Stefnir í meira Auðræði í Bandaríkjunum
24.1.2010 | 20:49
Velferð heimsins hefur sveiflast, eins og skott á hundi, í takt við gang mála í Bandaríkjunum alla tíð síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk. Inngrip ameríkana inní seinni heimsstyrjöldina var auðvitað mjög jákvætt, en síðan hafa þeir gert langa röð af mistökum sem eru tengd áráttu Bandaríkjanna að líta á sig sem lögreglu heimsins, í Víet Nam, Írak og nú í Afganistan. Hvort sem okkur líkar það betur eða ver, þá skiftir það okkur miklu máli hvernig stjórnmál og stefnur þróast í Bandaríkjunum. Hvert stefnir með amerísk stjórnmál í framtíðinni? Stóra málið, sem kann að marka stefnuna jafnvel í áratugi, er tengt dómi hæstaréttar nú í vikunni. Samkvæmt þessum dómsúrskurði geta stórfyrirtæki, félagasamtök og verkalýðsfélög nú veitt ótakmarkað fé til frambjóðenda og stjórnmálaflokka. Hæstiréttur lítur á þetta sem sjálfsagðan þátt í málfrelsi. Lengi hefur þingið reynt að halda fjárframlögum til stjórnmálaflokka og frambjóðenda í skefjum, og síðast þegar þingmennirnir McCain og Feingold komu í gegn lögum árið 2002 um fjármagn varðandi kosningar. Það voru samtökin Citizens United sem stóðu í framlínu og sóttu á hæstarétt til að fá þessari kosningalöggjöf breytt nú. Hvað er Citizens United? Það er íhaldssöm stofnun, sem hefur til þessa haft tvö höfuð markmið: að koma Bandaríkjunum út úr Sameinuðu Þjóðunum, og að halda Clinton hjónunum út úr stjórnmálum. Frægt er þegar Citizens United gaf út kvikmyndina Hillary: The Movie, sem var mjög hörð ádeila á Hillary Clinton og er talið að myndin hafi haft töluverð áhrif á gang mála í síðustu forsetakosningum. Héðan í frá eru því engin takmörk á því fé sem fyrirtæki og félög geta veitt til frambjóðenda, eða til að kosta árásir á aðra frambjóðendur með áróðri sínum, og héðan í frá munu frambjóðendur fyrst og fremst leita til stórfyrirtækja, til að tryggja fjárhag framboðs síns, áður en þeir byrja að safna atkvæðum.Menn óttast nú aukið auðræði og mútur. Já, ekki má gleyma því að dómarar í fylkjum eru kosnir í Bandaríkjunum, sem veldur enn meiri spillingu. Hæstiréttur var algjörlega klofinn í dómsúrksurðinum, 5 á móti 4, og sigur hægri manna er beinlínis arfleifð Bush fyrrum forseta, en honum tókst að koma inn nokkrum mjög íhaldssömum dómurum inn á hæstarétt landsins I sinni valdatíð. Aðal skilaboðin sem koma út úr þessu máli eru þau, að nú er hæstiréttur Bandaríkjanna orðinn jafn pólitískur og þingið. Reyndar varð það ástand orðið ljóst í kosningabaráttunni miklu árið 2000, þegar hæstiréttur valdi með George Bush á móti Al Gore. Ekkert hefur breyttst síðan þingmaðurinn Mark Hanna sagði: Það er tvennt sem skiftir öllu máli í pólitík: Það fyrsta eru peningar, en ég man nú ekki hvað hitt er.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:50 | Facebook
Athugasemdir
Haraldur - við erum með fjármálaráðherra sem hugsar svipað, nema hvað hann er fyllilega meðvitaður hvað hitt er; nefnilega SKATTAR.....!!!!
Ómar Bjarki Smárason, 25.1.2010 kl. 00:25
Steingrímur tók við djobbinu af fjármálaráðherra sem mundi hvað hitt er og sameinaði þetta tvennt í einni og sömu setningunni:
"Það er tvennt sem skiptir máli í pólitík: Það fyrsta eru peningar sem þú krækir þér í frá öðrum og það næsta er að sleppa við að borga af þeim skatt."
Árni Gunnarsson, 30.1.2010 kl. 20:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.