Múlakvíslarhlaupið – eldgos í Kötlu eða jarðhiti?
13.7.2011 | 17:01
Mikið var rætt um hugsanleg tengsl milli Eyjafjallajökuls og Kötlu í fyrra, þegar gosið í Eyjafjallajökli hófst. Ég hef bloggað um það áður hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1036190/ Því hefur verið haldið fram að Kötlugos hafi komið strax í kjölfar á gosum í Eyjafjallajökli, um árið 920, árið 1612, og síðast í gosinu sem var árið 1821 til 1823. Það voru því allir á nálum, í ótta um að nú byrjaði Katla með enn stærra sprengigosi. Gögnin sem birt voru í fjölmiðlum í fyrra fylgja hér með á fyrstu myndinni. Hætt er við að umræðan um jökulhlaupið sem varð nýlega í Múlakvísl hinn 9. júlí 2011 vekji upp þennan gamla draug: er fylgni eða tengsl milli gosa í þessum miklu eldstöðvum? Í jökulhlaupinu undan Kötlujökli bárust fram um 18 milljón rúmmetrar af vatni, og þrír miklir sigkatlar mynduðust. Hlaupið reif burt brú og vatnshæðarmæli við Múlakvísl og orsakaði óróa á skjálftamælum umhverfis Mýrdalsjökul. En það virðast skiftar skoðanir um orsök jökulhlaupsins í Múlakvísl. Í Morgunblaðinu inn 12. júlí telur Helgi Björnsson jöklafræðingur að flóðið í Múlakvísl hafi orsakast af kvikuinnskoti eða jafnvel litlu eldgosi undir Mýrdalsjökli. ,,Þetta sýnist mér af því að þarna eru lóðréttir hringlaga strompar sem segja mér að þarna hafi bráðnað mjög mikið staðbundið og skyndilega," segir Helgi. Daginn eftir kom nokkuð önnur skoðun í ljós í Morgunblaðinu: Ekkert bendir til þess að eldgos hafi orðið undir Mýrdalsjökli og valdið hlaupinu sem reif með sér brúna yfir Múlakvísl aðfaranótt laugardags, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings. Báðar þessar skoðanir eru sennilega jafngildar, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir. Myndir af sigkötlunum eru stórfenglegar, en ég læt hér með fylgja eina mynd frá Landhelgisgæzlunni, sem sýnir á skemmtilegan hátt öskulgið frá gosinu í Eyjafjallajökli í fyrra (nú á um 10 metra dýpi í jöklinum) og einnig öskudreifina frá gosinu í Grímsvötnum í síðasta mánuði. Það er algengt að jökulhlaup verði af völdum langvarandi jarðhita undir jöklum. Þar er stöðug bráðnun jökulsins og mikið vatnsmagn safnast fyrir. Þegar krítisku marki er náð, þá lyftir vatnið upp jökulsporðinum, hleypur fram, og jökullinn lokast aftur á eftir hlaupinu. Síðan byrjar sama hringrásin aftur, bráðnun, vatnssafn undir jöklinum, og svo annað hlaup einhverjum áratugum síðar. Mælingar á nýja hlaupvatninu sýndu meðal annars að kolmónoxíð (CO) er fyrir hendi og vakti það grun hjá sumum að hér væri vitneskja um gos, en rétt er að benda á, að mælingar á þessu gasi hafa ekki berið framkvæmdar áður hér, og því ekki tímabært að draga mikla ályktun út frá því. Óvissa ríkir einnig um fyrri hlaup úr Múlakvísl: voru þau tengd gosum eða voru þau afleiðing langvarnadi jarðhita undir jöklinum? Sumir telja til dæmis að hlaupin árin 1955 og 1999 hafi einnig verið af völdum smágosa undir jöklinum (sjá grein eftir Erik Sturkell og félaga 2009, og vefsíðu hins Norræna Eldfjallaseturs). Höfuð ástæðan að ég ræði þessa óvissu um túlkun hlaupsins í Múlakvísl er sú, að ef um gos er að ræða, þá eru hgusanlega komin fram fjögur tilfelli, þar sem Kötlugos fylgir fast á eftir gosi í Eyjafjallajökli (ca. 920, 1612, 1821-23 og 2010-2011?). Er það tilviljun, eða er eitthvað samband milli eldstöðvanna? Ég hallast að því að hér sé um hreina tilviljun að ræða, þar sem við höfum enga fræðilega kenningu um hugsanlegt samband. En hver veit: við erum alltaf að læra eitthvað nýtt! Að lokum: nú var rétt í þessu að koma fram á mælum jarðskjálfti af stærðinni 3,1 í Kötluöskjunni, sem bætir enn á taugaspennuna varðandi Kötlu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eyjafjallajökull, Jarðhiti | Facebook
Athugasemdir
Er hugsanlegt að óvenju mikið vatn safnist upp af völdum hraðrar baðnunnar, sem orsakast af öskulaginu ofan á jöklinum? Ekki að það sé orsök hlaupsins að öllu leyti, en gæti þetta verið samverkandi þáttur?
Jón Steinar Ragnarsson, 14.7.2011 kl. 00:34
Skemmtilegar pælingar ... með rökum. Kemur sannleikurinn í ljós? En er öskulagið frá í fyrra virkilega komið á 10 m dýpi?
Hulda Björg Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.7.2011 kl. 22:48
Ég er vön að skoða óróamælingar Veðurstofans öðru hvoru en núna nýlega fannst mér að þar séu ábérandi „parallelur“ á milli einhverjum stöðum sem liggja eiginlega langt í burtu frá hver annari: t.d. Ásbjarnastaðir í Borgarfirði hins vegar og Reynihlíð í nágrenni Mývatns annars vegar; eða líka Smjörgil hja Eyjafjallajökli hins vegar og Askja annars vegar (og svo liggur Hamarinn næstum því alveg á línunni á milli þessum báðum stöðum!). Mýnstrin passa skrýtinlega vel saman.
Hvað finnst þér um þetta sem vísindamaður (ég sjálf er bara leiðsögumaður með áhuga á jarðvísindi)?
Reykholt
Ingeborg Gertrud Breitfeld, 26.7.2011 kl. 20:21
Ég hef ekki tekið eftir slíkum samtíma óróa á fjarlægum stöðvum. Ein skýring kann að vera, að óróinn sé tengdur veðurfari, en ekki jarðhræringum. Órói kann að koma fram þegar lægð gengur yfir svæði, með vindi og loftþrýstingsbreytingum. Vissar stöðvar eru meira viðkvæmar fyrir því. En ef til vill geta verið tengsl sem við ekki skiljum.
Haraldur Sigurðsson, 27.7.2011 kl. 08:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.