Aðdragandi gossins í Eyjafjallajökli
21.3.2010 | 05:55
Þá er gosið komið, en það hófst rétt fyrir miðnætti í gær, 20. marz á Fimmvörðuhálsi. Gosbjarminn kom á vefmyndavélina á Heklu um kl. 23:36. Við skulum aðeins líta á ferlið. Á fimmtudag, 18. marz, benti ég á hér á blogginu að Í dag hafa skjálftar færst hratt nær yfirborði og eru nú á 1 til 4 km dýpi.
Hvað hafði ég fyrir mér í því? Gögn Veðurstofunnar sýndu miklu grynnri skjálfta og samantekt sem var gerð á franskri vefsíðu hér birti línurit varðandi dýpi skjálftanna. Myndin til hliðar er af frönsku vefsíðunni, en þar kemur sveifla upptaka skjálftann uppávið mjög greinilega fram. En takið eftir að dregið hefur úr fjölda skjálfta síðustu dagana. Næsta mynd sýnir sömu skjálftagögn, en er uppfærð á klukkutíma fresti. Takið eftir að hér eru nokkuð margir skjálftar (bláu krossarnir) sem eru grynnara en 2 km. Frakkar eiga heiður skilinn fyri að gera gögnin aðgengilegri.
Þetta er eitt af þeim mörgu gosum sem ekki var opinberlega spáð, en það var gosbjarmi sem vakti fyrst athygli á gosinu, eins og kemur fram í Morgunblaðinu: Veðurstofan segist hafa fengið fréttir af gosbjarma í jöklinum en enginn gosórói kemur fram á mælum og fréttirnar hafa því ekki verið staðfestar enn.
Myndir Landhelgisgæslunnar af gosstöðvunum sýna nokkuð háa gosstróka og hraunrennsli, og virðist það haga sér sem basaltkvika.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 08:35 | Facebook
Athugasemdir
Gott yfirlit hjá þér, Haraldur, og umhugsunarvert að úrvinnsla skjálftagagna skuli hafa verið ítarlegri í Frakklandi en ekki hjá íslenskum jarðskjálfta- og eldfjallafræðingum.
Ómar Bjarki Smárason, 21.3.2010 kl. 12:03
Þetta var alls ekki hugsað sem nein ádeila á íslensku fræðingana sem fjalla um Eyjafjallajökul, heldur bara ábending að það má gera gögnin frá Veðurstofunni aðgengilegri. Reyndar eru öll gögnin birt á vefnum strax og skjálftar verða, í töfluformi, en hætt er við að margir missi af því eða bókstaflega nenni ekki að nota efnið í töflunum til að gera línurit eins og þau, sem frakkarnir gera og uppfæra á klukkutíma fresti.
Haraldur Sigurðsson, 21.3.2010 kl. 13:01
Þau taka þetta líklega saman á Veðurstofunni jafnóðum þó það komi ekki fyrir augu almennings. Líklega rétt hjá þeim að setja upp svona yfirlitslínurit um þróun mála þannig að auðveldara sé fyrir alla að sjá hvað í raun er að gerast. Svona "túristagos" er góð æfing fyrir alvöruna ef og þegar stærri viðburður verður.
Væntanlega eru leiðnimælar í ám sem renna frá Eyjafjallajökli eða þar sem búist er við að hlaupvatn geti farið fram. Því ætti að vera hægt að létta af hættustigi fljótlega þannig að fólk komist heim að sinna bústörfum, þó auðvitað þurfi að vera vel á verði þar sem hættan er talin mest. Og líklegt er að fólk muni búa við yfirvofandi hættuástand næstu vikur, mánuði og hugsanlega a.m.k. eitt til tvö ár. Því er nauðsynlegt að koma tryggja að líf fólks á svæðinu geti verið sem bærilegast á meðan slíkt ástand varir. En vonandi gengur þetta yfir á næstu vikum þannig að hraunið og eldstöðvarnar verði aðgengilegar fyrir ferðamannatímann, sem viðbúið er að muni lengjast vel í báða enda.
Ómar Bjarki Smárason, 21.3.2010 kl. 14:24
Skjálftar kl: 16:45, 17:23, 18;24, 19:11:50&52 og 22:06 allir yfir 2 og allir á svipuðu dýpi sögðu mér að eitthvað væri í vændum.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.3.2010 kl. 17:20
Flaug yfir eldstöðvarnar í kvöld. Stórkostleg sjón, og 150 m háir gjóskustrókar, en hraunið fer að nálgast hálfan ferkílómeter að flatarmáli. Mun fara á Fimmvörðuháls í fyrramálið landleiðina og segi alla söguna þegar ég kem aftur til baka.
Kveðja
Haraldur
Haraldur Sigurðsson, 21.3.2010 kl. 23:29
Er ekki frá því að þá verði farið að gjósa vestar ef ekki uppá toppi.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 21.3.2010 kl. 23:35
Farðu varlega, Haraldur. Vonandi verða Frakkarnir komnir með skemmtilega grafík af þessum atburði á morgun, flott þversnið og fleira sem sýnir þróun mála.....
Ég reikna reyndar með að fara austur fyrir fjall á morgun, en til að sinna vinnu en ekki að leika mér að skoða eldgos!
Góða ferð.
Ómar Bjarki Smárason, 22.3.2010 kl. 00:56
Þakka þér fyrir mjög fróðlegar og athyglisverðar greinar Haraldur, það er gaman að lesa þetta hjá þér!
Jóhanna Pálmadóttir, 23.3.2010 kl. 07:16
Ég er búinn að heyra mikið lof um jarðfræðifræðsluferðina sem þú varst með á Snefellsnesinu í fyrrasumar í tengslum við Eldfjallasafnið í Stykkishólmi. Við erum 30 manna hópur sem höfum áhuga á að fara með þér í júlí ef þú verður með þessa leiðsögn í sumar.
Frábærir pistlar hjá þér hérna, takk fyrir.
Símon
Símon Sturluson (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 07:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.