Kort Helland af Lakagígum er merkilegt listaverk

 

Kort Hellands af LakagígumEitt af fyrstu listaverkum tengdum eldfjöllum Íslands er kort norska jarðfræðingsins Amund Helland af Lakagígum, sem var árangur af ferð hans til Íslands árið  1881.  Lakagígar  er 25 km löng sprunga þar sem yfir eitt hundrað gígar gusu miklu hrauni árið 1783, þegar Skaftáreldar geisuðu og mynduðu stærsta hraun sem hefur runnið á jörðu síðan sögur hófust.  Áhrif gossins voru óskapleg, bæði á Íslandi og í Evrópu.  Lakagígar nærmyndAllir þekkja Móðuharðindin sem komu í kjölfar gossins, en þá var 24%  mannfækkun á Íslandi og um 75% af öllum búpening landsmanna fórst.  Ekki fór mikið fyrir rannsóknum á gosinu, en Sveinn Pálsson læknir kom fyrstur manna að Lakagígum árið 1794, rúmum tíu árum eftir gosið.   Tæpum eitt hundrað árum eftir gosið gerði norski jarðfræðingurinn  Amund Theodor Helland (1846-1918) út leiðangur til eldstöðvanna. Bræðurnir Leó og Kristján Kristjánssynir hafa fjallað um heimsókn Hellands til Íslands í grein í Náttúrufræðingnum árið 1996.    Helland kom til Seyðisfjarðar snemma sumars árið 1881, og komst svo loks til Lakagíga síðar um sumarið. Árangurinn af ferð hans var kort af eldsprungunni Lakagígar, en kortið eitt er meir en tveir metrar á lengd.   Kortið teiknaði norski málarinn Knud Gergslien undir leiðsögn Hellands.  Það er til sýnis í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.   Hann áætlaði að gosið hefði myndað hraun sem væri 27 rúmkílómetrar, en það er nokkuð hærri tala en síðari rannsóknir telja: eða um 15 km3.   Eftir ferð sína til Íslands birti Helland merka grein með heitinu “Lakis kratere og lavastromme”, og kom hún út í  Kristiania (nú Osló) árið 1886.  Ekki eru allir hrifnir af framtaki Hellands. Sigurður Þórarinsson (1969) fer til dæmis frekar niðrandi orðum um Íslandsför Hellands og telur að hann hafi aðeins verið tvo daga við Lakagíga í ágúst árið 1881. Ef litið er á kortið, þá virðist ótrúlegt að Helland hafi afkastað þessu mikla verki á tveim dögum.   Grein Hellands sýnir reyndar að hann var í eina viku í ferðinni.  Hann mældi hæð og breidd flestra gíganna, og eru hæðartölur á flestum gígunum sýndar á kortinu.   Samkvæmt kortinu eru 56 gígar fyrir norðaustan Laka, og 49 gígar fyrir suðvestan Laka.  Hér eru sýnd smáatriði í byggingu jarðsprungunnar og gígana sýnd og vafalaust hefur þetta verk tekið töluverðan tíma.  Á kortinu koma fram alveg ný atriði í jarðfræði Íslands.  HellandTil dæmis notar hann alþjóðaheitið “palagonit” fyrir móbergsmyndunina.  Í öðru lagi er hann fyrstur til að kenna gossprunguna við móbergsfjallið Laka, en það heiti hefur fylgt gosinu ætíð síðan.  Komið í Eldfjallasafn og sjáið þetta einstæða og merkilega kort af mestu gossprungu jarðar. Helland var sérstakur persónuleiki og skopmyndin sem fylgir gefur nokkra hugmynd um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér pistlana en þú mátt vera viss um það að næst þegar ég á ferð um Snæfellsnesið, mun ég skoða eldfjallasafnið.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 21:19

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll, þetta er með bestu og áhugaverðustu bloggum á Íslandi.

Því miður er ekki nýtt fyrir mig að sjá hvernig SÞ vitnaði rangt í. En það má ekki segja. Viðurlögin eru hörð.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 30.5.2010 kl. 15:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband