Askan frá toppgíg efnagreind - hún er andesít!

Gosmökkur toppgígHvað er allt þetta svarta efni sem sést í gosmekkinum á myndinni?  Þetta er askan sem hefur verið að falla til jarðar á Mýrdalssandi og í Álftaveri og enn austar.  Níels Óskarsson hefur efnagreint samsetningu öskunnar sem nú gýs úr toppgíg Eyjafjallajökuls.  Efnasamsetning öskunnar sem kom upp 15. apríl  er andesít, sem einkennist af fremur háu innihaldi af kísil, eða um 57,5%.  Hún er því gjörólík kvikunni sem gaus á Fimmvörðuhálsi.  Efnagreinar þær sem Níels hefur gert má sjá hér      Þetta kemur nokkuð á óvart, og er kvikan sem nú gýs hvorki lík þeirri sem gaus árið 1821 eða lík basalt hrauninu sem byrjaði að gjósa í marz 2010 á Fimmvörðuhálsi.  Hins vegar getur hún hugsanlega verið blanda af þeim tveimur kvikugerðum. Þessar niðurstöður breyta öllu. Þessi efnasamsetning s´kírir hvers vegna askan er ekki svört, heldur aðeins brúnleit.  Nú er sennilegt að framleiðsla ösku sé ekki eingöngu vegna gufusprenginga (samspils heitrar kviku og bráðnandi jökuls), heldur geti sprengingarnar verið að hluta eða að mestu leyti vegna gasefna (vatns, koltvíoxíðs ofl.) sem berast upp með kvikunni.   Það kann að vera að þetta sprengigos sé blanda af báðum þessum kröftum: gufusprengingum sem orsakast af spili milli andesít kviku og bráðnandi jökuls, og einnig sprenginga vegna gas innihalds kvikunnar. Þá er ekkert víst að sprengingum linni þegar jökullinn í toppgíg er búinn.  Ef þetta er rétt, þá er þetta gos ef til vill það sem jarðfræðingar kalla phreatoplinian  eða phreatomagmatic gos.  (Eitt einkenni jarðfræðinga er það, að þeir hafa sérstakt nafn fyrir öll hugsanleg fyrirbæri í náttúrinni og hin aðskiljanlegu afbriði þeirra.)   Eitt er klárt:  askan er óvenjulega fíngerð, eins og púður eða duft.   Sem sagt:  sprengingar munu sennilega halda áfram þótt jökullinn í toppgígnum þverri,  og svo lengi sem þessi kvikutegund er fyrir hendi inni í Eyjafjallajökli.  Frekar hefur dregið úr jarðskjálftavirkni undir fjallinu, og óróinn er svipaður eða aðeins minni. Já, þar er rétt að bæta því við fyrir þjóðernissinnana, að andesít með hátt jarn innihald, einso gþessi kvika, er kallað icelandite, eða íslandít!  Hvað segja bretar um það?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Var það ekki þannig gos sem var í Öskju 1875? Og geta svona gos ekki verið hættuleg?

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.4.2010 kl. 19:22

2 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Einmitt. Las í norskum miðlum að þessi aska væri af þeirri gerð sem talin væri stórhættuleg og mjög heilsuspillandi. Sel það svo sem ekki dýrar en ég keypti. Þeim hættir til að nota svolítið mikið af málningu og sterkum litum þarna fyrir austan.

Magnús Þór Hafsteinsson, 16.4.2010 kl. 20:20

3 identicon

Sæll Haraldur.

Á þessum skemmtilegu tímum sem við lifum í dag, það er að segja þessi eldgos og allt sem þeim við kemur.

Mér þótti eftirtektarvert að þegar eldgosið hófst á f-hálsi þá virtust engir mælar greina þá byrjun svo vel væri.

Óróagröf sýndu ekki neina breytingu fyrr en gosið var komið vel á veg.

Óróagröfin sýna frá 0,5 til 4,0 Hz. Er þetta ekki einfaldlega of þröngt tíðnisvið.

Segjum sem svo að það hefðu verið mælar í nágreninu sem hefðu mælt tíðni á sviðinu 10 til 60 Hz. hefðu þeir mælar ekki greint ferð kvikunnar á leið upp í gegnum jarðlöginn, hún hlýtur að hafa gefið frá sér einhver óhljóð og drunur á hærri tíðni á þessari leið en 0,5 til 4 Hz. Ekki satt?

Og ef svo ólíklega hefði viljað til að manneskja hefði staðið á eða nærri þeim stað sem gosið kom upp á hálsinum, hefði þá viðkomandi ekki heyrt lætin undir fótum sér?

Með fyrir fram þökk, og takk fyrir greinargott blogg um gosin og vísindin þar að baki.

Friðbjörn B. (IP-tala skráð) 16.4.2010 kl. 20:21

4 Smámynd: Óskar

Ég hélt að Hekla væri aðalega í Andesíti.  Mér skilst líka að hið ísúra eða súra Dasít sé nokkuð algengt í Eyjafjallajökli. 

En , Magnús Tumi nefndi í gær eða fyrradag að þessi greining skipti máli fyrir hugsanlega lengd gossins, því langar mig að vita Haraldur hvaða skoðun þú hefur á því, eru líkur á lengra gosi heldur en ef um hefðbundið basalt hefði verið að ræða ?  

Óskar, 16.4.2010 kl. 20:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband