Færsluflokkur: Mars
Loftsteinar til sölu!
1.5.2017 | 13:10
Loftsteinar berast til jarðar öðru hvoru, en eru mjög sjaldgæfir og dýrmætir hlutir. Þeir veita okkur mikilvægar upplýsingar um ástand og gerð pláneta og um uppruna heimsins okkar, en þeir eru einnig mjög fagrir hlutir, sem hafa farið í gegnum hreinsunareldinn við það að komast klakklaust inn í gegnum lofthjúp jarðar. Mig hefur alltaf dreymt um að finna loftstein á göngu minni um óþekkt svæði víðs vegar á jörðu, en hef ekki enn orðið svo heppinn. Uppboðshaldarinn Christie´s heldur fremur óvenjulegt uppboð frá 3 til 10. maí á loftsteinum. Þar er margt merkilegt að finna. Þar á meðal eru loftsteinar sem eru nær algjörlega úr járni, og eru þeir taldir koma úr kjörnum pláneta sem hafa brotnað. Þá er hægt að gera tilboð í pallasít loftsteina, sem eru að hálfu úr járni og nikkel og að hálfu úr risastórum kristöllum af ólivín (mynd). Þeir eru uppáhaldssteinarnir mínir, en þeir mynduðust á mörkum kjarnans og möttuls í einhverri plánetu sem nú er brotnuð í smælki. Nú, ef það er ekki nógu gott, þá getur þú fengið þér loftsteina, sem hafa borist til jarðar frá mars eða frá tunglinu. Mars loftsteinar eru ´serstkir, og hafa efnasamsetningu sem bendir eindreigið til uppruna á mars. Það er vitað um aðeins 150 kg af mars loftsteinum, svo þessi er fágætur, enda er áætlað verð á honum $50,000. Frekari upplýsingar um uppboðið má sjá hér
https://onlineonly.christies.com/s/deep-impact-martian-lunar-other-rare-meteorites/lots/346
Mars | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Kom líf frá Mars?
2.9.2016 | 00:45
Í fyrri færslu hér á blogginu hef ég fjallað um elstu lífverur sem fundist hafa á jörðu, en þær eru strómatólítar á Grænlandi, um 3,7 milljarðar ára gamlir. Líf byrjar hér mjög fljótt eftir að jörðin hafði kólnað niður frá því að vera glóandi hnöttur. Þetta vekur upp stóra spurningu: kviknaði líf hér á jörðu, eða barst það til okkar utan úr geimnum? Ef til vill barst það hingað frá næsta nágranna okkar, plánetunni Mars? Fundur á nokkrum sérstökum loftseinum styrkja þá kenningu. Shergottites, Nakhlites og Chassigny eru þrjár tegundir af loftseinum, sem berast til jarðar, en þeir bera allir einkenni þess að koma frá Mars. Til þessa hafa aðeins 132 steinar fundist frá Mars hér á jörðu, og eru þeir dýrmætur fjársjóður um upplýsingar varðandi bergfræði og uppruna rauðu plánetunnar Mars. Þessir loftseinar eru merkileg heimild um það, að ef til vill hefur líf (einfrumungar, gerlar og annað) getað borist með slíkum steinum frá Mars til Jarðar. Myndin sem fylgir er af shergottite loftsteini frá Mars. Þeir hafa efnasamsetningu sem er nálægt blágrýtinu okkar, og hafa sennilega myndast við eldgos fyrrum á Mars. Þeir yngstu eru um 145 milljón ára, en þeir mynduðust þegar mjög stórir loftsteinar rákust á Mars og köstuðu þessum smærri steinum út í geiminn frá Mars. Greiningar á gas tegundum í loftsteinunum sem hafa fundist hingað til sýna að þeir köstuðust frá Mars á ýmsum tímum, fyrir 20, 15, 11, 4.5, 3, 1.3 og 0.7 milljón árum. Það er því alls ekki útilokað að frumstæðar lífverur hafi borist til jarðar á yfirborði loftsteina frá Mars.
Mars | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Loftslagsbreytingar á öðrum hnöttum
19.12.2012 | 18:56



Staðhæfingar um að núvernadi hnattrræn hlýnun jarðar sé af náttúrlegum öflum eru því fjarstæða. Stærsta náttúrulega aflið er auðvitað sólin. Sumir (þeir eru reyndar örfáir) telja að hnattrænu breytingarnar séu vegna misumnandi geislunar sólarinnar. Auðvitað er sólin stærsta orkulind okkar. Hún gefur ylinn með sólskininu og einnig hefur sólin skapað þá jarðolíu og jarðgas, sem við brennum. Það eru aðeins jarðhitinn og kjarnorkan, sem eru óháð sólarorkunni. Við vitum vel að sólorkan er ekki stöðug, heldur sveiflast hún í bylgjum, eins og myndin til hliðar sýnir. Takið eftir að sólorkan er sýnd sem Wött á hvern fermeter. Þetta er orkan sem berst að ytra borði lofthjúps jarðar. Aðeins partur af þessu nær niður á yfirborð jarðar. Myndin sýnir einnig hvernig meðalhiti hefur breyst á jörðu á sama tíma. Síðan um 1980 hefur ekkert samhengi verið í sólargeislun og hitaferli á jörðu. Hnattræn hlýunun er ekki vegna breytinga í sólinni, heldur af okkar völdum. Sama er að segja um aðra geimgeisla. Þeim hefur ekki fjölgað á þeim tíma sem hlýnar hér á jörðu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC), sem nýlega lak út til vísindamanna, en er enn óbirt.
Mars | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hvers vegna eru stærstu eldfjöll sólkerfisins á Mars?
16.10.2012 | 07:44
Nú er amerískur jeppi á ferðinni á yfirborði plánetunnar Mars og hann er með nægilegt eldsneyti innanborðs til að keyra og kanna í fjórtán ár. Við munum því fá mikið flóð af jarðfræðilegum (marsfræðilegum?) upplýsingum um þessa merkilegu plánetu næstu árin. Ég bíð spenntur eftir því að þeir senda jeppann upp á Olympus Mons, sem er hæsta og stærsta eldfjall í sólkerfi okkar, um 22 km á hæð. Já, og flatarmál eldfjallsins er meir en þrisvar sinnum flatarmál Íslands. Hvernig getur þessi litla pláneta myndað stærstu og hæstu eldfjöll sólkerfisins? Mars er að mörgu leyti allt öðru vísi en jörðin, eins og fyrsta myndin sýnir. Hér er Mars til vinstri og jörðin til hægri. Ekki er Mars öðru vísi einungis á yfirborði, heldur einnig að innri gerð. Eðlisþyngd rauðu plánetunnar er aðeins 3,94 g/cm3, en jörðin er með miklu hærri eðlisþyngd: 5.52 g/cm3. En Mars er miklu minni en jörðin.
Þannig er þvermál Mars aðeins helmingur af þvermáli jarðar og Mars er því aðeins með um 10% af massa jarðar. Lægri eðlisþyngd bendir til að kjarninn í Mars sé annað hvort lítill eða innihaldi lítið járn. Veikt segulsvið plánetunnar bendir einnig til að kjarninn sé ekki lengur fljótandi og því sennilega orðinn fremur kaldur.
Flekahreyfingar jarðskorpunnar er eitt af höfuðeinkennum jarðarinnar. Hins vegar eru flekahreyfingar litlar eða nær óþekktar á Mars. Ef til vill er risastóra gilið Valles Marineris á Mars myndað við flekahreyfingar, en umdeilt. Það má skifta plánetunni í tvennt. Suður helmingurinn hefur helmingi þykkari skorpu (80 km, rauðu svæðin á kortinu fyrir ofan) og meira hálendi eins og myndin fyrir ofan sýnir, en norður helmingurinn er með tiltölulega þunna skorpu (ca. 30 til 40 km, bláu svæðin). Skopran á Mars er að mestu gerð úr basalti og hefur eldvirkni því verið mjög mikilvæg á plánetunni áður fyrr. Það er vísbending um að einhver eldgos hafi orðið síðustu milljón árin, en eldvirkni er nú mjög lítil. Þar sem flekahreyfingar eru ekki til staðar, þá hafa eldgosin verið mjög staðbundin og mjög há eldfjöll hlaðist upp, eins og Olympus Mons. Ef til vill eru þá tveir þættir, sem gera Mars kleift að mynda hæstu eldfjöll sólkerfisins: óvenju þykk skorpa og staðbundin eldvirkni. Talið er, að mikið hafi dregið úr eldgosum á Mars en þó eru mjög ung hraun sjáanleg. Aftur beinist athyglin að Olymus Mons fjallinu, þar sem askjan í toppnum er engin smásmíði, eins og síðasta myndin sýnir.
Þessi 2 km djúpa askja er um 90 km í þvermál eða heldur stærri en allur Faxaflói. Það er augljóst að hún hefur ekki myndast við einn atburð, heldur er askjan stóra á Olympus Mons afleiðing af fimm misgömlum öskjumyndunum, sem hver hefur skilið eftir sinn hring.
Mars | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Steinninn Jake á Mars
15.10.2012 | 10:03



Mars | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ferðin til Mars
11.7.2012 | 15:33


Mars | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)