Lóndrangar

Lóndrangar

Þegar ekið er suður fyrir Snæfellsjökul, þá rísa Lóndrangar eins og seglskip úr hafinu, fast við ströndina fyrir sunnan Malarrif. Drangarnir tveir hafa lengi vakið athygli. Samkvæmt Eggert Ólafssyni og Bjarna Pálssyni (1774) er þeirra getið í Landnámu. Lóndranga er einnig getið á eftirminnilegan hátt í kvæði Helgu, dóttur Bárðar Snæfellsáss, sem hún kveður til forna þegar heimþrá sækir á hana á Grænlandi. Í kvæðinu telur hún upp helstu örnefni umhverfis fæðingarstað sinn undir Jökli: 

 

Sæl væra ek, 

ef sjá mættak  

Búrfell, Bala,

báða Lóndranga,

Aðalþegnshóla

ok Öndvert nes

Heiðarkollu  

ok Hreggnasa,

Dritvík ok möl  

fyr dyrum fóstra.

 

Lóndrangar hafa fleirum orðið yrkisefni og til dæmis orti Símon Dalaskáld:

 

Um Lóndranga yrkja má

eru þeir Snæfells prýði,

yzt við tanga út við sjá

aldan stranga lemur þá.

 

Hvaða lón er það, sem nafnið Lóndrangar vísar til? Eru það ef til vill Djúpulón, um 5 km vestar á ströndinni? Lóndrangar eru tveir gígtappar 75 og 60 m háir. Þeir eru leifar af basalt eldstöð, sem hefur verið virk hér í sjó eða fast við ströndina, sennilega í lok ísaldar. Eldvirknin hefur byrjað í sjó og samspil heitrar kviku og hafsins hafa valdið gufusprengingum, sem tættu í sundur kvikuna, mynduðu ösku og gjall, sem féll umhverfis gíginn og myndaði móberg. Í lok gossins var eftir basalt kvika í kverkum gíganna tveggja, sem storknaði og myndaði stuðlað basalt berg. Síðan hefur brimið brotið niður meiri hlutann af gígunum. Vestari drangurinn er allur úr stuðluðu basalti, en sá austari og hærri hefur flóknari innri gerð. Neðri hluti hans er stuðlað basalt og tvær æðar af því skjótast uppí móbergið fyrir ofan. Efri hluti austari drangans er eingöngu úr móbergi. Lóndrangar hafa verið stakir klettar í hafinu undan suður strönd Snæfellsjökuls. Síðan hafa þrjú hraun frá Jöklinum teygt sig suður og náð að umkringja drangana að nokkru leyti og tengja þá við meginlandið. Hærri drangurinn var klifinn af Ásgrími Böðvarssyni, Vestmannaeyingi, á Hvítasunnu árið 1735. Ásgrímur þessi var afbrotamaður.  Hann hafði áður verið sakfelldur fyrir hnupl í Eyjum og gerður brottrækur þaðan. Síðar var hann viðriðinn innbrot og þjófnað í verzlunarhúsi í Ólafsvík árið 1736. Þetta var stórþjófnaður, 200 ríkisdalir og 30 vættir af varningi. Verslunarhús stóðu löngum mannlaus að vetrinum. Þetta notfærði Ásgrímur sér veturinn 1736, braust inn í búðina og hafði þaðan stórfé.  Var hann 23 ára þegar innbrotið var framið. Ásgrímur náðist síðar í Trékyllisvík en komst aftur undan og tókst að flýja. Aldrei sást til hans síðan og hefur hann ef til vill komist um borð í erlenda duggu og sloppið úr landi. Minni drangurinn var klifinn árið 1938. Sjóbúðir voru fyrrum rétt sunnan við stóra drang. Hér gengu eitt sinn 12 skip á vorvertíð og var Drangsvogur lendingin, rétt fyrir austan drangann. Merki um útræði má enn sjá, rústir sjóbúða fiskireiti og garða í hrauninu.  

Lóndrangar KPSMyndin til hægri er eftir Kjartan Pétur Sigurðsson (2005), tekin úr fisflugvél yfir Lóndröngum. Hér sést basalt undirstaða dranganna vel og einnig brúna móbergið, sem myndar efri hluta hærri drangsins til hægri.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig kemur Svalþúfa (Þúfubjarg) inn í þessa mynd; eru það leifar af annarri eldstöð og eldri/yngri, ellegar er meira samhengi þarna í milli?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 24.7.2012 kl. 18:41

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Einmitt. Svalþúfa er önnur eldstöð, sem ég mun fjalla um síðar. Þúfubjarg er hamarinn sem sker Svalþúfu eftir miðju.

Haraldur Sigurðsson, 24.7.2012 kl. 20:03

3 identicon

Á myndinni eftir Kjartan Pétur þá líta drangarnir út eins og Stykkishólmskirkja.

Þorsteinn Eyþórsson (IP-tala skráð) 24.7.2012 kl. 20:30

4 identicon

Hér í Árbók hins íslenska fornleifafélags 15 árg. 1900 bls. 23. segir að hæðsti hluti hamranna heiti Þúfubjörg og hugsanlega tengt nafninu á bænum Svalþúfu:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=139792&pageId=2047193&lang=is&q=L%F3ndrangar

En í Alþíðublaðinu í desember 1944 er önnur skýring á þessum nafngiftum:

http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=64323&pageId=1071509&lang=is&q=L%F3ndrangar

Dagur Bragason (IP-tala skráð) 25.7.2012 kl. 16:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband