Á siglingu með heimsskipinu The World

The WorldÉg hef ekki haft mikið samband við auðmenn um ævina, en en í sumar var ég á sjó í grennd við Ísland á tveimur og mjög einstökum skipum auðmanna.  Hér áður fyrr, á mínum róttæku árum, hefði það ekki komið til mála að vera í slíkum félagsskap örgustu kapítalista, en þar er víst rétt sem sagt er, að maður mildast með árunum.  Fyrri ferðin var tólf daga sigling á glæsisnekkjunni M/Y Octopus, frá 30. júlí til 12. ágúst, en varðandi þá ferð er ég bundinn þagnarskyldu.  Síðari siglingin var á  M/V The World, og hér er stutt frásögn af þeirri sjóferð, sem var dagana 26. til 30. ágúst.    Fyrir um einu ári var mér boðið að halda fyrirlestra um Ísland og eldfjöll á The World.  Ég tók þessu fálega, af því að ég hef alltaf haft lítið álit á svokölluðum skemmtiferðaskipum, sem eru flest fljótandi spilavíti þar sem allt er á floti í áfengi um borð.  Ég afþakkaði því boðið.   Eftir stöðugar hringingar og mikinn straum af upplýsingum var ég loks sannfærður um, að hér væri ekkert venjulegt skemmtiferðaskip, já, reyndar ekki skemmtiferðaskip, heldur eiginlega fljótandi þorp eða samfélag.  The World er í eigu um eitt hundrað manna og kvenna, frá um 40 löndum.  Eigendurnir ráða rekstrinum, ferðaáætlun og öllu skipulagi. Skipið siglir um öll heimsins höf, og hefur öðru hvoru um 2 til 5 daga viðdvöl í höfnum hér og þar.  Ferðaáætlun 2010Landakortið til hliðar sýnir ferðaáætlun þeirra fyrir árið 2010.  Um borð í þessu risastóra skipi, sem er vel yfir 200 metrar á lengd, eru 165 íbúðir sem eru allar í einkaeign. Þær dýrustu og stærstu eru 300 fermetrar, og kostar ein slík íbúð um $13.5 miljónir.  Mánaðargjöld fyrir hverja íbúð eru um $20 þúsund.  Það er því ekki á færi hvers sem er að taka þátt í búskap, lífinu og siglingum  með The World.  Yfirleitt eru um 200 manns um borð, en nokkrir eigendur, einkum kamlir og einhleypir karlar á níræðisaldri, búa um borð allt árið, nema þegar skipið fer í þurrkví einn mánuð á ári.   Skipið var smíðað í Noregi árið 2001 og því var hleypt af stokkunum ári síðar.  Skipstjórinn er norskur, en annars er meiri hluti af áhöfninni, um 200 manns, frá Filippseyjum og Bretlandi.  Um borð er allt sem mann getur dreymt um til að gera lífið þægilegt.  Það var gleðilegt að sjá hvað bókasafnið var stórt og vel skipulagt og greinilega mikið notað.  Fimm veitingahús hafa uppá að bjóða besta mat sem ég hef komist í.  Fólkið var einstaklega viðkunnanlegt og hafði mikinn áhuga á að fræðast um Ísland, um eldfjöll, jarðfræði og reyndar allt sem ég hafði uppá að bjóða, en um borð er auðvitað fyrsta flokks fyrirlestrasalur.  Það vakti sérstaklega eftirtekt mína, að allir kynna sig einungis með fornafni, en eftirnöfn eru ekki notuð.   Ég sá mörg andlit sem ég þóttist kannast við sem frægt fólk úr blöðum og fjölmiðlum, og fékk aðeins að heyra fornafnið,  en á þennan hátt reyna auðmennirnir að vernda sitt einkalíf.  Hér er á ferðinni fólk sem lifir eingöngu í sínum verndaða og vel varða heimi, líður áfram um heimsins höf, situr úti á svölum fyrir utan íbúðina sína og sér Öræfajökul og Surtsey líða framhjá þessa vikuna en síðar grænu eyjarnar í Karíbahafi í næstu viku, um leið og þjónninn kemur með annað glas af kampavíni.  Um leið og ég fer í land við Skarfaklett í Reykjavík þá reyni ég að telja mér trú um, að svona líf  hljóti nú að vera ósköp leiðinlegt til lengdar, en ég er nú bara ekkert svo viss…


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Gaman  að lesa þetta, Haraldur.

Aðalsteinn Agnarsson, 9.9.2010 kl. 21:46

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Skemmtileg frásögn, takk! En þú gerir mann heldur betur forvitinn um fyrri ferðina, leyndardómsfullu

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.9.2010 kl. 23:37

3 identicon

Þegar að menn eru komnir á visst aldursskeið í lífinu, búnir að hlaupa af sér hornin og orðnir lúnir, þá held ég að það sé ansi þægilegt að liggja í leti á svölunum og horfa á Surtsey líða hjá og vera ekki fyrr búinn að sleppa kampavínsglasinu þegar að annað er komið á borðið.

Takk fyrir skemmtilegan pistil.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.9.2010 kl. 01:00

4 Smámynd: Ragnheiður

þetta hefur verið flott ferðalag, í báðum tilvikunum

Ragnheiður , 12.9.2010 kl. 22:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband