Tianchi eldfjall

Forsetar Norður KóreuÁ landamærum Kína og Norður Kóreu er stórt eldfjall sem ber nafnið Tianchi eða Changbai. Það er vissulega nokkuð skáldlegt eða þjóðsagnarlegt að hafa virkt eldfjall á landamærum og minnir óneitanlega á Hringadrottnasögu.  Hér varð eitt stærsta sprengigos, sem orðið hefur síðustu árþúsundin.  Gosið var rétt um árið 1000 (ef til vill 965 AD) og er talið hafa framleitt allt að 30 rúmkílómetra af kviku. Sumir telja að gosmagnið hafi jafnvel verið 120 rúmkílómetrar. Askan dreifðist til austurs, yfir Japan og víðar.  Á síðari öldum er aðeins gosið í Tambora í Indónesíu árið 1815 stærra, en þar komu upp um 100 rúmkílómetrar af kviku.  Tianchi er nú askja, sem er um 5 km í þvermál og í henni er fagurt vatn um 373 metrar á dýpt.  Barmur Tianchi öskjunnarKóreumenn kalla það Vatn Hins Himneska Friðar og eldfjallið nefna þeir Paektu.  Það er jafn helgt í Kóreu eins og Fuji er í Japan.  Þjóðsögnin segir að fyrsti forseti Norður Kóreu, Kim Il-sung (1912-1994) hafi risið upp úr vatninu við fæðingu.  Fyrsta myndin sýnir þá feðgana Kim Il-sung og Kim Jong Il (1941-2011)  á bakka öskjuvatnsins.  Landamærin við Kína liggja þvert yfir öskjuvatnið, frá austri til vesturs, og hafa Kínverjar fylgst nokkuð vel með hegðun eldfjallsins.  Það er full ástæða til þess, þar sem mikil hætta er af eðjustraumum frá næstu gosum. Tianchi gaus aftur árið 1903. Undanfarin ár hefur órói komið fram á jarðskjálftamælum á eldfjallinu, einkum árin 2002 til 2006.  Þá virtist kvikuinnskot vera að koma sér fyrir á um 5 km dýpi og færðist síðan ofar, ásamt vaxandi gas útstreymi.  Ekki varð þó gos í þetta sinn.   Seinni myndin sýnir ferðamenn á barmi öskjunnar, en þeir standa á mjög þykkri gjóskuflóðsmyndun, sem er sennilega frá gosinu mikla árið 1000.  En hvers vegna er eldfjall staðsett inni á meginlandi Asíu, þar sem ekki eru sjáanleg flekamót?  Það eru skiftar skoðanir um það.  Tianchi öskjuvatniðEitt er víst að möttullinn djúpt undir Tianchi eldfjalli er nokkuð óvenjulegur og ef til vill er fjallið á heitum reit, eins og Ísland.  Hins vegar getur eldvirknin hér verið tengd uppstreymi í möttlinum, sem orsakast af hreyfingum á sigbeltinu undir Japan.  Alla vega er hér risastórt eldfjall, sem bera verður að hafa miklar gætur á. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Hvar er eiginlega himneskur Sigurður Þórarinsson þeirra Norðurkóreamanna eða Kínverja? 

965 eða 1000. Þola flokkarnir beggja vegna gígsins svona mikla ónákvæmni?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.11.2012 kl. 14:50

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Sjá nýja færslu hér fyrir ofan.

Haraldur Sigurðsson, 30.11.2012 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband