Hvernig Grindavík færist til
19.11.2023 | 14:46
Ég hef fjallað hér fyrir ofan um mikilvægi þess að hafa aðgang að GPS gögnum til að kanna flekahreyfingar sem nú ganga yfir. Einfaldast er að fara inn á vefsíðuna https://vafri.is/quake/ til þessa verks.
Það er ef til vill eðlilegt að maður snúi sér fyrst að GPS mælinum GRIC, sem er staðsettur rétt fyrir norðan Grindavík. Hann sýnir að skorpan undir mælinum færðist í fyrstu hægt til suðausturs um 5 cm frá 27. október til 7. nóvember, en rykkist þá til vest-norðvesturs um 30 cm og dettur niður um 120 cm. Mælirinn virðist staðsettur niðri í miðjum sigdalnum sem liggur til suðvesturs í gegnum bæinn og til sjávar. Þar sem Grindavíkurmælirinn er staðsettur niðri í miðri sprungunni, þá gefur hann takmarkaðar upplýsingar um um flekahreyfingar og stóru myndina. Undir þessum mæli er allt berg brotið og sjálfsagt nokkur lítil flekabrot, sem nú mjakast til í ýmsar áttir. GRIC mælirinn gefur okkur því ekki mikla innsýn inn í stóru flekahreyfingarnar sem nú geysa yfir, þar sem mælirinn er niðri í sprungunni sjálfri.
Þegar þetta er ritað virðist vera komin nokkur rólegheit í jarðskorpunni undir mælistöðini GRIC í Grindavík. Sigið hefur að mestu stöðvast, og einnig hefur rekið til vesturs stoppað. En stöðin heldur áfram að reka til suðurs um 2 cm á dag. Myndin sýnir lóðréttu hreyfinguna sem mælst hefur til þessa.
Þetta er mín fyrsta færsla um niðurstöður GPS mælinga á Reykjanesi. Ég mun fjalla um niðurstöður GPS mælinga annars staðar á Nesinu á næstu dögum og varpa ljósi á spennandi ferðir Ameríkuflekans samkvæmt GPS mælingum á norður og vestur hluta Reykjaness.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Náði gossprungan frá Eldvörpum suður til sjávar á Miðöldum?
19.11.2023 | 12:12
Þeir sem hafa áhuga á jarðfræði Reykjaness ættu endilega að lesa stuttan pistil ISOR um Reykjaneselda, sem var eldvirkni í gígaröðinni Eldvörpum í kringum 1210 til 1240 e.Kr. og fróðleik um basalt hraun sem þá rann til sjávar til suðurs af Reykjanesi. https://en.isor.is/historical-submarine-eruptions-off-reykjanes/
Hraunið er talið hafa runnið um 2.7 km leið neðan sjávar, og ef til vill náði sjálf kvikusprungan eða gangurinn frá Eldvörpum alla leið til sjávar. Glæsilegt jarðfræðikort fylgir greininni og einnig eru hér myndir af hafsbotninum rétt sunnan Reykjaness, sem minna okkur á þann fjársjóð af upplýsingum um jarðfræði sem ISOR býr yfir. Myndin sem hér fylgir sýnir hraunið á hafsbotninum frá Eldvörpum.
Hvað kólnar kvikugangurinn hratt?
19.11.2023 | 01:40
Allar líkur eru á því að basalt hraunkvika, um 1250 oC heit, hafi risið upp í jarðskorpusprunguna sem liggur til norðaustur frá Grindavík. Kvikan hefur nú staðnað á um 1 km dýpi og miklar bollaleggingar eru um framhaldið. Þá hefur hafist kapphlaup um tíma í náttúrunni, af því að þegar kvikan staðnar, þá byrjar hún að gefa frá sér hita út í kalda bergveggi umhverfis og þegar það gerist, þá byrjar kvikugangurinn að storkna og breytast í fast berg, sem auðvitað ekki gýs upp á yfirborð. Þar með er goshættan útþurrkuð í þessum gangi - um tíma.
Við vitum ekki hvað kvikugangurinn er breiður, en það er sú vídd sem ræður kólnunarhraðanum. Hitt vitum við, að þegar kvika er komin undir 800 til 900 oC þá er hún orðin alltof seig og köld til að gjósa.
Það eru til ágæt reiknilíkön af kólnun kviku í gangi, en ég ætla að taka aðeins tvö dæmi. Fyrra dæmið er fyrir 10 metra breiðan gang, sem er risastórt stykki, og stærri en ég hef séð á öllum mínum 50 ára ferli. Líkanið sýnir að risagangur sem er 10 metra breiður getur haldist heitur í nokkra mánuði, en það á við um miðju eða innri hluta gangsins. Ytri hlutinn myndar storknaða skorpu.
Seinna dæmið (litmyndin) er líkan sem er reiknað fyrir 1 m breiðan og 1 km langan basaltgang, sem er albráðinn og byrjar með 1250 oC hita. Líkanið sýnir að hann er nær alveg storknaður efti þrjá daga. Mér þykir það líklegt að þetta dæmi eigi nokkuð vel við í tilfellinu með Grindavíkurganginn, en ef til vill er hægt að áætla betur hver þykkt hans er, út frá GPS gögnum. Alla vega sýnist mér að þessi gangur muni storkna á nokkum dögum, innan við viku, og þar með er goshættan úr söguni í bili.