Kircher Gerir Fyrsta Þversnið af Jörðu

Vesúvíus 1638Í Eldfjallasafni i Stykkishólmi eru tvær merkar eirstungur frá árinu 1638. Önnur er af Vesúvíusi gjósandi og hin gosmyndin er af Etnu á Sikiley. Báðar myndirnar eru úr verkinu Mundus Subterraneus eða Undirveröld, sem gefið var út árið 1664 af fræðimanninum og Jesúítanum Athanasius Kircher. Hann hefur verið kallaður síðasti maðurinn sem vissi allt. Hann var sem sagt alfræðingur, líkt og Pliný Eldri á dögum rómverja. En það var auðveldara að vita allt á sautjándu öld, þegar umfang og heimur þekkingarinnar var mun minni en nú. Kircher (1601-1680) var fæddur í Þýskalandi. Etna 1638Hann starfaði í Páfagarði í Róm frá 1633, og var einn helsti vísindamaður eða fræðimaður kaþólsku kirkjunnar, og eiginlega svar kirkjunnar við Galíleó, sem lést skömmu áður en Kircher kemur til Ítalíu. Kircher var einstaklega forvitinn og snéri sér að mörgu. Hann er til dæmis sá fyrsti sem gerði tilraun til að lesa úr táknletri fornegypta. Safn hans af fornmunum og minjum úr náttúrunni varð risavaxið og hann setti upp fræga Kircherianum safnið í Róm.Áhugi Kirchers á eldfjöllum er tengdur eldgosum á Ítalíu um þetta leyti. Árið 1631 gaus Vesúvíus sínu stærsta gosi síðan 79 eKr. Gjóskuflóð frá fjallinu eyddu byggð, og um fjögur þúsund manns fórust. Eyðileggingin náði rétt að útveggjum Napólíborgar og gosið vakti mikla athygli. Um svpað leyti var Etna á Sikiley virk, en hún gaus árin 1633, 1634 og 1638. Kircher lagði upp í ferð til eyjarinnar Möltu í erindi páfans, og notaði tækifærið að kanna Vesúvíus og Etnu. Þegar hann kom til Napólí þá gekk hann strax á Vesúvíus, og lét sig síga í kaðli niður í gíginn, sem þótti mikið afrek. Hann beitti uppfyndingu sinni, pantometer, eða fjarlægðarmæli, til að mæla fjallið og gíginn.Bók Kirchers, Mundus Subterraneum, er einstök fyrir að hér kemur fram fyrsti þverskurður af allri jörðinni. Hvílík dirfska, að leyfa sér slíkt! Myndin er sýnd hér fyrir neðan, en hún ber heitið Pyrophylaciorum. Kircher heldur því fram að það sé mikill forði af hita í miðri jörðinni, sem hann sýnir sem logandi bál í kjarna jarðar. PyrophylaciorumFrá því stafa nokkrar greinar af eldi upp til yfirborðsins. Hann áleit að eldfjöllin væru mynduð til að hleypa hitanum út og upp á yfirborð, en einnig til að draga inn loft sem héldi eldinum gangandi. Eldsneytið var brennisteinn, sölt, tjara og önnur eldfim jarðefni, en þeta var kenning sem má rekja allar götur til Seneku um 65 fyrir Krist. Kircher dró upp aðra mynd sem sýndi þverskurð af jörðu og fjallaði um ferli vatnsins innan jarðar: Systema ideale quo exprimitur aquarium. Kerfin sem þessi tvö þversnið sýna var skýring hans á hringrás vatnsins, þar sem hitinn er sú orka sem hreyfir vatnsstrauminn innan jarðar. Hann er eiginlega búinn að skapa risavaxið eimingartæki eða alembic úr allri jörðinni. Það er rétt að minna á að Kircher var alkemisti, og hefur fengist mikið við efnatilraunir, en þar er eimingartækið auðvitað í fremstu röð tækja. Kircher er sennilega frægasti Jésúitinn sem hefur verið uppi, en margir úr þeirri reglu stunduðu vísindi. Af einhverjum ástæðum, ef til vill vegna áhrifa frá Kircher, hafa Jesúítar lengi stundað jarðeðlisfræði og jarðskjálftafræði, og í dag eru 54 jarðskjálftstöðvar þeirra reknar út um allan heim. Að lokum: Kircher er aðal söguhetjan í skáldsögunni Eyjan frá í Gær (The Island of the Day Before), eftir ítalska rithöfundinn Umberto Eco.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband