Eldfjallalist frá Nýju Gíneu
22.6.2011 | 08:18
Ég ferðast varla svo inn á eldfjallasvæði, að ég rekist ekki á nýtt listaverk fyrir Eldfjallasafn í Stykkishólmi. Svo var einnig í ferð minni til Nýju Gíneu og til Rabaul eldstöðvarinnar í maí árið 2011. Ég var við athuganir út á auðninni milli gíganna Tavurvur og Rabalanakaia, þegar ég hitti nokkra krakka sem voru að selja ýmsa muni. Ungi ljóshærði kaupmaðurinn seldi mér málverk eftir föður sinn Mika. Myndin sýnir gos í Tavurvur gígnum, en af einhverjum ástæðum er Mika sérlega hrifinn af hvítum fjallabílum og bætir þeim oft inn á myndir sínar. Þeir búa á eynni Matupit, inni í miðri Rabaul öskjunni. Reyndar er hún ekki lengur eyja, heldur hefur hún lyftst upp um 17 metra vegna jarðhræringa og er nú komið þurrt land á milli Matupit og meginlandsins. Eyjan heldur áfram að rísa dag frá degi um nokkra millimetra.
Annars var ég nokkuð undrandi á því hvað það er mikið af ljóshærðum börnum og einnig ungum ljóshærðum konum í Nýju Gíneu. Ég fékk þrjár skýringar á þessu fyrirbæri: (a) þau þvo sér um hárið með peroxíð, (b) það er svo lítið ferskt vatn að fá á Matupit að þau fara í bað í sjónum á hverjum degi og það lýsir hárlitinn, (c) ljóshærðir Ástralir hafa farið hér um í mörg ár og skilið eftir erfðaefni sitt meðal innfæddra. Ég veit ekki hvað er líklegasta skýringin, og ef til vill eru allar virkar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallalist, Ferðalög, Mannfræði | Facebook
Athugasemdir
Papúar á Nýju Gíneu og nálægum eyjum eru oft ljós- eða rauðhærðir, einkum í æsku. Svo hefur alltaf verið og skýringin hlýtur að vera erfðafræðileg og kemur ljóshærðum Áströlum og sjóböðum varla neitt við.
Vilhjálmur Eyþórsson, 22.6.2011 kl. 09:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.