Hvað kólnar kvikugangurinn hratt?

Allar líkur eru á því að basalt hraunkvika, um 1250 oC heit, hafi risið upp í  jarðskorpusprunguna sem liggur til norðaustur frá Grindavík.  Kvikan hefur nú staðnað á um 1 km dýpi og miklar bollaleggingar eru um framhaldið.  Þá hefur hafist kapphlaup um tíma í náttúrunni, af því að þegar kvikan staðnar, þá byrjar hún að gefa frá sér hita út í kalda bergveggi umhverfis og þegar það gerist, þá byrjar kvikugangurinn að storkna og breytast í fast berg, sem  auðvitað ekki gýs upp á yfirborð.  Þar með er goshættan útþurrkuð í þessum gangi -  um tíma. 

 

Við vitum ekki hvað kvikugangurinn er breiður, en það er sú vídd sem ræður kólnunarhraðanum. Hitt vitum við, að þegar kvika er komin undir 800 til 900 oC þá er hún orðin alltof seig og köld til að gjósa.  

Það eru til ágæt reiknilíkön af kólnun kviku í gangi, en ég ætla að taka aðeins tvö dæmi.  Fyrra dæmið er fyrir 10 metra breiðan gang, sem er risastórt stykki, og stærri en ég hef séð á öllum mínum 50 ára ferli. Líkanið sýnir að risagangur sem er 10 metra breiður getur haldist heitur í nokkra mánuði, en það á við um miðju eða innri hluta gangsins. Ytri hlutinn myndar storknaða skorpu. cooling dike

Seinna dæmið (litmyndin) er líkan sem er reiknað fyrir 1 m breiðan og 1 km langan basaltgang, sem er albráðinn og  byrjar með 1250 oC hita.  Líkanið sýnir að hann er nær alveg storknaður efti þrjá daga.  Mér þykir það líklegt að þetta dæmi eigi nokkuð vel við í tilfellinu með Grindavíkurganginn, en ef til vill er hægt að áætla betur hver þykkt hans er, út frá GPS gögnum. Alla vega sýnist mér að þessi gangur muni storkna á nokkum dögum, innan við viku, og þar með er goshættan úr söguni  — í bili. cooling dike 2

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband