Skipsbjallan á HMS Hood
29.8.2012 | 07:55
Í águst 2012 var ég um borð í snekkjunni M/Y Octopus, þegar fjarstýrður kafbátur var sendur niður á flakið af breska herskipinu HMS Hood í Grænlandssundi. Flakið hvílir á um 2848 metra dýpi og þar um borð og á hafsbotninum umhverfis er nær öll 1418 manna áhöfnin. Aðeins þrír komust af þegar stærsta herskipi breta var sökkt hér á örfáum mínútum í orustu við þýska herskipið Bismarck hinn 24. maí árið 1941. Það sökk um 500 km beint vestur af Reykjanesi. Markmið okkar var að kanna flakið og að færa upp á yfirborðið skipsbjölluna, eitt helsta einkenni skipsins. Bygging á HMS Hood hófst í fyrri heimstyrjöldinni árið 1916 og það var fullbúið árið 1920. Hood var hvorki meira né minna en 48 þúsund tonn, og 262 metrar á lengd. Þrátt fyrir stærðina gat þetta tröllvaxna skip samt siglt um heimshöfin á 28 til 31 hnúta hraða. Utan á skrokk skipsins var tólf tommu þykk brynvörn úr stáli, og fallbyssur þess skutu sprengikúlum sem voru fimmtán tommur í þvermál. Bretar vissu að þjóðverjar höfðu hleypt af stokkunum öðru risavöxnu skipi í Hamborg, sem skírt var Bismarck, eftir kanslaranum fræga. Hinn 5. maí 1941 kom sjálfur Adolf Hitler til Hamborgar til að skoða þetta nýja vopn, sem átti að granda skipalestunum milli Norður Ameríku og Rússlands. Aðal hlutverk Bismarck var að ráðast á skipalestirnar sem fóru milli Norður Ameríku og Norður Evrópu. Bretar gerðu sér þetta ljóst og vissu að Bismarck myndi stefna út í Norður Atlantshafið um eitt af þremur sundum í grennd við Ísland, annað hvort Grænlandssund, eða þá sundið milli Færeyja og Íslands eða sundið milli Skotlands og Íslands. Breski sjóherinn vissi þvi ekki hvaða sunds þeir ættu að gæta. Á meðan sigilir Bismarck óséður frá Bergen hinn 21. maí á ofsa hraða 25 til 30 hnútum (56 km á klst.), út á Atlantshafið undan vestur strönd Noregs og beint norður fyrir Ísland. Bismarck kemur inn á Grænlandssund um kl 10 að morgni hinn 23. maí. Það var hér sem breska herskipið Suffolk fyrst sá Bismarck á siglingu. Suffolk hafði verið inni á Ísafirði en var nú kominn út á sundið. Skömmu síðar sá Bismarck breska herskipið Norfolk birtast út úr þokunni og skaut á það en hæfði ekki. Norfolk slapp aftur inn í þokuna og tilkynnti strax flotastjórninni í London um að Bismarck væri fundinn. Nú hófst eltingarleikurinn fyrir alvöru. Hood og fleiri skip sigldu fyrir sunnan Ísland og stefnu á Grænlandssund til að hefja sjórustuna. Hlutverk Bismarcks var að sökkva fragtskipum skipalestanna, en ekki að há orustu við bresk herskip. Bismarck og hitt þýska skipið Prinz Eugen héldu því beint áfram til suðurs og í átt að skipalestunum, en Suffolk elti fast á eftir. Það var skömmu eftir miðnætti hinn 24. maí að Hood sá Bismarck í um 17 sjómílna fjarlægð. Klukkan 0552 var fjarlægðin 23 kílómetrar milli skipanna og fallbysur Hood og breaska skipsins Prince of Wales byrjuðu að skjóta á óvininn. Þessi fyrstu skot höfðu engin áhrif. En fyrstu skotin frá Bismarck lentu hins vegar mjög nærri Hood. Auk þess var aðstaðan erfiðari fyrir breta, sem sigldu beint upp í vindinn. Skot frá Prinz Eugen hæfði Hood og það kviknaði í á þilfari um miðju skipsins. Nú var klukkan 0555 og aðeins þrjár mínútur liðnar frá því að orustan hófst. Það hafði kviknað í birgðum af púðri af þeirri tegund sem nefnist cordite. Fljótlega breiddist eldurinn út og skotfærabirgðir byrjuðu að springa á dekkinu. Nú var bilið milli skipanna um 12 mílur. Þá breytti Hood um stefnu og sigldi nú samhliða Bismarck svo að hægt væri að skjóta af öllum fallbyssum í einu á þjóðverjana. En einmitt þá kemur fallbyssuskothríð frá Bismarck og hittir alveg í mark. Þessar sprengikúlur eru hvorki meira né minna en 38 cm í þvermál. Myndin fyrir neðan sýnir þversnið af einni slíkri. Risastór sprenging verður nú um miðju á Hood og eldsúlan stendur upp meir en fjórum sinnum hærra en miðmastrið, upp til himins. Skipið veltur strax og skuturinn byrjar að sökkva. Stuttu síðar stendur stafninn beint upp, og Hood hverfur í hafið. Orustunni er lokið. Fjórtan hundrað menn farast og aðeins þrír af áhöfninni komast af. Allt bendir til þess að skotið frá Bismarck hafi farið niður í gegnum þilfarið og beint ofan í skotfærageymslu Hood. Klukkan 0613 siglir Prince of Wales á brott á flótta, aðeins 21 mínútu eftir að orustan hófst. Breska sjóhersstjórnin fær svohljóðandi skeyti: Hood hefur sprungið í loft upp. Þremur sjóliðum af 1418-manna áhöfn Hood var bjargað. Þeir komu til Reykjavíkur með bresku skipi seinni part dags hinn 24. maí. Að tapa HMS Hood, flaggskipi breska flotans, var ótrúlega mikið áfall fyrir breska herinn og reyndar þjóðina alla. Churchill forsætisráðherra áttaði sig strax á þessu og skipaði: Sink the Bismarck! Sökkvið Bismarck. Allur sjóherinn var nú gerður út til að ná hefndum. Bismarck hafði orðið fyrir lítilsháttar skemmdum í átökunum á Grænlandssundi og var að tapa töluverðri olíu í hafið. Bismarck stefndi því beint í áttina til Brest í Frakklandi til viðgerðar. Tveimur dögum síðar tókst breskum herflugvélum að varpa tundurskeytum á þýska risann, sem var 251 meter á lengd. Fljótlega tókst að skemma stýri skipsins og var það nú nær stjórnlaust. Önnur tundurskeyti hæfðu í beint mark og Bismarck sökk í hafið hinn 27. maí um 650 km fyrir vestan Brest í Frakklandi. Bismarck hafði verið aðeins 9 daga í þjónustu þýska hersins frá þvi skipið var tekið í notkun og þar til það sökk. Árið 2001 fannst flakið af HMS Hood á Grænlandssundi á um 2849 metra dýpi. Í ágúst 2012 var gerður út leiðangur á M/Y Octopus til að ná upp skipsbjöllunni af Hood, með samþykki og þátttöku breska sjóhersins. Hugmyndin var að færa bjölluna til minjasafns sjóhersins í Bretlandi. Skipsbjallan hafði verið upphaflega á þilfari skipsins, eins og gamla myndin sýnri. Við sendum fjarstýrðan kafbát niður og fljótlega fannst bjallan, en hún var ofan á haug af miklu rusli úr skipinu og hvíldi undir stálþili, sem slútti yfir. Þetta gerði okkur erfitt að ná til hennar. Kafbáturinn hefur tvo vélarma, sem geta verið furðu fimir. Það tókst að koma járnkrók í gatið efst á bjölluni, en þegar átakið kom á krókinn, þá réttist úr honum og bjallan slapp af og seig lengra niður í ruslið. Nú fór veður versnandi og varð því að hætta fekari köfun þegar vindur fór yfir 30 hnúta og sjór var orðinn nokkuð mikill. Við skildum því við bjölluna á botninum, eins og myndin sýnir. Örin rauða bendir á bjölluna á hliðinni. Af kafbátnum er það að segja, að hann er tengdur við skipið með rúmlega 3 km löngum kapli, sem sendir rafmagn niður og sendir síðan rafræn gögn, myndefni og annað upp til skipsins. Kafbáturinn hefur tvo arma og ýmiss önnur tæki. Fylgst er nákvæmlega með staðsetningu kafbátsins um borð í skipinu og reyndar furðulegt hvað kafbátsstjórinn getur stýrt honum nákvæmlega í gegnum allar þær hættur sem verða á vegi hans í grennd við og jafnvel inni í þessu risastóra skipsflaki, þar sem stálvírar, járnbitar og annað brak eru alltaf fyrir hendi sem hættulegar gildrur.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Mannfræði | Facebook
Athugasemdir
Sæll Haraldur og bestu þakkir fyrir mjög skemmtilega frásögn um orustuskipin Hood og Bismarck. Ég vona að ykkur takist að ná skipsbjöllunni úr Hood ruslinu. - Varðand síðustu stundir Bismarck þá voru orrustuskip komin líka í kompaníið og farin að skjóta á Bismarck. Meira að segja Prince of Wales var kominn í kompaníið, en hann var jú í slagtogi við Hood og varð fyrir skotum áður enn hann slapp á flótta. En hann náði að komast í lokaorustuna. - Én þá voru komin flugvélamóðurskip (Royal Ark) í nágrennið og þaðan komu flugvélar með tundurskeyti. - Þetta skrifa ég eftir minni, en ég las bókina um þetta mál eftir Forrester. Með kærri kveðju, Jónas
Jónas Bjarnason (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 17:01
Sæll Haraldur og þakkir fyrir þessi skrif. Þykir mér þetta áhugavert efni og merkilegt að einkaaðili eins og P. Allen fái leyfi til slíkra verka frá DOD. En það hafa kannski örugglega verið fleiri vísinda og fræðimenn verið um borð til að tryggja að gröf þessi sé ekki vanhelguð eða trufluð út fyrir það sem telst vera eðlileg rannsóknar eða björgunarvinna (salvage). Bestu þakkir kv Arnar
Arnar (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 21:13
Kærar þakkir fyrir þennan fróðlega pistil. Merkilegt þykir manni að sjá á myndinni af skipsbjöllunni á hafsbotni að svona mikill gróður skuli vera á þessu mikla dýpi í svona köldum sjó, eins og manni skilst að sé á þessum slóðum.
Margt hefur verið skrifað og skrafað um síðustu stundir Bismarcks. Einn vildi halda því fram að Adm. Lütjens sjálfur hefði látið sökkva skipinu svo Bandamenn næðu ekki í það, enda hefðu verið ýmis tól og búnaður um borð sem yfirmenn þýska hersins vildu ekki að Bandamenn kæmust yfir.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 1.9.2012 kl. 21:51
Sæll Jónas, Prince of Wales tók engan þátt í lokaorrustunni enda stórlaskaður eftir viðureignina við Bismarck. Systurskip hans King George V og orrustuskipið Rodney eltu Bismarck uppi og þögguðu endanlega niður í byssum Bismarck. Bismarck kom ekki einu einasta skoti á bresku skipin á meðan á viðureigninni stóð. Vegna þess að það var ekki hægt að beina byssum bresku skipana niður fyrir sjólínu á skrokknum á Bismarck var léttvopnað beitiskip kallað til sem útbúið var tundurskeytum og rak það þýska skipinu náðarhöggið. Þjóðverjar hafa lengi vel viljað veg Bismarck sem mestan og því lengi átt erfitt með að viðurkenna að Bismarck hafi verið sökkt af breskum herskipum. Það hefur eflaust þótt draga úr skömm Þjóðverja að halda því fram að þeir hafi sökkt skipinu sjálfir. Flakið af Bismarck fannst 1989 og hefur það verið rannsakað gaumgæfilega einnig önnur herskip sem að áhafnir eiga að hafa sökkt sjálfar. Niðurstöður þykja sýna að áhöfn Bismarck kom hvergi nærri því að sökkva því. Bismarck var sökkt af breskum orrustuskipum eftir að hafa verið einungir 9 daga á sjó. Mér finnst persónulega "dýrð" þessa skips hafa verið stórlega ýkt. Ævi þess varð mjög endasleppt og þess verður seint minnst fyrir afrek í sjóhernaði.
Egill Þorfinnsson (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 14:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.