Gosmökkurinn
20.4.2010 | 18:13
Myndin til hliðar er tekin af Jóhanni Ísberg, en hún sýnir dæmigerðan gosmökk yfir toppgíg Eyjafjallajökuls. Það er margt að gerast í mökknum og mikil litbrigði. Breytingarnar í útliti gosmökksins orsakast einkum af breytingum á hita, magni af ösku, og gufu og magni af andrúmslofti sem dregst inn í eða blandast í mökkinn. Við skulum líta á þessi atriði og byrja söguna þegar sprenging verður og aska eða gjóska þeytist fyrst upp úr gígnum. Önnur mynd sýnir þessi fyrstu augnablik, þegar gjóskan rís mjög hratt upp fyrir gígbrúnina og þá er gosmökkurinn mjög dökkur, annað hvort dökkgrár eða næstum svartur á lit. Gígurinn er beint undir mökknum lengst til vinstri á myndinni. Takið eftir að lengra til hægri er mökkurinn farinn að verða ljósari á lit, fyrst dökkbrúnn og síðan enn ljósari. Hér er það hiti í mökknum og hegðun vatnsgufu sem ræður litnum. Af hverju er mökkurinn svo dökkur í fyrstu? Fyrst er mökkurinn mjög heitur og allt vatn í mökknum er í gas formi, eða yfirhitað (superheated). Þið kannist við þetta fyrirbæri þegar ketillinn sýður á eldavélinni. Þá kemur gufustrókur út úr stútnum á katlinum, en fyrstu sentimetrana fyrir ofan stútinn sést gufan ekki, eins og myndin sýnir. Fljótlega kólnar og þéttist vatnsgufan og verður sýnileg. Þannig er einnig ástandið fyrst í mökknum fyrir ofan gíginn. Hann er gýfurlega heitur, og allt vatn er í gas formi. Strax og mökkurinn þenst út, þá blandast hann að einhverju leyti við andrúmsloft og kólnun byrjar. Þá þéttist vatnsgasið og gufa verður sjáanleg: mökkurinn byrjar að litast brúnn og ljósbrúnn. Þá fer mökkurinn að færast frá gígnum vegna vindsins. Hér byrjar grófari askan að falla til jarðar, en einnig þéttist gufan í mökknum og myndar annað hvort regn eða ískristalla sem kunna að falla til jarðar sem snjór. Það er því ótrúlega margt sem gerist í mökknum, eins og sjá má af hinum ýmsu litbrigðum hans.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 18:34 | Facebook
Athugasemdir
Sæll
Ég hef verið að fylgjast með skjálftamælum á veðurstofuvefnum út af báðum þessum eldgosum og mig langar að vita hvort það er eðlilegt svona í "venjulegu árferði" að það séu skjálftar frá Reykjanesi um suðurland, upp í gegnum Vatnajökul og norður í land eins og maður er búin að sjá núna síðustu vikurnar?
Guðný (IP-tala skráð) 22.4.2010 kl. 23:48
Sæll Haraldur,
Hvað finnst þér um aukinn virkni samtímis með stórum gufustrókum frá Gígjöklinum núna? Gætir það kannski verið að þar er að opnast nýr gígur undir ísnum eða gossprunga?
Bestu kveðju, Ingeborg
Ingeborg Breitfeld (IP-tala skráð) 2.5.2010 kl. 15:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.