Hvernig leit Ísland út á Ísöldinni?

Ísland á ÍsöldÁrið 2007 töldu Van Vliet-Lanoë og félagar að jökulþekjan hefði verið nokkuð takmörkuð yfir Íslandi þegar Ísöld stóð sem hæst. Líkan þeirra er sýnt sem svörtu svæðin á myndinni.  Ísskjöldurinn er yfir miðju landinu, annar skjöldur á Vestfjörðum og svo smærri jöklar í fjöllum á Snæfellsnesi.  Takið eftir að gráa línan markar landgrunnið í dag, eða 200 metra dýpið.   Árið 2006 lögðu þeir Hubbard og félagar til að jökulþekjan hefði verið miklu utar á landgrunninu, og þeirra Ísaldarjökull er afmarkaður af púnktalínunni á myndinni.  Þetta líkan fyrir útbreiðslu jökulsins verður að telja miklu líklegra, ef dæma skal út frá dreifingu jökulgarða eða mórena á hafsbotni. Það eru þrír jökulgarðar sýndir á myndinni, merktir með feitri svartri línu.  Einn er nokkuð langt undan Breiðafirði, annar út af Húnaflóa og sá þriðji undan Suðurlandi.  Jökulgarðar myndast þar sem skriðjökullinn nemur staðar. Samkvæmt þessu virðist Ísaldarjökullinn hafa náð yfir nær allt landgrunnið.   Olex kort

Nýlega birti norska fyrirtækið Olex ný kort af hafsbotninum, sem má nálgast hér: http://www.olex.no/dybdekart_e.html#isofiler  Kortin eru sérstök og mjög nákvæm, en þau eru byggð að miklu leiti á gögnum sem togarar og aðrir fiskibátar senda inn til Olex.  Næmi kortanna er um 5x5 metrar, sem þýðir að stór rúta eða vörubíll myndi sjást á hafsbotninum á slíku korti.  Íslandskortið frá Olex er sýnt hér til hliðar. Hér koma fjölmörg fyrirbæri fram á hafsbotninum, sem við höfðum ekki hugmynd um áður, og þar á meðal margir jökulgarðar sem sýna fyrri stöðu stóra jökulsins yfir Íslandi á Ísöldinni.  Þessi nýju gögn styrkja mjög þá mynd af Íslandi sem ser sýnd af púnktalínunni í fyrri myndinni hér fyrir ofan.  Ískjöldurinn var svo stór að hann náði út á ystu mörk landgrunnsins víðast hvar. En takið eftir að á Ísöldinni var sjávarstaða miklu lægri en hún er í dag og landgrunnið var því um 100 metrum grynnra en í dag, vegna þess að mikið af vatnsforða hafsins var  geymt í jöklum heimsskautanna.


Kirkjufell og Aldur Grundarfjarðar

1.SigHolmKirkjufell er fjall eitt í Grundarfirði á Snæfellsnesi, 463 m á hæð. Það stendur eistakt í landslaginu og er einnig einstakt fyrir fagurt form sitt, eins og myndin eftir Sig Holm sýnir.  Einnig er jarðfræði þess merkileg.  Talið er að landnámsmenn hafi nefnt fjallið Firðafjall og væri réttast að taka það forna nafn upp aftur.  Þetta er einmit fjallið milli fjarða.  Fyrrum nýlenduherrar vorir, Danir, kölluðu fjallið því lágkúrulega nafni Sukkertoppen, en á þeim tíma var sykur fluttur til landsins í stórum stykkjum sem voru eins og spírur í laginu.   Yfirleitt er Kirkjufell klifið upp suður hlíðina, enda minnstur brattinn hér.  

Talið er að jarðfræðingurinn Helgi Pjéturss hafi klifið Kirkjufell árið 1906, en er upp kom réðst á hann grimmur örn, enda er suður toppur fjallsins nefndur Arnarþúfa.   Ég kleif Kirkjufell sumarið 1967 ásamt Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi og tveimur bandarískum jarðfræðingum.  Ferðin er mér mjög eftirminnileg en ekki hef ég hug á að endurtaka hana nú.  Verst þótti mér að klífa upp rennandi blautar og sleipar torfur af grasi og mold,  þar sem fótfesta var lítil, og hengiflug fyrir neðan.  Ekki veit ég fjöldann af dauðsföllum í Kirkjufelli, en alltaf öðru kvoru koma fréttir af mönnum sem hrapa þar niður og bíða ávallt bana.   2.KirkjufellNýlega rakst ég á gamla frétt í Morgunblaðinu frá 21. júní 1945.  “Frá fréttaritara vorum,  Stykkishólmi, miðvikudag:  Það hörmulega slys vildi til í Grundarfirði í fyrra dag, að ungur maður hrapaði í Kirkjufelli og beið bana af.   Maður þessi var Ragnar  Steinþórsson, Bjarnareyjum,  Breiðafirði, 20 ára gamall.  Hann hafði gengið með félaga sínum sér til skemmtunar  upp á Kirkjufell og mun hafa farið svo tæpt á fjallið, að  hann hrapaði. Félagi hans gerði þegar aðvart á næstu bæjum, ennfremur var lækni gert aðvart. Þegar komið var að Ragnari var hann enn með lífsmarki,  en er læknirinn kom var hann  örendur.”  

Jarðlögin sem eru í miðju Kirkjufelli innihalda mikilvægar upplýsingar um jarðfræði á norður hluta Snæfellsnes á jökultíma og þróun í hafninu þar sem nú er Breiðafjörður.  Skammt fyrir norðvestan Kirkjufell er fjallið Stöð, en ég hef áður fjallað um jarðlögin í því fjalli hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1060932/   Einnig bloggaði ég um Búlandshöfða hér: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1021036/.  Jarðmyndanir í þessum þremur fjöllum eru náskyldar, eins og Helgi Pjéturss benti fyrst á.    Guðmundur G. Bárðarson (1880-1933) menntaskólakennari hélt áfram rannsóknum á norðanverðu Snæfellsnesi árið 1922 og birti grein um þær árið 1929.  Hann benti á að í 140 til 160 metra hæð í fjallinu er lag af völubergi og lagskiftum sandsteini, sem hann taldi skylt setlögum af völubergi og sandsteini í 160 metra hæð í Mýrarhyrnu fyrir sunnan Kirkjufell, í Hyrnudal, og lagi sem er í 130 til 150 metra hæð í Skerðingsstaðafjalli, þar sem hann fann sjávarskeljar af ýmsum tegundum (Saxicava rugosa , Scalaria grønlandica, Balanus).  Hann rakti setlagið enn vestar, í Höfðakotsgil í 150 til 165 metra hæð, en þar er það lagskiftur leirsteinn, sandsteinn og völuberg með sjávarskeljum (Saxicava rugosa).  Enn vestar, rétt áður en leið liggur fyrir Búlandshöfða, fann Guðmundur leirsteins- og völubergslagið með ýmsar sjávarskeljar í 150 til 160 metra hæð (Cardium ciliatum, Astarte borealis, Astarte elliptica, Astarte Banksii, Saxicava  rugosa, Acmæa, Scalaria grønlandica).   Hann áleit þetta lag halda áfram til vesturs í Búlandshöfða.  

Skipan jarðlaga í Kirkjufelli er sýnd í stórum dráttum í annari mynd, sem er af  fróðlegu upplýsingaskilti við þjóðveginn skammt fyrir vestan kaupstaðinn Grundarfjörð.  Neðsta jarðmyndunin er merkt Tertíer hraun og er sýnd dökkblá á myndinni, upp undir um 130 metra hæð.  Þessi fornu hraunlög eru sennilega um 5 til 10 milljón ára að aldri, og tilheyra þeirri fornu blágrýtismyndun sem skapar sökkul Snæfellsness.  Eins og myndin sýnir, þá koma setlög (sýnd græn) ofan á blágrýtismyndunina í um 130 metra hæð og náupp í um 160 metra hæð.  Þetta eru setlögin sem Guðmundur Bárðarson fjallaði um. Hann fann ekki steingervinga eða skeljar í þessum lögum, en ég hef heyrt um að minnsta kosti einn hrúðurkarl sem fundist hefur í því.  Þess vegna er nokkuð víst að þessi setmyndun varð til í sjó eða rétt við sjávarmál. 

En hvað með aldur á setlaginu í Kirkjufelli?  Ameríkanarnir tveir sem ég kleif Kirkjufell með árið 1967, Richard Doell og David Hopkins, voru sérfræðingar í að ákvarða segulsvið jarðar á ýmsum tímum, og greina aldur bergs.  Þeir sýndu fram á að öll jarðlögin fyrir ofan setið í 160 metra hæð eru öfugt segulmögnuð.  Það er að segja: segulstefna þeirra stefnir í þveröfuga átt miðað við núvernadi segulsvið jarðar.  Þetta er sýnt með litlum hvítum hringjum við hlíð jarðlaganna á myndinni fyrir ofan.  Nú er vitað að segulsvið jarðar snérist við fyrir um 700 þúsund árum.  Öll efri jarðlögin í Kirkjufelli eru því eldri en um 700 þúsund ár. 

Efst á Kirkjufelli er um 50 metra þykkt lag af móbergi, sem hefur gosið þegar þykkur ísaldarjökull lá yfir öllu landinu og Breiðafirði.   Þegar ég rakst á móbergið árið 1967 þá vakti það furðu mína hvað það var líkt móberginu sem myndar kolinn á fjallinu Klakki (380 m) austan við Grundarfjörð. Það kom reyndar í ljós að þetta er sama móbergslagið, en upptök þess eru í sívölum gígtappa sem ber nafnið Steinahlíðarhaus, sunnan til í Eyrarfjalli.  Fyrir um einni milljón árum var samfellt landsvæði milli Kirkjufells og Klakks, þegar móbergslagið breiddist út við gos undir jökli. Skömmu síðar rifu skriðjöklar lagið niður og skáru út Grundarfjörð og núverandi landslag umhverfis Kirkjufell.Þegar fjörðurinn var fullmyndaður varð nokkuð stæort eldgos í fjallgarðinum fyrir sunnan Grundafjörð.  Mikið grágrýtishraun rann til norðurs og finnast leifar þess nú í Melrakkaey og í Krossnesi. Sennilega var þetta gos á síðasta hlýskeiði, fyrir um eitt hundrað þúsund árum, en þá var Grundarfjörður fullmyndaður.


Bloggfærslur 5. apríl 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband