Kirkjufell og Aldur Grundarfjarðar
5.4.2011 | 14:23
Kirkjufell er fjall eitt í Grundarfirði á Snæfellsnesi, 463 m á hæð. Það stendur eistakt í landslaginu og er einnig einstakt fyrir fagurt form sitt, eins og myndin eftir Sig Holm sýnir. Einnig er jarðfræði þess merkileg. Talið er að landnámsmenn hafi nefnt fjallið Firðafjall og væri réttast að taka það forna nafn upp aftur. Þetta er einmit fjallið milli fjarða. Fyrrum nýlenduherrar vorir, Danir, kölluðu fjallið því lágkúrulega nafni Sukkertoppen, en á þeim tíma var sykur fluttur til landsins í stórum stykkjum sem voru eins og spírur í laginu. Yfirleitt er Kirkjufell klifið upp suður hlíðina, enda minnstur brattinn hér.
Talið er að jarðfræðingurinn Helgi Pjéturss hafi klifið Kirkjufell árið 1906, en er upp kom réðst á hann grimmur örn, enda er suður toppur fjallsins nefndur Arnarþúfa. Ég kleif Kirkjufell sumarið 1967 ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi og tveimur bandarískum jarðfræðingum. Ferðin er mér mjög eftirminnileg en ekki hef ég hug á að endurtaka hana nú. Verst þótti mér að klífa upp rennandi blautar og sleipar torfur af grasi og mold, þar sem fótfesta var lítil, og hengiflug fyrir neðan. Ekki veit ég fjöldann af dauðsföllum í Kirkjufelli, en alltaf öðru kvoru koma fréttir af mönnum sem hrapa þar niður og bíða ávallt bana. Nýlega rakst ég á gamla frétt í Morgunblaðinu frá 21. júní 1945. Frá fréttaritara vorum, Stykkishólmi, miðvikudag: Það hörmulega slys vildi til í Grundarfirði í fyrra dag, að ungur maður hrapaði í Kirkjufelli og beið bana af. Maður þessi var Ragnar Steinþórsson, Bjarnareyjum, Breiðafirði, 20 ára gamall. Hann hafði gengið með félaga sínum sér til skemmtunar upp á Kirkjufell og mun hafa farið svo tæpt á fjallið, að hann hrapaði. Félagi hans gerði þegar aðvart á næstu bæjum, ennfremur var lækni gert aðvart. Þegar komið var að Ragnari var hann enn með lífsmarki, en er læknirinn kom var hann örendur.
Jarðlögin sem eru í miðju Kirkjufelli innihalda mikilvægar upplýsingar um jarðfræði á norður hluta Snæfellsnes á jökultíma og þróun í hafninu þar sem nú er Breiðafjörður. Skammt fyrir norðvestan Kirkjufell er fjallið Stöð, en ég hef áður fjallað um jarðlögin í því fjalli hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1060932/ Einnig bloggaði ég um Búlandshöfða hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1021036/. Jarðmyndanir í þessum þremur fjöllum eru náskyldar, eins og Helgi Pjéturss benti fyrst á. Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) menntaskólakennari hélt áfram rannsóknum á norðanverðu Snæfellsnesi árið 1922 og birti grein um þær árið 1929. Hann benti á að í 140 til 160 metra hæð í fjallinu er lag af völubergi og lagskiftum sandsteini, sem hann taldi skylt setlögum af völubergi og sandsteini í 160 metra hæð í Mýrarhyrnu fyrir sunnan Kirkjufell, í Hyrnudal, og lagi sem er í 130 til 150 metra hæð í Skerðingsstaðafjalli, þar sem hann fann sjávarskeljar af ýmsum tegundum (Saxicava rugosa , Scalaria grønlandica, Balanus). Hann rakti setlagið enn vestar, í Höfðakotsgil í 150 til 165 metra hæð, en þar er það lagskiftur leirsteinn, sandsteinn og völuberg með sjávarskeljum (Saxicava rugosa). Enn vestar, rétt áður en leið liggur fyrir Búlandshöfða, fann Guðmundur leirsteins- og völubergslagið með ýmsar sjávarskeljar í 150 til 160 metra hæð (Cardium ciliatum, Astarte borealis, Astarte elliptica, Astarte Banksii, Saxicava rugosa, Acmæa, Scalaria grønlandica). Hann áleit þetta lag halda áfram til vesturs í Búlandshöfða.
Skipan jarðlaga í Kirkjufelli er sýnd í stórum dráttum í annari mynd, sem er af fróðlegu upplýsingaskilti við þjóðveginn skammt fyrir vestan kaupstaðinn Grundarfjörð. Neðsta jarðmyndunin er merkt Tertíer hraun og er sýnd dökkblá á myndinni, upp undir um 130 metra hæð. Þessi fornu hraunlög eru sennilega um 5 til 10 milljón ára að aldri, og tilheyra þeirri fornu blágrýtismyndun sem skapar sökkul Snæfellsness. Eins og myndin sýnir, þá koma setlög (sýnd græn) ofan á blágrýtismyndunina í um 130 metra hæð og náupp í um 160 metra hæð. Þetta eru setlögin sem Guðmundur Bárðarson fjallaði um. Hann fann ekki steingervinga eða skeljar í þessum lögum, en ég hef heyrt um að minnsta kosti einn hrúðurkarl sem fundist hefur í því. Þess vegna er nokkuð víst að þessi setmyndun varð til í sjó eða rétt við sjávarmál.
En hvað með aldur á setlaginu í Kirkjufelli? Ameríkanarnir tveir sem ég kleif Kirkjufell með árið 1967, Richard Doell og David Hopkins, voru sérfræðingar í að ákvarða segulsvið jarðar á ýmsum tímum, og greina aldur bergs. Þeir sýndu fram á að öll jarðlögin fyrir ofan setið í 160 metra hæð eru öfugt segulmögnuð. Það er að segja: segulstefna þeirra stefnir í þveröfuga átt miðað við núvernadi segulsvið jarðar. Þetta er sýnt með litlum hvítum hringjum við hlíð jarðlaganna á myndinni fyrir ofan. Nú er vitað að segulsvið jarðar snérist við fyrir um 700 þúsund árum. Öll efri jarðlögin í Kirkjufelli eru því eldri en um 700 þúsund ár.
Efst á Kirkjufelli er um 50 metra þykkt lag af móbergi, sem hefur gosið þegar þykkur ísaldarjökull lá yfir öllu landinu og Breiðafirði. Þegar ég rakst á móbergið árið 1967 þá vakti það furðu mína hvað það var líkt móberginu sem myndar kolinn á fjallinu Klakki (380 m) austan við Grundarfjörð. Það kom reyndar í ljós að þetta er sama móbergslagið, en upptök þess eru í sívölum gígtappa sem ber nafnið Steinahlíðarhaus, sunnan til í Eyrarfjalli. Fyrir um einni milljón árum var samfellt landsvæði milli Kirkjufells og Klakks, þegar móbergslagið breiddist út við gos undir jökli. Skömmu síðar rifu skriðjöklar lagið niður og skáru út Grundarfjörð og núverandi landslag umhverfis Kirkjufell.Þegar fjörðurinn var fullmyndaður varð nokkuð stæort eldgos í fjallgarðinum fyrir sunnan Grundafjörð. Mikið grágrýtishraun rann til norðurs og finnast leifar þess nú í Melrakkaey og í Krossnesi. Sennilega var þetta gos á síðasta hlýskeiði, fyrir um eitt hundrað þúsund árum, en þá var Grundarfjörður fullmyndaður.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðskorpan, Snæfellsnes | Breytt s.d. kl. 16:26 | Facebook
Athugasemdir
Fróðlegt og skemmtilegt.
Smá ábending; textinn verður auðlesnari ef þú bútar hann niður og hefur bil á milli. (Enter á milli greinaskila) Þessi texti færi ágætlega í ca 6-8 bútum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.4.2011 kl. 15:02
Takk fyrir það. Alveg sammála, en greinarskil verða stærri en mér finnst æskilegt.
Haraldur Sigurðsson, 5.4.2011 kl. 15:19
Dr. Haraldur, ég stansaði aðeins við eftirfarandi í textanum: "....vakti það furðu mína hvað það var líkt móberginu sem myndar kolinn á fjallinu Klakki (380 m) vestan við Grundarfjörð..."
Mér finnst að þú eigir þarna við Klakkinn milli Grundarfjarðar og Kolgrafafjarðar og þá er hann samkvæmt mínum áttaskilningi austan Grundarfjarðar. Nefni þetta svona meira til gamans. Annars er óskaplega gaman fyrir gamlan Snæfelling að lesa þegar fjallað er um Snæfellsnes og jarðfræði þess, en það hefur orðið ansi mikið útundan síðari ár og áratugi í umfjöllun jarðvísindamanna.
Góðar kveðjur.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 15:44
Hvað er yngsta hraunið á Snæfellsnesi gamalt?
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.4.2011 kl. 15:49
Skemmtileg og fróðleg grein hjá þér Haraldur !
Já þau eru mörg , gömlu heitin , sem mætti og ætti að taka aftur upp , t.d. Hnappavallajökull o.fl. ofl. , en af hverju í ósköpunum eru menn að breyta þessum fínu gömlu nöfnum , er þetta smákóngurinn sem blómstrar þarna í íslendingum ?
Hörður B Hjartarson, 5.4.2011 kl. 15:52
Takk fyrir leiðréttinguna, Þorkell.
Yngsta hraun á Snæfellsnesi er Rauðhálsahraun í Hnappadal, en það rann rétt eftir landnám.
Ég held að nafnið Kirkjufell sé tengt kristnitöku Íslandi. Það væri fróðlegt að kanna, hvenær nafnið er fyrst notað. Mig grunar á miðöldum, en hef ekkert fyrir mér í því sambandi.
Haraldur Sigurðsson, 5.4.2011 kl. 16:28
Takk Haraldur fyrir að nota myndina mína af Kirkjufelli; hér með gef ég þér leyfi til að nota mínar myndir á þessu bloggi þínu ef þú vilt meðan það er svona frítt og fróðlegt - (heimilda sé getið eins og hér er gert) - þetta er einstakt fyrir okkur íslendinga að fá svona hnitmiðaðan og skýran texta (og skýringamyndir) - á mannamáli. Við erum jú flest ekki eldfjallafræðingar en höfum samt gaman að því að fræðast um það hvað er undir okkur. :)
Til hamingju með nýju bókina
Sigurþór Hólm.
http://www.flickr.com/photos/sigurtor/
Sigurþór Hólm Tryggvason- (IP-tala skráð) 18.4.2011 kl. 03:03
Sigurþór: Kærar þakkir fyrir að gefa mér leyfi til að birta mynd þína af Kirkjufelli. Hún er sú besta sem tekin hefur verið af þessu sérstaka fjalli.
Haraldur Sigurðsson, 18.4.2011 kl. 13:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.