Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Íslenski kötturinn og Ameríkuferðir hans

Okkur skortir ekki sannanir um ferðir Íslendinga og Grænlendinga til Vínlands, eða norðaustur strandar Norður Ameríku. Það höfum við í  Grænlendingasögu og Sögu Eiríks rauða, og einnig uppgreftri rústa á Nýfundnalandi vð austurströnd Kanada.  En spurninin er, hvað komust þeir langt suður?  

6A82D775-72AD-4A90-9969-13ABDC590886_1_201_aÁrið 1957 fannst silfurpeningur í fornum ruslahaug indíána nærri sjávarsíðunni í Maine fylki í Bandaríkjunum. Rannsóknir sýna að peningurinn var sleginn í tíð Ólafs kyrra, sem  var við völd í Noregi frá 1067 til 1093.  Aldursgreiningar sýna að öskuhaugurinn var mestu leyti í brúki frá um 1180 til 1235.  Í hálfa öld var þessi fundur talin blekking eða svindl, einkum að stuðningsmönnum Kólumbusar, sem vildu ekki viðurkenna komu norrænna manna til Ameríku á undan Kólumbusi, en nú er fundurinn búinn að fá fullt gildi.  Þessi fundur sýnir ótvírætt að norrænir menn fóru miklu sunnar en áður var haldið, og að ferðir þeirra til Vínlands náðu yfir miklu lengra tímabil en gefið er í skyn í Vínlandssögunum. En það er annar þáttur sem gefur miklu sterkari vitneskju um siglingar norrænna manna á suður slóðir, og það er tengt erfðaefni í Amerískum köttum og skyldleika þeirra og íslenska kattarins.

Í kringum 1975 átti ég kött sem kom frá Boston og var af Maine Coon kyni.  Hann var risastór, kafloðinn og hélt sig mest utan húss. Hann var ótrúlega fimur og kraftmikill og gat auðveldlega stokkið meir en eina mannshæð til að krækja sér í smáfugla úr loftinu. Hann hét Wild Thing, eftir hinu fræga rokklagi þeirra Troggs og Jimmy Hendrix. Ég uppgötvaði ekki fyrr en nýlega að Wild Thing, eins og allir Maine Coon kettir,  hefur verið af norrænum eða jafnvel íslenskum ættum.  Sennilega hefur hann átt ættir að rekja alla leið aftur til skipskatta norrænna manna, sem sigldu til norðaustur strandar Norður Ameríku í kringum árið 1000 og síðar.

  Þannig er mál með vexti að engir innfæddir kettir voru fyrir hendi í Norður Ameríku þegar norrænir menn komu fyrst til þessa mikla meginlands. Hér voru fyrir úlfar, fjallaljón og hundar, sem frumbyggjar eða indíánar höfðu náð góðum tengslum við, en engir kettir.  Reyndar er hér að finna bobcat eða  Lynx rufus, sem er mjög stór, skottlaus en óskyldur venjulegum húsköttum.  

Ég held að fyrstu rannsóknir á erfðamengi og uppruna íslenska kattarins hafi verið gerðar af Neil B. Todd og félögum árið 1975, en þær birtust í vísindaritinu Heredity. Þeir rannsökuðu erfðamengi Reykjvíkurkatta og einnig sveitakatta á Íslandi. Þeir sýndu fram á að íslenski kötturinn hefur sérstöðu og er ólíkur Evrópskum köttum, hvað snertir erfðamengi, sérstaklega þó sveitakettir á Íslandi.  En það er fróðlegt að sjá, að Todd bendir á skyldleika íslenska kattarins og katta í Norður Ameríku, hvað snertir erfðamengi.   Hann stakk uppá að Amerískir kettir hefðu borist til Íslands með herskipum í Seinni Heimsstyrjöldinni, en eins kemur fram hér neðar voru ferðir íslenska kattarins alveg í þveröfuga átt.  

Árið 1983 kemur út fræðigrein eftir Stefán Aðalsteinsson erfðafræðing og Amerikumanninn Ben Blumenberg, birt í þýska vísindaritinu Zeitschrift fur Tierzuchtung Zuchtungsbiologie.  Titill greinarinnar var algjör sprengja;  Possible norse origin for two Northeastern United States cat populations, eða Hugsanlegur norrænn uppruni tveggja kattategunda í norðaustur hluta Bandaríkjanna.  

Ég hafði kynnst Stefáni  nokkuð á stúdentsárum mínum, en þá starfaði ég á stofnun sem bar heitið Atvinnudeild Háskólans.  Þar var að finna ótrúlega fjölbreytt samansafn íslenskra vísindamanna, einn af hverju tagi, eins og í örkinni hans Nóa.  Þetta var fyrir þann tíma þegar sérhæfar vísindastofnanir voru settar á laggirnar.  Á fyrstu hæð var skrifstofa Rannsóknarráðs Ríkisins, þar sem  Steingrímur Hermannsson réð ríkjum, en sú stofnun  myndaði fjárhagsleg tengsl vísindanna við Alþingi.  Það merkasta við Atvinnudeild Háskólans var reyndar kaffistofan. Hér söfnuðust saman tvisvar á dag margir fremstu vísindamenn Íslands og drukku kaffi saman og ræddu um allt milli himins og jarðar.  Stefán Aðalsteinsson var oft í heimsókn, til að spjalla við Sturlu Friðriksson og Sigurður Þórarinsson var tíður gestur.  

En snúum nú aftur að köttum og grein Stefáns og Blumenberg árið 1983.  Þeir söfnuðu miklum gögnum um erfðamengi katta allt umhverfis Norður Atlantshaf og einnig austurströnd Norður Ameríku, einkum með tilliti til svæða þar sem norrænir menn eða “víkingar“ höfðu dvalið.  Þar kemur fram að erfðamengi katta frá Íslandi og sumum svæðum norðaustur strandar Norður Ameríku, einkum á Boston svæðinu og nágrenni, er sláandi líkt. Manni dettur strax í hug að skipskettir um borð í knörrum á vestur leið frá Grænlandi eða Íslandi hafi verið orðnir leiðir á vistinni  og vosbúð í marga mánuði  og stokkið í land við fyrsta tækifæri þegar strönd Ameríku nálgaðist.  Þar blómguðust þeir og mynduðu stofninn sem nú nefnist Maine Coon kettir.  Að mínu áliti hefur mikilvægi kattanna í sambandi við Vínlandsfundinn   ekki enn fengið verðskuldaða athygli.  Í merkri bók sinni Vínlandsgátan (1997) fjallar Páll Bergþórsson stuttlega um málið í síðasta kafla verksins.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Síðustu Inuitarnir á norðaustur Grænlandi

Í ágúst 2014 var ég á siglingu um Scoresbysund á norðaustur Grænlandi, ásamt félaga mínum Ragnari  Axelssyni, ljósmyndara.  Einn daginn, hinn 31. 

0F460987-BB62-4AAC-999E-57B17A06A7C4ágúst,  vörpum við akkerum í Rypefjord, eða Rjúpufirði, sem er mjög innarlega í Scoresbysundi.  Hér er vinalegt umhverfi, og dálítill gróður upp brattar hlíðar. Skammt  frá sjáum við sauðnaut á beit.  Við göngum í land rétt við árósa, og rekum strax augun í grjóthleðslu á árbakkanum, sem er einhverskonar mannvirki, en er nú vafið runnum og grasi.  Áin er að naga í brún hleðslunnar og senn verða þessar fornu menningarleifar horfnar. Þetta eru greinilega rústir af vetrarhúsi, þar sem Inuítar dvöldu í yfir kaldasta tíma ársins, en annars dvöldu þeir í tjöldum nærri veiðistað í mynni Scoresbysunds, við ísilagða strönd Atlantshafsins.  Húsrústin er hringlaga, með upphækkuðum palli  úr steinhleðslu sem tekur um helming rýmisins. Á pallinum hefur fjölskyldan dvalið og sofið, sitið þétt til að halda á sér hita. Hleðsla af stórum steinhellum myndar nokkurra metra löng göng, þar sem hægt er að skríða inn í byrgið.  Við forðumst að hreyfa neitt og vildum ekki róta í þessari rúst. Það munu fornleifingar væntanlega gera síðar.

Rétt vestan við húsið, um hálfan meter frá steinhleðslunni, sjáum við að bein stendur upp úr moldinni.  Það er rifbein, sem hefur verið tálgað til einhvers brúks.  Í grennd er töluvert af öðrum beinum, en þau eru öll brot af leggjum, sem hafa verið vel mergsogin, sennilega bein af sauðnautum.  Ég kippi rifbeininu upp og þá kemur í ljós að hinn endinn er einnig tilskorinn. Mér virðist líklegast að þetta sé rif úr kajak, en Inúítar notuðu bein í stað trjáviðar til að setja saman kajakgrindur og strekktu svo skinni utanum. Sennilega var hér kajak uppi á þaki á vetrarhúsinu, en með tímanum hefur skinnið fúnað og kajakinn dottið í sundur. 

Curve
Ég fór síðar með rifbeinið í aldursgreiningu í Woods Hole í Bandaríkjunum.  Bein inniheldur mikið kolefni.  Kolefni af gerðinni C-14 er geislavirkt og geislakol klofnar með tímanum og myndar köfnunarefni.  Á því byggist aldursgreining efna sem eru rík af kolefni, eins og bein.  Hlutfall geislakola í efninu gefur því aldur þess.  En eins og myndin sýnir eru lykkjur á kvörðunarferlinum fyrir C-14 aldur og almanaksaldur. Ef C-14 sem mælist  fellur í slíka lykkju, þá getur almanaksaldur  gefið tvær mögulegar niðurstöður. Þannig er því miður með rifbeinið frá Rypefiord. Það er annað hvort frá því um 1670 e.Kr. eða það er  frá um 1790 e.Kr. Eg hallast fremur að yngri tölunni, frá um 1790 e.Kr. en hef engin sterk rök til að styðja það. 

Víðtækar rannsóknir sýna að Inuítar námu fyrst land á norðaustur Grænlandi um 1400 e.Kr. en búseta þeirra var fremur stutt á þessum slóðum vegna loftslagsbreytinga. Síðustu Inuítarnir sáust á þessu svæði í ágúst árið 1823, þegar breski vísindamaðurinn Douglas Clavering rakst á tólf Ínúíta á lítilli eyju sem nú ber hans nafn, skammt fyrir norðan Scoresbysund. Síðan hvarf þessi ættbálkur Ínúíta algjörlega frá norðaustur Grænlandi, sennilega vegna harðinda og kólnandi veðurfars.  Ekki er ljóst hvort þeir dóu út í grennd við Scoresbysund eða fluttust suður á bóginn, í átt að Kulusuk.   Mér þykir líklegt að veturseta Inúíta hafi haldist við Rypefiord til hins síðasta, eða alt að aldamótunum 1800 e.Kr. þar sem sveitin hér er hlýlegri, grösugri og veðurfar betra en utar í Scoresbysundi. Þess vegna hallast ég að C-14 1790 e.Kr. fyrir rifbeinið góða.All Photos - 1 of 1


Sjávarborð hækkar hraðar

Nýjustu gögn sýna að hafsborð hækkar hraðar en gert var ráð fyrir, eða nú um 4.8 mm á ári að meðaltali.  Hröð bráðnun á heimsskautunum ræður miklu en einnig útþensla hafsins þegar það hlýnar.Untitled


Eldfjallasafn í Stykkishólmi er til sölu

Á ferðum sínum hWarholefur Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur komið sér upp miklu safni af efni, ýmiskonar listaverkum, rannsóknarefni og bókum sem snerta eldgos og eldvirkni víðsvegar um heim. Safnið hefur verið til húsa í Stykkishólmi í rúman áratug, en er nú til sölu.
Í safni Haraldar eru mörg hundruð listaverka. Þar má nefna málverk, málmstungur og svartlist ýmiskonar frá eldvirkni um allan heim. Einnig er þar að finna frumstæða list (alþýðulist) frá Indónesíu, Mexíkó, Mið-Ameríku og víðar. Úrval er af japanskri "goslist",  einnig listmunir og safn minjagripa. Í safninu má m.a. finna stórt verk eftir Andy Warhol frá 1985 af eldgosi, myndir eftir Japanann Katsushika Hokusai, Mexíkanana David Alfaro Siqueiros og Dr. Atl, auk merkilegs safns af prentverki og plakötum af bíómyndum sem fjalla um eldgos.      Einnig er hér að finna merkt steinasafn, sem er miðað við uppfræðslu um jarðfræði Íslands.      Í Eldfjallasafni er einnig vandað safn bóka um eldgos og eldfjallafræði auk rúmlega 6000 sérprentana með vísindagreinum og safn jarðfræðikorta. Loks má nefna safn kvikmynda af eldgosum og efnis á myndböndum.

Frekari upplýsingar má fá í síma 899 0857 og tölvupósti hsigurdsson@uri.edu.

 


Setbergseldstöðin

 

 Setbergkort copy

Tíminn líður – tíminn flýgur.  Fyrir 54 árum birti ég þetta jarðfræðikort af Setbergs eldstöðinni á Snæfellsnesi.  Það var margt sem dró mig í áttina að Eyrarsveit og Snæfellsnesi á sínum tíma. Einu sinni var ég, sjö ára gamall strákur frá Stykkishólmi, í sveit að Kolgröfum í Eyrarsveit. Þar var þá búskapur með fornu sniði. Til dæmis stundaði bóndinn fráfærur á lömbum og ám.  En aðal aðdráttarafl að þessari fallegu sveit var sú skoðun mín að hér í Eyrarsveit væri að finna rætur af mikilli fornri eldstöð, líkt þeim sem breski jarðfræðingurinn George P.L. Walker og  nemendur hans höfðu rannsakað á Austurlandi.  Á þesum tíma stundaði ég jarðfræðinám í Queen’s University í Belfast í Norður Írlandi, en á sumrum vann ég sem aðstoðarmaður Þorleifs Einarssonar jarðfræðings við Atvinnudeild Háskóla Íslands.   Þorleifur hvatti mig til að rannsaka Setbergseldstöðina á ýmsan máta. Til dæmis lánaði hann mér reiðhjól sitt til að ferðast um sveitina.  Verkefnið var flókið, enda mikill fjöldi bergtegunda og löng jarðsaga sem felst í þessu merkilega svæði.  Loks lauk ég við verkið og setti fram í BSc ritgerð minni á Írlandi árið 1965, sem Vísindafélag Íslands birti síðan árið 1966. Síðar var Setbergseldstöðin uppistaðan í doktorsritgerð minni.  Doktorsritgerðina frá Durham Háskóla árið 1970 er hægt að nálgast hér:

 

http://etheses.dur.ac.uk/9338/1/9338_6269.PDF?UkUDh:CyT=

Við vitum heilmikið um stórar megineldstöðvar á Íslandi vegna rannsókna á virkum eldstöðvum eins og Heklu, Öræfajökli, Öskju ofl.  En fornar og útdauðar megineldstöðvar eins og Setberg gefa okkur aðra mynd, vegna þess að yfirborðsmyndanir hafa verið rofnar á brott af jöklum, og innri gerð eldstövarinnar kemur þá í ljós. Þannig kom í ljós, að undir Setbergseldstöðinni er mikill fjöldi af skálaga, hallandi innskotslögum, sem ég nefndi keilugana eða cone sheets.  Þeir eru bæði úr basalti og líparíti. Keilugangarnir raða sér í hring umhverfis eldstöðina, eins og kortið sýnir,  og eru megin þáttur í eldvirkni hér á sínum tíma.  

Jóhann Helgason, jarðfræðingur hjá Landmælingum Íslands  hefur nú teiknað jarðfræðikortið  af Setbergseldstöðinni upp á nýtt og við birtum það hér með.

 


Innskot eru algengari en eldgos


Kvika sem leitar upp úr möttlinum og í átt að yfirborði Íslands getur annað hvort gosið á yfirborði eða myndað innskot í jarðskorpunni rétt undir yfirborði. Við hverju má búast, þegar órói hefst í skorpunni, eins og nú gerist við Þorbjörn á Reykjanesskaga? Reynslan undanfarin ár sýnir að einkum tvennt kemur til greina. Annað hvort leitar kvikan frekar fljótlega upp á yfirborð og gýs, oftast sem sprungugos af basalt kviku. Eða þá að kvikan treðst inn á milli jarðlaga í efri hluta skorpunnar og myndar innskot, án þess að gos verði, en myndar bólu eða landris á yfirborði. Tvennt ber að hafa í hug í þessu sambandi. Annað er, að eðlisþyngd kvikunnar er frekar há (um 2.75 g á rúmc.) og mun því kvikan oft leita sér leiða innan skorpunnar og finna sér farveg, án þess að gjósa. Mörg dæmi þess eru nú vel kunn. Einkum vil ég benda á atburðina við Upptyppinga fyrir austan Öskju árin 2007 til 2009, en þar var mikið landris og skjálftavirkni á 15 til 17 km dýpi. Mikill titringur var þá lengi í öllum jarðvísindamönnum á Íslandi, en ekki kom gos. Sennilega myndaði kvikan stóran gang af basalti á þessu dýpi. Sömu sögu er að segja með atburði undir Hengli árin 1994 til 1998 og svo nýlega í Krísuvík árið 2009: staðbundin skjálftavirkni, landris og merki um að innskot hafi orðið í skorpuna án þess að gjósa. Oft eru slík innskot lóðréttir berggangar, eða þá lárétt innskot og keilugangar, en það fer eftir spennusviði í skorpunni hvort gerist. Það verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála í grennd við Þorbjörn, en mig grunar að kvikan fari öll í innskot í efri hluta skorpunnar.


Grímur Jónsson Thorkelin og Bjólfskviða

 

Grímur Jónsson Thorkelín og Bjólfskviða

grimur_jonsson_thorkelin_large
 

Grímur Jónsson Thorkelin er fæddur í Bæ í Hrútafirði í október árið 1752.  Hann deyr í Kaupmannahöfn í mars árið 1829 eftir merkilegan feril.  Sendur ungur í nám í Skálholtsskóla árið 1765. Þar sýndi hann mikla námshfileika og var sendur til frekara náms í Kaupinhöfn árið 1770.  Útskrifast áið 1773 en hélt áfram námi og rannsóknum varðandi lögfræði og norræn handrit.  Árið 1777 er hann skipaður ritari Arnamagnæanske Kommisions,  handritastofnun Árna Magnússonar. og síðan prófessor við Kaupinhafnarháskóla árið 1783.  Þá varð hann umsjónarmaður skjalasafns Danakonungs. 

Árið 1785 fer hann í tveggja ára ferð til Bretlandseyja til að leita að skjölum og fróðleik varðandi vist norrænna manna þar í landi.  Næstu fimm árin var hann erlendis og lærði góða ensku og kom upp sterkum samböndum við fræðimenn. 

Merkasta afrek Gríms var að uppgötva handrit með fornkvæðinu Bjólfskviðu í British Museum áeið 1785.  Gamla kálfskinnshandritið er enn á sínum stað í British Museum í London, gulnað og brennt eða sviðið á köntum.  Þess er fyrst getið árið 1563 en síðar eignast Sir Robert V-Cotton handritið.  Í safni hans var handritið með Bjólfskviðu þekkt sem Vitellus A. xv.  eða fimmtánda bindi á hillunni undir brjóstmynd Vitelliusar.  Árið 1700 varð bókasafn Cottons hluti af British Museum og flutt til Westminster.  En árið 1731 kviknaði eldur í safnhúsinu. Fjöldi handrita eyðilagðist en Bjólfskviða var í þéttu bandi og sviðnaði því aðeins og brenndist á köntum. 

Ekki fór betur með afrit Gríms af Bjólkfskviðu í Kaupmannahöfn.  Bretar gerðu árás á borgina árið 1807 með hríð af fallbyssysprengjum og Kaupmannahöfn logaði. Þá brann heimili Gríms og uppskriftir hans af Bjólfskviðu og önnur skjöl eyddust. En hann var ekki af baki dottinn og tók saman aðra uppskrift af hinu forna kvæði,   sem kom loksins á prent árið 1815. 

Árið 1788 var hann gerður doktor við St Andrews háskóla í Skotlandi. Næstu 40 árin bar hann titilinn skjalavörður Danakonungs og gerði merkar rannsóknir á skjalasafni og sögu Danaveldis. Þýðing Torkelins á Bjólfskviðu er mjög umdeild fyrir gæði og nákvæmni en samt mun nafni hans haldið á lofti þar sem hann uppgötvar þetta stórverk fornritanna. 

En hann kom víða við. Árið 1788  kom á prent eftir hann  í London rit sem heitir An essay on the slave trade.  Þar rekur hann  sögu þrælahalds meðal mannkyns og setur fram merkilegar tillögur til að leggja af þrælahald með öllu.  Það er greinilegt að hér er á ferðinni fræðimaður sem fjallar um fjölda rannsóknaverkefna í sínu fagi.  

Síðari fræðimenn héldu áfram að rannsaka Bjólfskviðu og einn þeirra var Prófessor J.R.R. Tolkien  í Oxfordháskóla.  Kvæðið Bjólfskviða og Íslendingasögur höfðu mjög sterk áhrif á Tolkien, sem ritaði heila röð af skáldsögum í anda hinna fornu sagna, þar á meðal The Hobbit og The Lord of the Rings.

 

 

 

 

 


Afdrif víkinga á Grænlandi á miðöldum  

 

Landnám norrænna manna frá Íslandi á Grænlandi á tíundu öld og landkönnun þeirra í vestri er einn af höfuðstólpum norrænnar menningar almennt. Grænlenska nýlendan blómgaðist um skeið á fyrri hluta Miðalda, bæði í Eystribyggð og Vestribyggð, en af einhverjum óþekktum ástæðum leið byggðin undir lok í kring um 1450 e.Kr.  Það hefur lengi verið óstaðfest skoðun fræðimanna (fyrst Hans Egede 1721) að hnignun loftslags hafi ráðið förinni og gert Grænland óbyggjanlegt fyrir bændur, sem stunduðu akuryrkju og búskap að íslenskum sið.  Síðasta lífsmarkið frá norrænum mönnum á Grænlandi er tengt brúðkaupi íslenskra hjóna í steinkirkjunni á Hvalsey árið 1408. 

LasherFig2

Rannsóknir loftslagsfræðinga hafa sýnt fram á að um skeið ríkti tiltölulega mjög milt loftslag á norðurhveli jarðar á Miðöldum (Medieval Climate Anomaly, MCA), frá um 900 til um 1300 e.Kr. , en það byrjaði verulega að kólna og Litla Ísöldin gekk í garð, eins og ískjarnar frá Grænlandsjökli sýna í stórum dráttum. 

Við frekari könnun hefur myndin nýlega tekið að skýrast við rannsóknir á vatnaseti í Eystribyggð, en niðurstöður sýna að í stórum dráttum hafði Hans Egede rétt fyrir sér fyrir tæpum  þrjú hundruð árum.  Nú hafa Everett Lasher og Yarrow Axford  frá Bandaríkjunum greint súrefnissamsætuna O18 í skeljum eða hýði af vatnapöddum  sem finnast í borkjörnum af vatnaseti í Eystribyggð.  Grein þeirra birtist nýlega í tímaritinu Geology. En samsætan eða súrefnisísótópinn O18 er góður mælikvarði á ríkjandi hitastig þegar vatnapaddan var á lífi.  Það tekur um 40 ár að mynda 1 cm þykkt lag af seti í þessum vötnum í Eystribyggð,  sem gerir þá kleift að kanna sveiflur í loftslagi með um 40 ára næmi eða upplausn yfir um 3000 ára skeið. 

Niðurstöður þeirra eru sýndar á myndinni, bæði O18 sveiflur (efra ritið) og hitasveiflan, sem er dregin af O18 gögnum (neðra ritið). Kólnun er um 2 til 3 stig á meðalhita. Það er eftirtektarvert að kólnun í Eystribyggð er strax komin í gang skömmu eftir árið 1000 e.Kr. og hefur náð toppnum í kringum 1300 e.Kr. (bláa línan). Að öllum líkindum hefur sprettutíminn styttst til muna og landbúnaður, sem var hér rekinn á íslenskan máta, féll niður.  Fólksfjölgun skrapp saman og fókið hrökklaðist smám saman á brott.  En einmitt á sama tíma var fólk af Inuit kyni að færa sig suður með vestur strönd Grænlands og nema land.  Inúítar höfðu aðlagað sig mjög vel að aðstæðum, einkum með selaveiðum, og kólnunin á Litlu Ísöldinni hafði engin áhrif á þá.

 


Hafísinn í á Norðurslóðum dregst enn saman  

 

Það er yfirleitt um miðjan mars mánuð ár hvert, að hafísinn umhvefis Norður Pólinn nær sínu hámarki. Svo var einnig í ár, en þá kom í ljós að magn af hafís í norðri (14.5 milljón ferkm.) hefur aðeins einu sinni mælst minna en í ár. Það var árið 2017, en mælingar hófust árið 1979. Það er einnig athyglisvert að fjögur minnstu hafísárin eru einmitt síðastliðin fjögur ár, eins og myndin sýnir. Svo virðist sem ekkert lát sé á hlýnun í norðri. Þetta er því ekki eitthvað augnabliksfyrirbæri, heldur langvarnadi hlýnun.

Figure2_Það er sömu sögu að segja af hafís umhverfis Suðurskautslandið. Þar var lágmarkið í útbreiðslu hafíss í lok febrúar, og var þá 2.2 milljón ferkm. sem er einnig næst lægsta magn af hafís í suðri sem mælst hefur. Minnst var það árið 2017.


Hetjudáð Graah sjóliðsforingja á Austur Grænlandi  

 

GraahPortraitÁ átjándu öldinni kviknaði áhugi meðal fræðimanna á Norðurlöndum um að leysa gátuna um afdrif norrænna manna á Grænlandi. Þar er fremstur í flokki norðmaðurinn Hans Poulsen Egede (1686–1758), sem hefur verið nefndur Postuli Grænlands. Árið 1711 sótti Egede um leyfi hjá Friðrik IV Danakonungi til að stofna nýlendu á Grænlandi, í þeim tilgangi að leita að týndum byggðum norrænna manna þar. Hann sigldi loks frá Bergen til Grænlands tíu árum síðar, árið 1721, á tveimur skipum. Hann kannaði suðvestur strönd Grænlands og fann hvergi norræna menn eða afkomendur þeirra á þeim slóðum. Ekki tókst honum að kanna austur strönd Grænlands vegna ísa, en hann og aðrir voru sannfærðir um að hin forna Eystribyggð norrænna manna væri staðsett þar. Egede helgaði sig þá að trúboðastörfum og hóf nú að kristna Inúita á vestur strönd Grænlands og tók sér í því skyni fimmtán ára búsetu í Godthaab, sem nú er höfuðborg Grænlands, Nuuk. En Egede gafst upp við fekari leit að norrænum mönnum á þessum slóðum.

Eitt hundrað árum síðar vaknar áhugi meðal Dana aftur að kanna málið frekar og reyna að leysa ráðgátuna um hvarf norrænna manna á Grænlandi. Á dögum Friðriks VI Danakonungs var gefið út ítarlegt skipunabréf (sex síður) til Wilhelms A. Graah sjóliðsforingja hinn 21. febrúar 1828, þess efnis að hann skyldi stýra leiðangri konungs til kanna austur strönd Grænlands, frá Hvarfi og allt norður til Scoresbysunds við 69oN.   Höfuðtilgangur leiðangursins var “að leita að vitneskju eða leifum íslensku nýlendunnar”, sem talin er hafa verið á þessum slóðum. Undir skipunarbréfið skrifar A.W. Moltke greifi, stjórnarráðsforseti Danakonungs. Skömmu síðar (1848) varð Moltke greifi kosinn fyrsti forsætisráðherra Danmerkur, en  Moltke var stiftamtmaður á Íslandi 1819-23. Sennilega kom hugmyndin um Grænlandsleiðangurinn frá Moltke sjálfum.

            Þá var vitað, samkvæmt frásögn í Íslendingasögum, að norrænir menn hefðu reist tvær byggðir á Grænlandi: Eystribyggð og Vestribyggð. Af eðlilegum ástæðum álitu menn á nítjándu öldinni að þessar byggðir hefðu verið staðsettar á austur og vestur strönd Grænlands. Margir töldu að hina fornu Eystribyggð væri að finna á suðaustur ströndinni, á því ókannaða svæði sem Danir nefna Kong Frederik VI Kyst. Þar væri því von um að finna ef til vill afkomendur íslensku landnemanna eða einhverjar leifar þeirra. Þessi eðlilega en ranga ályktun leiddi menn í miklar villur á sínum tíma. Kong Frederik VI ströndin nær yfir um 600 km langa strandlengju, sem fjölda af grunnum fjörðum, háum fjallgörðum fyrir ofan og dreif af smáeyjum. Allar aðstæður með suðaustur strönd Grænlands og í hafinu þar undan eru allt aðrar og miklu erfiðari en á vestur Grænlandi. Það stafar fyrst og fremst af Austur-Grænlandsstraumnum, en hann er sterkur straumur úr Íshafinu, sem fylgir ströndinni og ber með sér ógrynni af hafís í suður átt, meðfram austurströndinni. Af þeim sökum er hafið rétt undan suðaustur strönd Grænlands talið mjög erfitt eða jafnvel ófært mikinn hluta ársins.

KonubáturWilhelm August Graah (1793-1863) sjóliðsforingi var reyndur siglingafræðingur og landkönnuður. Hann hafði starfað við mælingar meðfram vestur strönd Grænlands árin 1823 og 1824. Einnig starfaði hann við mælingar umhverfis Ísland árið 1822 og á einu korta hans frá þeim tíma er ágæt mynd eftir hann af eldgosi í Eyjafjallajökli, sem ég hef bloggað um hér: https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1061162/. Ef til vill hefur hann kynnt sér íslenska menningu og sögu, því í skrifum sínum um norræna landnema Grænlands á tíundu öld kallar hann þá hreint og beint íslendinga, en ekki “Norse” eða “nærræna menn”. Hann er langt á undan sinni samtíð með að eigna Íslendingum landnám Grænlands! Jóni Dúasyni hefði líkað þetta, en hann vildi að Íslendingar endurheimti rétt sinn yfir Grænlandi frá Dönum.

            Graah nemur fyrst land í þorpinu Frederikshåb (nú Paamiut) á suðvestur Grænlandi í lok maí árið 1828. Þaðan er haldið til Julianehaab (nú Qaqortoq). Hér í þessu héraði fréttir Graah af rústum frá tímum hinna íslensku landnema. Þar sem þær eru staðsettar á vestur strönd Grænlands gerir Graah ráð fyrir að þetta muni vera hin forna Vestribyggð íslendinganna, en það kom í ljós löngu síðar að hér var hann reyndar kominn í sjálfa Eystribyggð. Það má segja um Graah, að hann leitar langt yfir skammt. Graah hófst nú handa við að láta smíða konubáta eða umiaks fyrir leiðangurinn í austur. Grindin er úr timbri og bundin saman, en síðan er strekkt vatnsheld húð eða skinn af fimtán til tuttugu selum á grindina. Allt hár er rakað af húðinni og mikið magn af selafeiti borin á alla sauma í lokin, til að gera bátinn vatnsheldan. Bátarnir eru léttir og meðfærilegir en ekki einn einasti nagli fer í smíðina. Umiak bátar hans Graah voru um 10 til 12 metrar á lengd og rúmir tveir metrar á breidd.

Graah skráði upplýsingar um leiðangur sinn í merka bók: “Undersögelses-reise til östkysten af Groenland: efter Kongelig Befaling, ulført i Aaren 1828-31.” Bókin kom út í Kaupinhöfn árið 1832. Þar er að finna mynd af Graah og einnig vandaða og litaða mynd af konubát, sem róið af konum. Ein konan er nakin að ofan, en önnur situr við stýri og með barn í poka á bakinu. Nokkru sunnar á vestur ströndinni er Inuítabyggðin Nanortalik og þangað leitar Graah næst til að fá innfædda leiðsögumenn til fararinnar. Hér hefur Graah vetursetu og undirbýr sig frekar fyrir leiðangurinn til austurs.

Vorið efir leggur Graah af stað, með tvo umiak eða konubáta sína, en áhöfnin var tíu Inuit konur, fimm Inuit karlar, túlkur og náttúrufræðingurinn Vahl. En ferðin gekk erfiðlega í fyrstu vegna hafíss. Þeir þurftu til dæmis að dvela 25 daga á einni eyju til að bíða þess að ísinn færi frá ströndinni. Loks komust þeir af stað í lok apríl og náðu til Aluk syðst á austur ströndinni. Ferðin gekk hægt og erfiðlega, vegna vinda, hafíss og bylja. Hann sendir til baka náttúrufræðinginginn, túlkinn og mikið af Inuítunum frá vestur ströndinni. Graah mannar bátana nú fólki af austur ströndinni. 

Loks náði Graah norður til Dannebrog eyjar (nú nefnd Kivdlak, 65° 15′ 36° N), sem er um 100 km fyrir sunnan Kulusuk. Hér sný Graah aftur og hinn 1. október tekur Graah sér vetursetu á eynni Nugarfik (nú nefnd Imaersivik) við 63° 30′ N. Þar reisir Graah moldarkofa fyrir allan hópinn. Veturinn var harður og kostur lítill. Loks tekur að vora og hinn 5. apríl 1830 leggur hann af stað en verður að snúa til baka í húsaskjól í kofanum hvað eftir annað vegna illveðurs og ísa á hafinu. Í einni tilrauninni neyddust þeir til að hafa viðurvist á skeri í hálfan mánuð fyrir norðan Alikajik, vegna veðurs.   Seinni partinn í júlí var neyðin mest og Graah átti einnig við veikindi að stríða. Þá var allur matarforðinn á þrotum og þeir átu nú hundamat og tuggðu gömul selskinn. Þá eru eftir af áhöfninni aðeins einn maður og tvær konur, auk Graah. Loks komust þau suður á bóginn og Graah nær loks til Nanortalik  í ágúst 1830. Ferðinni var lokið en ein höfuð niðurstaðan var sú, að engar leifar eða minjar fornra Íslendinga var að finna á suðaustur ströndinni. En Graah tókst að gera margar mælingar og safna verðmætum upplýsingum um þetta ókannaða svæði. Einnig eru rit hans sjór af fróðleik um lifnaðarhætti og siði Inúítanna á suðaustur Grænlandi, sem höfðu haft lítil eða engin samskifti við Evrópubúa.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband