Hvað er Raunverulega að Gerast á Haiti?

KaríbaflekinnOkkur hafa borist hörmulegar fréttir frá Haítí í kjölfar jarðskjálftans mikla sem skók eynna Hispaníólu hinn 12. janúar. Ég dvaldi síðast á Haíti í ágúst 1991, er ég starfaði að rannsóknum varðandi loftsteinsárekstur sem varð fyrir 65 miljón árum. Þá var eymdin mikil á þessari sorglegu eyju og sennilega er hún enn verri í dag. Jarðskjálftar eru tíðir í Haíti en enginn þessu líkt. Skjálftinn var 7.3 á Richter skala, og á aðeins um 10 km dýpi rétt undir höfuðborginni Port-au-Prince. Þúsundir hafa farist, höll forsetans og margar aðalbyggingar höfuðborgarinnar eru nú rústir einar. En hvað ligur á bak við þennan atburð? Málið er reyndar mjög einfalt, ef við fylgjumst með flekahreyfingunum. Til að skilja það þurfum við að líta náið á flekahreyfingar í Karíbahafi.  Í dagEins og myndin fyrir ofan sýnir, þá koma margir flekar saman hér í grennd við Haíti. Fyrst ber að nefna Karíbaflekann, en hann er reyndar einn af minni flekum á jörðu. Því miður er hann fremur illa staðsettur, og Karíbaflekinn hagar sér eins og sleipur sveskjusteinn á milli fingranna, sem er kreistur saman af hreyfingum Norður Ameríkuflekans fyrir norðan og Suður Ameríkuflekans fyrir sunnan. Afleiðingin er sú, að Karíbaflekinn færist til austurs á um 2,5 sm hraða á ári. Fyrir norðan eynna Hispaníóla (Haíti myndar vestur hluta eyjarinnar) er risastórt misgengi á hafsbotni, sem nefnist Cayman Trough. Þetta er sniðgengi, þar sem jarðskorpan norðan við færist til vesturs, en Karíbaflekinn sunnan við Cayman Trough færist til austurs. Haíti og KúbaEinu sinni (fyrir 60 miljón árum) myndaði Haíti suður endann á Kúbu, eins og myndin til vinstri sýnir. Hreyfingin á Cayman Trough sniðgenginu hefur fært síðan Haíti langt til austurs, miðað við Kúbu. Málið er enn flóknara þar sem rétt sunnan við sniðgengið er míkrófleki (Gonave flekinn), eins og sýnt er á næstu mynd fyrir neðan. Suður mörkin á Gonave flekanum er sniðgengi sem nefnist Enriquillo-Plaintain Garden misgengið, en það hefur verið virkt öðru hvoru, árin 1860, 1770, 1761, 1751, 1684, 1673 og 1618.  Gonave míkróflekinnNú brýst það fram aftur fram, eftir 150 ára hlé, með þessum afleiðingum. Haíti á merka sögu, sem ekki verður rakin hér, en ég vil bara minnast þess að lokum að árið 1804 stofnaði blökkumaðurinn Jean-Jacques Dessalines fyrsta ríki svertingja í Ameríku, er hann frelsaði Haíti og tók völdin af nýlendustjórum Napóleons hins franska.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er það satt að þessi skjálfti hafi verið 30 sinnum öflugri en sá sem reið yfir hveragerði/selfoss 29 may 2008 ?

jonas (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 20:34

2 identicon

Skjálftinn í grennd við Hveragerði árið 2008 er talinn vera af stærðargráðunni 6,3, en skja´ftinn í Haíti er einhvers staðar á bilinu 7,0 til 7,3 á Richter. Þar sem Richter skalinn er log skali, þá er munurinn auðvitað gífurlegur á þessum skjálftum, og er því Haíti skjálftinn um tíu sinnum stærri.

Haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 00:06

3 identicon

Þótt að skjálftinn sem slíkur á Richter skalanum er tíu sinnum stærri eins og þú segir, enda í logarithmískur skali, þá hefði ég haldið að orkan sem leysist úr læðingi sé 31.6 sinnum stærri. Sé tekið með í reikningin áhrif "shaking amplitude"  (útslag af völdum hristings, ekki alveg viss á þýðingunni). Þar sem logariðmíski richter skalinn er settur í veldið (3/2).

(106.3)(3 / 2)) Suðurlandskjálftinn 2008.

(107.3)(3 / 2)) Hait 2010. 

Annars takk fyrir fræðandi og skemmtilega pistla. 

Nonni (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 13:20

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nú er styrkur eða stærð jarðskjálfta oft gefin í nýjum skala, sem er nefndur Moment Magnitude skali eða Mw. Hann er betri mælikvarði fyrir stærri skjálfta og dálítið frábrugðinn Richter skala. USGS, bandariska jarðvísindastofnunin, notar til dæmis þennan Mw skala. Það er alveg rétt hjá Nonna að þótt stærð skjálftans á Richter fylgi log skala, þá er skalinn fyrir orku sem leysist úr læðingi allt annar. Ef skjálfti er einni einingu hærri á MW skala, þá er það aukning í orku sem nemur 10e1.5 = 31.6 meira en orka í skjálfta sem er einu stigi lægri á Mw skala.

Haraldur Sigurðsson, 14.1.2010 kl. 17:37

5 identicon

Takk fyrir góða grein


Fyrir þá sem vilja fylgjast með jarðskjálftum þá bendi ég á Equake ALert Extension i Firefox. Þar er hægt að fylgjast með jarðskjálftum nánast í rauntíma
Tools addons - .Get addons -Search -Eaquake.

Equake alert sýnir nýjustu jarðskjálfta , Hristir browserinn þegar það er skjálfti - velur jarðskjálfta - ferð á síða hjá USGS - þar er linkur fyrir google earth staðsetningu sem og upplýsingar um skjálftann - tilkynningar frá þeim sem finna fyrir honum etc... Virðist reyndar ekki sýna minni skjálfta á íslandi , þá er að finna á veðurstofu íslands.

Einnig er hægt að nota google Earth - Add content = Real time earthquakes.

Bara svona að benda á það fyrir áhugasama.

aRNAR hELGI (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 19:15

6 identicon

Arnar:

Takk fyrir mjög góða ábendingu. En hafið þið með Mac tölvur notfært ykkur að það er hægt að nota tölvuna ykkar sem jarðskjálftamæli? Leitið á Google að SeisMac og halið niður, og þá ertu kominn með þriggja ása skjálftamælir. Reyndar er næmi ekki sem best, en frábært kennslutæki og gott leikfang fyrir b örn á öllum aldri. Nú, ef þið eruð með PC í staðinn fyrir Mac, þá gét ég yfirleitt ekkert hjálpað ykkur...

Haraldur

haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband