Tagldarhellir
25.7.2012 | 23:02
Vatnafell er gömul eldstöð á Vatnaleið á Snæfellsnesi, og skilur fjallið á milli Hraunsfjarðarvatns fyrir vestan og Baulárvallavatns fyrir austan. Vatnafell myndaðist í basalt eldgosi fyrir um 400 þúsund árum. Ég hef áður bloggað hér um myndun þess í sambandi við myndun þriggja stöðuvatnanna á þessu svæði. Er Vatnafell að mestu gert úr stuðluðu basalti, með móbergskápu undir. Basaltið er óvenjulegt fyrir að hafa risastóra kolsvarta kristalla af pyroxen, sem geta verið margir cm á lengd. Undir hömrum austan í Vatnafelli eru þrír hellar og er sá syðsti stærstur. Staðsetning hans er sýnd með rauða hringnum á fyrstu myndinni, sem er tekin yfir Baulárvallavatn. Til hægri á myndinni er móbergstindurinn Horn. Hellarnir í Vatnafelli hafa myndast þar sem rof hefur fjarlægt mýkri jarðlög undir basaltberginu. Það er fremur auðvelt að komast að öllum þessum hellum, upp brattar og mjög grýttar skriður austan í fellinu. Syðsti og stærsti hellirinn nefnist Tagldarhellir og er við hann kennd þjóðsaga. Sögnin um hellinn er varðveitt í Illuga söguTagldarbana.
Ein sögupersónan er Helgi, sem bjó á Helgafelli. Hann fékk til liðs við sig Illuga, hraustan og ungan mann sunnan af Mýrum, til að drepa tröllið Dofra, sem bjó í helli einum á Vatnsheiði og er hann nefndur Dofrahellir Ekki er mér kunnugt um staðsetningu hans. Illugi var Þórisson, en faðir hans var Þórir Þorfinnsson og móðir Sæunn, dóttir Skallagríms Kveldúlfssonar og er hann þá systursonur Egils Skallagrímssonar. Er því ekki að furða að hér var á ferð mikill kappi. Bardaginn við Dofra leiddi Helga til bana, en Illugi fékk eftir hann jörðina Helgafell og bjó þar. Síðar háði Illugi mikla baráttu við flagðkonuna Tögld í Tagladarhelli. Hér skýtur nokkuð skökku við í frásögnum. Í Illugasögu Tagladarbana fer bardaginn við Tögld fram í einni utanför Illuga, en í sögn sem er varðveitt í þjóðsögum Sigfúsar Eymundssonar (1899) fer orrustan í Tagladarhelli fram á Snæfellsnesi. Illugi kom tröllskessunni fyrir kattarnef að lokum, en sumir telja að skrímslið sem sést hefur í Baulárvallavatni sé Tögld afturgengin. Það er ekki hlaupið að ríma á móti orðinu Tögld, en þessi vísa fylgir þjóðsögninni:
Eg er að tálga horn í högld,
hagleiksmenntin burt er sigld.
Illugi deyddi tröllið Tögld,
trúi' eg hún væri brúnaygld.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldgos, Mannfræði, Snæfellsnes | Breytt s.d. kl. 23:07 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.