Pyttirnir í Álftafirði

 ÁlftafjörðurÁlftafjörður á norðanverðu Snæfellsnesi er fagur og merkilegur fjörður. Það er engin tilviljun að hann ber þetta nafn, því nær daglega má sjá hundruðir eða jafnvel þúsund álftir á firðinum eða í fjörum umhverfis hann.  Það er sennilega mjög góð ástæða fyrir því að fjörðurinn hefur svo mikið aðdráttarafl fyrir álftina, en þar á hafsbotni og á grynningum allt kringum fjörðinn vex mikið magn af marhálmi.  Ef til vill er hér stærsta marhálmssvæði umhverfis Ísland og þá óþrjótandi matarbirgðir fyrir álftina. Marhálmur (Zostera marina)  er óvenjuleg planta í sjó, þar sem hann er blómstrandi háplanta  en ekkert skyld þörungum og þangi. Ég gekk um fjörur Álftafjarðar nýlega með Ragnhildi Sigurðardóttur vistfræðingi og einnig með líffræðingi  frá Portugal, sem er sérfræðingur í marhálmi um heim allan.  Pyttir í ÁlftafirðiÞað var stórkostlegt að sjá hvað marhálmur þrífst hér vel, á leirunum sem koma í ljós þegar vel fjarar út, og utar í grynningum fjarðarins.  Sumstaðar hefur borist mikið magn af leirhálmi upp í fjöruna, þar sem hann rotnar í miklum haugum.  Það sem vakti mesta athygli mína voru mjög undarlegir pyttir á yfirborði leirflatanna í Álftafirði.  Fyrir framan Krákunes er svæði á hafsbotni, um 200 metrar á breidd,  þar sem allur leirbotninn er þakinn pyttum. Þeir eru frá um 50 til 100 cm í þvermál, og um 10 til 30 cm á dýpt.  Sumir líta úr fyrir að hafa myndast nýlega, og hafa upphleypta brún, alveg eins og gosgígar eða gígar sem myndast eftir loftsteinsárekstra á jörðu. Brúnin er þá blanda af leir og sandi.  Aðrir pyttir eru ellilegir,  og öldur hafsins hafa fjarlægt gígbrúnina vegna rofs þegar sjávarfalla gætir.  Hvernig myndast þessir pyttir?  PytturÍ fyrstu héldum við að hross hefðu farið hér um og skilið eftir hófför sín, en það var fljótlega hægt að útiloka þann möguleika.  Þá fórum við að hallast að þeim möguleika, að það væri eitthvað samband milli pyttanna og marhálmsins og annars gróðurs sem vex í firðinum.  Leirinn og annað set sem safnast fyrir framan fjöruna í Álftafirði inniheldur mikið magn af dauðum marhálmi og þangi. Víða sekkur maður til dæmis upp í miðjan kálfa í drullu sem er mest rotinn marhálmur og leir. Alla tíð síðan jökultíma lauk fyrir um tíu þúsund árum hafa plöntuleifar safnast fyrir hér í setinu umhverfis og á botni Álftafjarðar.  Það getur hugsanlega verið tugir metra á þykkt.  Þegar þetta mikla magn af lífrænu efni rotnar í setinu, þá getur myndast jarðgas eða metan gasið CH4 sem brýtur sér leið upp úr setinu.  Ef til vill rísa stórar bólur af gasi upp í gegnum setið öðru hvoru, og springa á yfirborði og mynda þá um leið gíg-laga pyttina.  Við sáum engin merki þess, að gas væri að rísa nú upp úr setinu, og sennilega myndast pyttir aðeins öðru hvoru, ef til vill einn á dag eða einn á viku, og því erfitt að fá sönnun fyrir þessari kenningu.  PytturEn það er vel þess virði að skoða fjöruna í Álftafirði á stórstraumsfjöru, og virða fyrir sér þennan mikla fjölda af hinum dularfullu pyttum.  Best er að ganga niður frá bílvegi númer 54, við norður enda Úlfarsfells, niður að höfða þeim, sem háspennulínan liggur á út yfir Álftafjörð: Krákunes.  Hér var áður vaðið sem riðið var á yfir fjörðinn.  Hér fyrir framan og aðeins norðar sést mikill fjöldi af pyttum á yfirborði leirsins.  Ég tek það fram, að kenningin um að pyttirinir myndist af völdum metan gass er aðeins tilgáta. Frekari rannsóknir þarf til að sanna eða afsanna hana.  En eitthvað óvenjulegt er að gerast í leirnum í Álftafirði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Þess má geta að marhálmir var notaður í rúmdýnur og til einangur á húsum hér áður fyrr.

Kv, Sigujón Vigfússon

Rauða Ljónið, 19.7.2011 kl. 17:09

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Frodlegt. Vaeri ekki rad ad fa einhverja adila til ad setja upp "webcam" a fjoruna svo haegt se ad fylgjast med hvad se ad gerast?

Orugglega eitthvert simafyrirtaeki tilbuid ad auglysa sjalft sig med slikri thjonustu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.7.2011 kl. 21:56

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Marhálmur var mikið notaður í einangrun húsa í Stykkishólmi og víðar á Snæfellsnesi áður fyrr. Flest eða öll eldri timburhús í Hólminum höfðu þurrkaðan marhálm á milli veggja.  En hann seig niður innan veggja með tímanum, og myglaði. Margir Hólmarar kannst við það að rífa út marhálminn þegar húsin hafa verið endurgerð.

Haraldur Sigurðsson, 21.7.2011 kl. 08:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband