem ég bendi á þínar eigin upphrópanir í umræðunni

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.12.2012 kl. 08:04

22 Smámynd: Kristinn Pétursson

Akademísk minnimáttarkennd virðist bara veruleikinn.  Það virðist eiga við bæði við um öfgasjónarmið í hnattrænni hlýnun og  ekki síður í fiskveiðirágjöfinni.  Of mikið af hrokafullum  og í raun lélegum fagmönnum í lykilstöððum, enda er hrokinn oftar en ekki yfirborð dulinnar vanþekkingar

Í fiskveiðirágjöfinni er undirliggjandi heiftúðug valdabarátta - bæði hérlendis og erlendis, -  þar sem "meirihluti" fiskifræðinga í alþjóðahafrannsóknarráðinu (ICES) og Hafró -  hafar nánast framið valdarán á umræðu og einoka veiðiráðgjöf.

Jón Kristjánsson fiskifræðingar -  og margir aðrir náttúrufræðingar og líffræðingar hafa hvergi komist að - með aðvaranir sínar um að of lítil veiði (of lágt veiðiálag) geti ekki síður verið skaðleg -  en of mikil veiði. 

Þetta er málefnalegur kjarni þess máls - sem virðist nú endurspeglast í risavöxnum skaða á síldarstofninum í Breiðafirði - eina ferðina enn.   Mér finnst  hægt að nota orðin "akademísk minnimáttarkennd" um fólk sem stundar ófrægingar og útilokun (einelti) á þeim sem benda á þá  áhættuþætti sem fylgja ofvernd - þ.e. fallandi vaxtarhraða og/eða  áhættu á plássleysi (súrefnisþurrð)  sem fylgikvilla þess að veiða ekki meira úr fiskistofnum þjóðarinnar Plássleysið (hugsanleg súrefnisþurrð) virðist geta átt við á Breiðafirði nú nokkur ár í röð...  og í þorskinum 2001 þegar það drápust meira en 600 þúsund tonn sem voru svo fölsuð í "ofmat" - að þorskur sem mældist sem seiði 1983 og mældist til öll árin 1994-1997 ö þegar mikið brottfall varð í þessum árgang 1998-2001 - þá varð það látið heita "ofmat" og "reiknaðar nýjar tölur í stofnstærð - með águskun -  í stað frumgagna. Falsanir á frumgögnum er alvöru mál Svatli.

Sama á við um þessi loftslagsmál - þar virðist sama tilhneigingin til að koma upp einhvers konar "einokun" á því hvað sé rétt og/eða rangt. 

Svo má ekki ræða að allir vafasamir hitamælar (borgarhitamælar) verði einfaldlega fjarlægðir í gagnagrunninum - þá verðið þið alveg trylltir þú og fleiri ofsatrúarmenn á hnattærna hlýnun.  Auðvitað er að hlýna - og jöklar að hopa  en það er engin ástæða til að ýkja þetta upp með borgarhitamælum.

Þú tekur þátt í þessu Svatli - og ert með dónaleg skrif á heimasíður annarra - þess vegna er lokað á þig - þú virðir ekki sjónarmið annarra.  Ég þoli alveg sjónarmið sem ég er ekki sammála - enn ekki dónaskapinn í þér eins og t.d þetta bláletraða hér  að ofan. Þú "skrifar niður" til fólks sem bendir á önnur aðalatriði en þér eru þóknanleg. Hver hefur valið þig sem dómara í málinu?

Dæmi um akademíska minnimáttarkennd er ræðan sem Helgi Björnsson hélt í HR um daginn þar sem hann talaði niður til "allra heimskingjanna" sem ekki væru sammála honum, - og þið vitið samt báðir - þú og hann - að það voru nánast engir jöklar á Íslandi fyrir 2500  árum, - og  hvað er þá óeðlilegt við að það komi snögg bráðnun nú í nokkur ár?   Ástæðulaust að fara svona  hrikalega á taugum þó jöklar minnki aftur.

Vinsamlega svo fara að gera myndina um hvernig Grænlandsjökull leit út fyrir 2500 árum - á pari við þessa mynd.

Óska þér gleðilegra Jóla

Kristinn Pétursson, 21.12.2012 kl. 11:38

23 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nenni ekki að ræða meira við Kristinn, enda virðist hann ætla að halda sér á sínu striki í umræðumenningunni, en óska honum gleðilegra jóla fyrir því

En varðandi efni færslunnar þá virðist súrefnisskorturinn vera staðfestur af Hafró, sjá  Súrefnisskortur olli því að síldin draps

Þannig að Haraldur virðist hafa hitt naglann á höfuðið.

Sveinn Atli Gunnarsson, 21.12.2012 kl. 12:08

24 identicon

Hver var grunnástæða þess að þessi 20.000 tonn drápust?

1. Hafró brást með því að leyfa ekki stærri síldarkvóta.

2. Röng hönnun á mannvirkjum við þverun Kolgrafarfjarðar.

einsi (IP-tala skráð) 21.12.2012 kl. 16:53

25 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Hafró hefur nú gefið út bráðabirgðaniðurstöður úr könnun á Kolgrafarfirði.  Hér eru útdrættir úr skýrslu þeirra:

Súrefnismagn í sjónum var jafnframt mælt bæði innan fjarðar og utan og niðurstöður þeirra mælinga sýna að súrefnisstyrkur í innanverðum firðinum var mjög lágur eða innan við 2 ml/l.

 

Súrefnismettun í firðinum mældist mjög lág, lægri en áður hefur mælst í sjó við landið. Líklegt er að þessi lækkun á styrk súrefnis stafi meðal annars af öndun síldar sem var í miklu magni innan brúar dagana áður en mælingarnar voru gerðar. Enda þótt vitað sé að síld að vetrarlagi þoli lágan styrk súrefnis benda þessar niðurstöður til þess að helsta orsök síldardauðans á undanförnum dögum hafi verið súrefnisskortur. Er þó ekki hægt að útiloka að samspil hans við aðra þætti, svo sem lágt hitastig, hafi einnig haft áhrif.”

Ekki þarf að hafa fleiri orð þar um. Óska öllum lesendum gleðilegrar hátíðar.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 21.12.2012 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband