Jarðsköpun - Geoengineering
24.3.2011 | 16:20
Hugtakið jarðsköpun eða geoengineering er tiltölulega nýtt af nálinni, en það er viðleitni mannkyns til að stýra eða breyta umhverfi sínu á allri plánetunni sér í hag. Ég mun fjalla um ýmsar hliðar á jarðsköpun eða jarðbreytinga í bloggi mínu á næstunni. Allar götur frá því að inbyltingin hófst í lok átjándu aldar, þá hefur maðurinn ósjálfrátt verið að breyta umhverfi sínu. Myndin til hliðar sýnir hina miklu aukningu á koltvíoxíð innihaldi loftsins, en myndin er byggð á gögnum úr ískjörnum og víðar. Það er greinilegt að koltvíoxíð hefur sýnt miklar sveiflur í gegnum jarðsöguna, en aldrei því líkt sem nú er, eins og seinni myndin sýnir. Hún nær aftur um 450 þúsund ár jarðsögunnar. Nú vitum við, ef til vill of seint, að þetta eru áhrif sem við vildum helst aldrei hafa haft á jörðina. Jarðsköpun er sem sagt að breyta einhverri plánetu þannig, að hún líkist jörðu, og sé vistvæn fyrir mannkynið (terraforming). Það var bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan sem fyrst stakk upp á terraforming aða jarðsköpun fyrir Venus árið 1961, og síðar fyrir plánetuna Marz árið 1973. Markmið jarðsköpunar eða jarðbreytingar er að hafa áhrif á jörðina á þann veg, að núverandi ástand loftslags varðveitist, í hag fyrir mannkynið. Þetta á líka við ýmsa aðra þætti umhverfisins, svo sem um verndun jarðar frá árekstrum loftsteina, og hættulegri inngeislun frá sólinni. Jarðsköpun vekur strax upp spurningar um siðferði og siðfræði. Getum við leyft okkur að leika guð og breyta umhvefinu, með athöfnum sem hafa óvissa útkomu og sem gæti verið skaðlegt fyrir komandi kynslóðir? Vísindamenn eins og Carl Sagan og hans nemendur hafa leikið sér með hugmyndir um jarðbreytingu á öðrum plánetum, en lengi forðast að fara inn á þessa braut varðandi jörðina okkar. Árið 1985 kom út merk bók eftir Bandaríska jarðefnafræðinginn Wallace Broecker: How to build a habitable planet. Hér reiknaði hann út að með því að dreifa miklu magni af brennisteinsúða daglega í heiðhvolfi jarðar, þá væri hægt að vega á móti þeirri hlýnun jarðar sem vaxandi koltvíoxíð veldur nú. En kostnaðurinn við þetta væri um $50 milljarðar á ári. Wally Broecker gerði þetta meir í gríni en alvöru, en árið 2006 kom út grein eftir Nóbelverðlaunahafann Paul Crutzen, þar sem hann fjallar frekar um hugmyndina að vinna á móti hlýnun jarðar með brennisteinsúða í heiðhvolfi: "Albedo Enhancement by Stratospheric Sulfur Injections: A Contribution to Resolve a Policy Dilemma?" í ritinu Climatic Change. Nú er jarðbreyting allt í einu orðin umræðuefni vísindamanna og þá er aðeins spursmál um hvenær gripið verður til aðgerða. Nú í dag er talið að áhrif mannkyns á loftslag, vegna útlosunar koltvíoxíðs, samsvari um 2 Wöttum á fermeter af yfirborði jarðar. Það er að segja, hitaaukningin er sú sama og ef 2-watta perur glói á hverjum fermeter jarðar, á sjó og á landi. Til að vinna á móti þessum aukna varma er stungið upp á að dreifa brennisteinsúða í heiðhvolfi, um 20 til 30 km hæð fyrir ofan yfirborð jarðar. Þriðja myndin sýnir magnið af brennisteini (sulfur) sem þarf til þessa, eða 2 til 8 milljón tonn af brennistein á ári. Það kostar um einn til tíu milljarða dollara að dreifa einum milljarð tonna af brennistein á ári, eða allt að $80 milljarða á ári til að vega á móti hlýnun jarðar í dag. En það eru fleiri hugmyndir á lofti, sem ég mun blogga um síðar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðefni, Jarðsköpun, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Mig langar að spyrja, hvort jarðfræðingar hafi rannsakað hvort allur þessi námagröftur um allan heim og oíudæling úr jarðskorpunni hafi áhrif til aukins fjölda, eldgosa og jarðskjálfta?
Pálmi (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 20:48
Námugreftri hefur ekki verið enn kent um neina jarðskjálfta. Hins vegar eru nokkuð sterkar líkur á því, að stórar stíflur og mikil lón á bakvið þær hafi valdið jarðskjálftum á Indlandi, á svæði þar sem jarðskjálftar hafa aldrei orðið fyrr. Einnig eru nokkuð góðar líkur á því að jarðskjálftar í norður Kaliforníu, í grennd við The Geysers hverasvæðið, hafi byrjað fljótlega eftir að miklar boranir hófust þar eftir jarðhita, og so mikið gekk á, að ákveðiðvar að hætta allri virkjun á jarðhita þar, vegna mótmæla fóks sem býr í nágrenninu. Um það má lesa frekar í fyrra bloggi mínu um þetta mál. Sjá hér http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/993423/
Haraldur Sigurðsson, 26.3.2011 kl. 21:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.