Getur járn í sjónum dregið úr hlýnun jarðar?
25.3.2011 | 21:53
Árið 1996 varð eldgos í Vatnajökli, með upptök norðan Grímsvatna og mikið jökulhlaup streymdi til sjávar. Mikið af eldfjallaösku, leir og sandi barst út í hafið sunnan Íslands. Fljótlega kom í ljós á myndum gervihnatta yfir Norður Atlantshafi, að plöntusvif blómstruðu skyndilega í hafinu sunnan lands. Gat það verið að gróður svifþörunga í hafinu hefði tekið við sér vegna efna sem bárust út í Norður Atlantshafið í jökulhlaupinu? Var það efni ef til vill járn? Skyldi askan frá Eyjafjallajökli í fyrra hafa valdið mikilli blómgun svifþörunga í Atlantshafi? Það er margt sem bendir til að járn geti hjálpað til með að draga koltvíoxóð út úr andrúmsloftinu og niður í hafið. Ef svo er, þá er möguleiki að aukið járn í hafinu geti hjálpað til með að draga úr eða vinna á móti hlýnun jarðar. Þetta er tengt hlutverki járns í myndun blaðgrænu, sem er sambærilegt við mikilvægi járns í að mynda haemoglobín í blóði okkar. Við borðum lifur eða spínat til að taka inn meira járn. Svifþörungar í hafinu hafa blaðgrænu og nýta sólarorku til vaxtar. Járn er nauðsynlegt efni í blaðgrænu, en járn er í mjög litlum mæli í sjó, og takmarkar það því mjög mikið bæði vöxt og fjölgun svifþörunganna. Fyrsta myndin sýnir dreifingu blaðgrænu í hafinu, en hún er áberandi mest norðarlega á norðurhveli. Hins vegar er sjór umhverfis miðbaug tær og dauður. Það var um 1980 að Bandaríski haffræðingurinn John Martin benti á, að ef til vill væri hægt að orsaka mikla fjölgun svifþörunga í hafinu með því að dreifa járni á yfirborð hafsins. Það merkilegasta sem gerist við fjölgun svifþörunga og plöntusvifs almennt í hafinu er það, að þessar lífverur neyta koltvíoxíðs og lækka þannig koltvíoxíðmagn hafsins of andrúmsloftsins. Er hægt að draga úr hlýnun jarðar með því einfalda bragði að strá járni á hafið? Þetta er spennandi spruning, og hafa nú tilraunir hafist til að prófa það í raun. Það er ótrúlega lítið járn í sjónum, eða um það bil einn partur af milljarði. Það stafar af því að járn leysist upp mjög treglega í sjó. Af þeim sökum eru járnbirgðir fyrir svifþörungana mjög takmarkaðar. Eins og seinni myndin sýnir, þá getur sjórinn tekið upp koltvíoxíð úr andrúmsloftinu, sem er bundið í vefji svifþörunga. En til þess þarf járn að vera fyrir hendi. Svifþörungarnir falla síðan til botns og þar með grefst koltvíoxíðið í setmyndunum á hafsbotni. Járn-ríka kerfið pumpar‟ þannig koltvíoxíð niður úr andrúmsloftinu og niður á hafsbotn. Það gæti á þann hátt dregið úr hlýnun jarðar. En þetta er kenningin; hver er raunveruleikinn? Nú eru að hefjast tilraunir með að bera járn á stór svæði hafsins. Það hafa verið gerðar fjórtán tilraunir síðan 1993, en það er of snemmt að dæma um árangurinn. Við skulum fylgjast vel með þessu merkilega máli. Ég bendi á vefsíðu sem vísindamenn frá tólf háskólum gera út, og veita frekari upplýsingar um dreifingu járns á hafið: http://isisconsortium.org/page.do?pid=46115
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Jarðsköpun, Loftslag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.