Jarðhiti í Laugaskeri og hitaveita Grundarfjarðar

SkáborunJarðhiti er ekki algengur á Snæfellsnesi. Samt sem áður hefur tekist að koma á ágætri hitaveitu fyrir Stykkishólm með því að bora niður í blágrýtismyndunina undir Helgafellssveit, þótt þar sé ekkert mekri um jarðhita á yfirborði.  Önnur sveitafélög á Nesinu hafa kostað miklu í jarðhitaleit, og enn hefur árangur ekki verið fullnægjandi hjá þeim.  Grundarfjarðarbær hefur undanfarið lagt mikið til að rannsaka og bora eftir heitu vatni á  Berserkseyrarodda í mynni Kolgrafafjarðar.  Hér fyrir framan oddann er Laugasker, en þar streymir upp vatn með um 41 stigs hita í sjávarmáli, og er rennsli talið innan við einn líter á sekúndu.  Efnagreining á vatninu sýnir að það gæti hafa verið upphaflega á 135 stiga hita, en það er kísilmagn vatnsins sem er vísbending um hitastig. Síðar var hitinn talinn vera um 80 til 90 stig.  Árið 2004 hófst borun á Berserkseyrarodda, og var það skáborun til norðurs, til að reyna að stinga bornum inn í sprungurnar sem bera heita vatnið upp á Laugasker. Borholunni hallaði um 27 gráður frá lóðréttu.  Á 300 metra dýpi í holunni var vatn 80 stiga heitt og vatnsmagn um 20 til 30 lítrar á sekúndu. Þessar frumniðurstöður lofuðu góðu, og árið 2005 keypti Orkuveita Reykjavíkur þá Hitaveitu Grundarfjarðar og tók við því verkefni að finna jarðhita undir Laugaskeri.  Þá hafði Grundarfjörður  þegar kostað til amk. 107 milljónum króna til verksins.  Nokkur vandamál komu í ljós við frekari borun, og meðal annars brotnuðu borstangir í holunni árið 2005, en þá var borað í 550 m.  Tilraunadæling fór fram árið 2006 og þá kom í ljós mikil tæring á málmum í snertingu við vatnið, en það er mjög kolsýruríkt vatn.  Tæring á málmumMyndin sýnir göt sem komu á rör vegna tæringarinnar.  Vatnið úr holunni hefur verið kallað erfiðasta jarðhitavatn á Íslandi, bæði er það súrt og inniheldur að auki óvenjumikið klóríð (salt). Hvoru tveggja setur skorður við efnisval í búnaði og rörum. Leiðni vatnsins og klóríðinnihald fer vaxandi eftir því sem dælingartíminn lengist, sem bendir til innstreymis sjávar í jarðhitakerfið. Hitastig vatnsins er heldur lægra og magn úr holunni heldur minna en ráð var fyrir gert. Hitastigið og niðurdráttur vatnsborðs í jarðhitakerfinu hafa hins vegar haldist nokkuð stöðug. Talið er að Laugasker sé á aust-suðaustur sprungukerfi, sem liggur eftir hafsbotni og inn á Hraunsfjörð. Ef svo er, þá er sprungukerfið samhliða og gossprungan sem myndaði Berserkjahraun og einnig er sprungan í aðalsefnu þeirri sem einkennir Ljósufjallaeldstöðina alla.  Skáborun var gerð aftur árið 2008, niður í 1500 metra.  Vatnshiti var enn um 80 stig, en sömu vandamál ríktu varðandi seltu, kolsýru og tæringu vegna efnasamsetningar vatnsins.  Voru þá einnig framkvæmdar hitastigulsboranir í landi Berserkseyrar, en nokkrar 50 til 80 m djúpar holur voru boraðar í því skyni. Árið 2011 segir  bæjarstjóri Grundarfjarðar ljóst að við núverandi aðstæður sé ólíklegt að væntingar Grundfirðinga um hitaveitu verði að veruleika á næstunni. “Við erum með samning við Orkuveituna frá árinu 2005. Sagan er í stuttu máli sú að hér fannst vatn í nágrenni við bæinn en efnasamsetning þess var ekki góð. Sem stendur er tæknin sem þarf til að gera hitaveitu mögulega of dýr og því höfum við ákveðið að skoða aðrar lausnir.” 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband