Nú er von fyrir fílinn!

 fi_769_ll.jpgÁrið 1800 er taliðað 26 milljón fílar hafi verið á lífi á jörðu.  Í dag eru ekki einu sinni 50 þúsund fílar eftir á Indlandi og í Afríku eru um hálf milljón. Það er auðvitað fílabeinið, sem er að drepa fílinn, eða réttara sagt græðgi mannkyns að ná sér í fílabein til skrauts. Í Kína er langstærsti markaðurinn fyrir fílabein, en einnig í öðrum austurlöndum fjær. Í dag tilkynnti Kína að öll verzlun með fílabein verði ólögleg í lok ársins 2017. Þetta er algjör “game changer” fyrir verndun fílsins og getur bjargað honum frá algjörum útdauða. Bandaríkin hafa einnig bannað alla fílabeinsverzlun fyrr á þessu ári. Við getum glatt okkur á þessari skynsamlegu hegðun stórveldanna og vonandi fagnað því að fílnum fari að fjölga aftur.


Hringstraumurinn umhverfis Suðurheimsskautsland

 

antarctic-ocean-circulation-model-800x600.pngEini sjávarstraumurinn sem fer í hring á jörðu er umhverfis Suðurheimsskautið. Hann snýst í austur og flytur sjó á milli Atlantshafs, Kyrrahafs of Indlandshafs og er stærsti hafstraumur jarðar. Hér er alltaf ríkjandi vestanátt, sem keyrir strauminn áfram í hring. Myndin sýnir hvernig straumurinn hagar sér umhverfis Suðurskautið, og sýnir einnig hraðann. Rauði straumurinn á myndinni fer hraðast, eða meir en eina mílu á klst. Blátt fer hægar. Þessi stærsti hafstraumur jarðar flytur mesta magn af sjó á plánetunni, eða 173 Sverdrup einingar af sjó, en eitt Sverdrup er ein milljón rúmmetrar á sekúndu. Til samanburðar flytur Amazonfljót um 0,17 Sv og Golfstraumurinn um 30 Sv.

 


Mýragas vex hraðar í lofthjúp

metan2016.jpgMýragas eða metan hefur efnafræðitáknið CH4 og er mikilvægt í náttúrunni.  Gasið berst frá jörðu og upp í lofthjúp jarðar, þar sem gasið veldur hnattrænni hlýnun líkt og koltvíoxíð. En þar er metan hlutfallslega miklu virkara en koltvíoxíð. Talið er að hver sameind af metan sé um 30 sinnum virkari en koltvíoxíð, en það er miklu minna af metan í lofthjúpnum (um 2 hlutar af milljón á móti um 400). Metan hefur hækkað í andrúmsloftinu síðan iðnbyltingin hófst, en af einhverjum ástæðum vex það nú með meiri hraða síðan 2007, eins og fyrsta mynd sýnir, eftir E.G. Nisbet. Frá 2007 til 2013 óx metan um 5.7 ppb á ári, en svo varð stökkbreyting árið 2014 og þá óx metan um 12.5 ppb það árið. Hvað veldur þessu? Önnur mynd sýnir að dreifing metan er ójöfn í tíma og rúmi á jörðu. Á myndinni merkir grænt, gult og rautt hækkun, en blátt, dökkblátt og fjólublátt lækkun á metan. Rannsóknir á samsætum af kolefni í metan gasi sýna að þessi hækkun er ekki vegna jarðefna, olíu eða kola heldur er hún lífræn að uppruna. Þessi mikla og skyndilega aukning metan er stór ráðgáta fyrir vísindin í dag. metandreifing.jpgGetur það verið vegna losunar af mýragasi úr sífreranum í norðri, eða vegna bráðnunar á metan ís sem finnst í seti á hafsbotni eða meiri rotnunar gróðurs í hitabeltinu? Enginn veit, en það er greinilegt að mikil breyting er í gangi og jafnvel stökkbreyting.



Örloftsteinar í þakrennunni

 

o_776_rloftsteinar.jpgHefur þú kíkt í þakrennuna þína nýlega? Það getur vel verið að þú finnir þar örloftsteina og geimryk. Það er talið að um sex tonn af geimryki og örlitlum loftsteinum berist til jarðar á degi hverjum.   Það er um eitt korn á hvern fermeter á ári.

Vísindin nota ýmsar aðferðir til að safna geimryki og örlitlum loftsteinum. Ein vinsælasta aðferðin er að aka um Suðurheimsskautslandið á snjósleðum og tína upp svarta steina upp úr hvítum ísnum. En þakrennan er nærtækari fyrir koour hina. Það er að sjálfsögðu allskonar rusl í þakrennunni. Líklega er þar að finna eitthvað af eldfjallaösku frá Eyjafjallajökli, ryki úr umferðinni, ryði og fleiru, en örloftsteinarnir eru auðþekktir. Þeir eru glansandi og glerkenndir eins og myndin sýnir, vegna þess að þeir hafa bráðna skel eftir að hafa farið í gegnum andrúmsloft jarðar á ofsahraða og við mikinn núningshita.


Myndbönd Eldfjallasafns

Ekkert að gera yfir jólin? Þá skalt þú skoða myndbönd Eldfjallasafns, á íslensku og ensku, hér á YouTube

Íslenska útgáfan https://www.youtube.com/watch?v=mBRgmsk-wv4

Enska útgáfan https://www.youtube.com/watch?v=At5vTJi5H6A

Hátíðakveðjur

 

Haraldur


Campi Flegrei að rumska

 Rétt fyrir vestan borgina Napolí á Ítalíu, já, eiginlega í útjaðri borgarinnar, er eitt risastórt eldfjall, sem er að byrja rumska. Það heitir Campi Flegrei, eða Brunavellir. Þar er askja, sem er 12 km í þvermál, en hún myndaðist í miklu sprengigosi fyrir 39 þúsund árum. Annað stórgos varð fyrir um 15 þúsund árum. Lítið gos varð í Campi Flegrei öskjunni árið 1538 og er það síðasta gosið. Það gerði töluverðan ursla og þá hlóðst upp nýtt gígmyndað fjall: Monte Nuovo. Myndin sem fylgir er samtíma gosinu og er þessi trérista merk heimild.montenuovo_copy.jpg

Miklar breytingar eru í gangi í hverum í öskjunni og land er að rísa. Gas streymi upp úr hverum í öskjunni hefur stöðugt aukist síðan mælingar hófust í kringum 1982. Samfara því hefur hiti í hverunum aukist, og landris í öskjunni er í gangi. Út frá þessum gögnum og öðrum hafa Giovanni Chiodini og félagar spáð því að líkur séu á gosi innan 100 til 120 ára. Þeir telja jafnvel að gos gæti hafist innan 4 til 5 ára, en líkur eru á að það verði síðar. Það er því mikil óvissa í gangi, en það er greinilegt að áhættuástand ríkir á svæðinu, þar sem þúsundir búa nú og mikil mannvirki eru fyrir hendi.

hiti_1297190.jpg


Ótrúlegt en satt...

Myndin sýnir hitafar rétt fyrir norðan 80 gráðu norður. Svarta línan sýnir meðaltal lofthita fyrir tímabilið 1948-2002. Bláa línan sýnir hitafar árið 2016. Það er einstakt í sögu mælinganna og synir vel hvað hlýnunin er ör.  Hitafar er nú meir en tí græaðum yfir meðallagi.

arctic.jpg


Hvað hækkar sjávarborð mikið í lok aldarinnar?

global_average_sea_level_change_medium_1.pngÁhrifamesti þáttur í hnattrænni hlýnun jarðar er hækkandi sjávarborð. Það orakast af hraðari bráðnun íshellunnar yfir Grænalndi og Suðurheimsskautinu, ásamt bráðnandi hafís. Það er augljós staðreynd að málið er alvarlegt, en eins og fyrsta mynd sýnir, þá hækkar stöðugt og með vaxandi hraða. Það hefur flækst fyrir vísindunum að gera áreiðanlega spá um sjávarborð framtíðarinnar, en vandinn er augljós. Suðurheimsskautið tapar um 147 milljörðum tonna af ís á ári hverju, aðallega í vestur hlutanum, og Grænlandsjökull tapar um 269 milljörðum tonna á ári. Önnur myndin sýnir sjö spár vísindanna um stöðu sjávarborðs á jörðu árið 2100. Elstu spárnar eru til vinstri, en þær nýjustu og áreiðanlegustu eru til hægri. Þær benda til að sjávarborð verði um 1.3 m hærra við næstu aldamót en í dag, en geti jafnvel náð 2 metrum. En mesta óvissan er barðandi þróun mála í jöklum á vestur hluta Suðurheimsskautsins. Þar eru risastórir skriðjöklar, eins og til dæmis Thwaites jökull, sem eru byrjaðir að vera órólegir og geta haft mikil áhrif á næstunni ef þeir skríða fram með auknum hraða í hafið og bráðna. Nú er hreyfing á þessum jökli til dæmis nokkrir km á ári.screen_shot_2016_12_15_at_1_47_48_pm.png

Breytingar á sjávarborði hafa auðvitað mikil áhrif á Íslandi framtíðarinnar, en málið er flókið. Í fyrsta lagi eru breytingar á stöðu sjávar hér á landi tengdar landrisi vegna bráðnunar íslenskra jökla. Það hefur ´berandi áhrif í Höfn í Hornafirði og mun að öllum líkindum spila höfninni þar í náinni framtíð. Í öðru lagi eru breytingar hér einnig háðar jarðskorpuhreyfingum, sem hafa ekkert með jökla að gera en eru tengdar Mið-Atlantshafshryggnum. Þannig sígur Seltjarnarnesið vegna þess að það er að færast mátt og smátt fjær gosbeltinu vegna landreks. Í þriðja lagi er sjávarstaða hér undir áhrifum frá þyngdarsviði Grænlands, en það breytist í framtíðinni vegna minnkandi fargs Grænlandsjökuls. Þannig er erfitt að spá um framvindu mála hér. Nú er yfirborð Tjarnarinnar um 2,2 metra fyrir ofan sjávarmál og enginn veit hvenær sjór fellur inn í Tjörnina.


Er heimurinn kominn á koldíoxíð toppinn?

co2.jpgÞað er ljóst að hnattræn hlýnun er af völdum útlosunar af koldíoxíð af manna völdum. Koldíoxíð í andrúmslofti hefur hækkað stöðugt ár frá ári, en nú í ár virðist svo sem eitthvað jafnvægi sé að koma á, og árið 2016 mun útlosun vera svipuð og í fyrra, eins og sjá má á fyrstu mynd. Útlosun hefur vaxið um 1% undanfarin þrjú ár, en á sama tíma hefur hagvöxtur á jörðu vaxið um 3% árlega. Við erum farin að höndla orkugjafana sem grafnir eru úr jörðu miklu sparlegar en áður. Þrátt fyrir þetta fer koldíoxíð í andrúmslofti hækkandi, eins og önnur mynd sýnir. Það stafar sennilega af því að hingað til hefur mikið magn af koldíoxíð farið í hafið, en nú bætist það enn við andrúmsloftið. Í ár verður magnið af koldíoxíði í andrúmslofti í fyrsta sinn yfir 400 ppm. Mannkynið dældi enn út í loftið rúmlega 36 gígatonnum af koldíoxíði árið 2015, sem er til dæmis um 60% meiri útblástur en árið 1990. Kína losar um 29% af koldíoxíði árlega en frá 2013 hefur dregið verulega úr útlosun þar, aðallega vegna minni notkunar á kolum til eldsneytis. Á Indlandi hefur útlosun koldíoxíðs hins vegar hækkað töluvert. Þessar niðurstöður gefa okkur einhverja von og eru ástæður til bjartsýni í loftslagsmálum, en þess ber að gæta, að þetta kann að koma of seint. Loftslagsáhrifin eru komin á fulla ferð, hnattræn hlýnun setur nú hitamet á hverju ári, og lækkun á útlosun nú getur ekki stöðvað þá þróun sem er í gangi. En samt, full ástæða til að vinna á allan hátt að frekari minnkun á útlosun á koldíoxíði.monaloa.jpg


Dílar í bergi skrá sögu kvikunnar

porphyry.jpgHraunkvika myndar stórar kvikuþrær í jarðskorpunni, en við vitum mjög lítið um hvað er að gerast þarna niðri í kvikunni fyrir eldgos. En það fljóta kristallar af ýmsum gerðum í kvikunni, og þeir eru ýmist að vaxa og stækka, eða bráðna og minnka í kvikuþrónni. Þessir kristallar eru nú að færa okkur upplýsingar um sögu kvikunnar, sem við getum lesið með efnagreiningum á hinum ýmsu lögum kristalla, eins og árhringir segja okkur sögu trjánna.  Hraungrýti sem við finnum á yfirborði jarðar inniheldur nær alltaf ýmsa stóra kristalla, sem við köllum díla. Algengastir eru ljosgráir eða hvítir kristallar af feldspati, en einnig grænleitir ólivín kristallar og svo svartir kristallar af pýroxen. Berg sem er mjög ríkt af stórum kristöllum er kallað dílaberg, eins og fyrsta mynd sýnir. Þegar við skerum kristallanna og skoðum þá í sérstakri smásjá, þá keur í ljós að innri gerð hvers kristalls er flókin. Þar skiftast á lög af mismunandi efnasamsetningu. Í smásjánni birtast þessi lög sem mismunandi litir. kristalzoning.jpgÞeir sem hafa kíkt í slíka smásjá verða vitni af hinu ótrúlegru fegurð og dýrð, sem býr í kristöllum og innri gerð hraungrýtis.   En það merkilega við þessi litbrigði og þessar sveiflur í efnasamsetningu kristalla er, að þær eru skrár fyrir breytingar í kvikuþrónni. Þessar breytingar eru margvíslegar. Þær geta til dæmis stafað af því að ný og heitari kvika berst inn í þróna úr djupinu. Þær geta einnig merkt eldgos, þegar hluta af kvikuþrónni gýs á yfirborði og þrýstingur eða hiti í þrónni lækkar. Við erum á frumstigi með að lesa sögu kvikuþrónna með þessari aðferð, en nú er ljóst að sveiflur í innir gerð kristalla, eins og sýnt er á myndinni, eru ef til vill að skrá breytinar í þrónni sem vara í nokkra daga eða vikur. Það er því mikilvægt að þróa frekar slíkar bergfræðirannsóknir til að skilja kvikuna betur.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband