Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014
Sangeang Api sprengigosið
31.5.2014 | 11:22

Leiðir á Snæfellsnesi
22.5.2014 | 18:52
Fornir vegir, reiðgötur og gamlir bílvegir eru menningarminjar. Sennilega eru gamlar götur elstu menningarminjar okkar og þær ber að varðveita. Myndin sýnir Berserkjagötu, sem mun vera frá söguöld. Ég birti hér lýsingu á vegum í Helgafellssveit, sem varðveitist í handriti. Mér þætti væntu m að heyra frá þeim sem þekkja aðrar fornar gönguleiðir á Snæfellsnesi.
Vegir í Helgafellssveit
Björn Jónsson (1902-1987)
Innri-Kóngsbakka
“Ég ætla að greina hér frá hvar voru aðal umferðarleiðir um Helgafellssveit og til Stykkishólms, áður en nokkur vegagerð þekktist eða hófst hér í sveit. En ég ætla, að fyrsta spor í þá átt hafi verið að brúa með grjóti yfir verstu fúakeldurnar, sem á leið manna voru, en þess var sérstaklega þörf í Þórsnesinu, en þar er landslagi þannig háttað, að þar skiftast á klappaholt og fúakeldur. Auk þessa mun hafa verið kastað steini úr götu, þar sem umferðin var mest. En vegagerð, sem heitið gat því nafni held ég að ekki hafi hafist fyrr en á síðasta tug nítjándu aldar.
Leiðin frá sæluhúsinu á Kerlingarskarði til Stykkishólms, ef farið var á hestum, lá inn hjá Norðara Dysi. Það fram undan voru Þrengslin. Það var bratt einstigi í vestur rótum Kerlingarfjalls. Brátt var þá komið niður á Sandinn, en þar var greið leið á vesturbakka Furu, sem þarna á upptök sín. Þegar komið er framhjá grjóthólum sem þarna eru er beygt til hægri og farið yfir Furu, og er þá komið yfir á Sneiðina, en í norður brún hennar liggur leiðin niður bratta sneiðinga, sem farnir eru í mörgum krókum. Þegar komið er niður úr Sneiðinni, er greiðfær leið til austurs merð Kerlingarhlíðinni inn að Grettistaki, en þar er áningarstaður. Þaðan liggur leiðin spottakorn inn með hlíðinni og svo niður Stórholtin. Þarna eru góðar reiðgöturniður að Bakkaá. Yfir hana var farið á vaði við rætur á melarana, sem er fyrir ofan Gríshólslækinn. Áfram liggur vegurinn niður með Bakkaá að austanverðu, yfir Gríshólslæk, niður Langáseyrar, og áfram með ánni niður að Bakkafossi. Þaðan liggur gata niður Hlíðina ofan í Tungu og niður í Amtsmannsbrekku, en hún er neðan Markholts. Í Amtmannsbrekku var sjálfagður áningarstaður. Áfram er svo haldið niður ármót og inn yfir Gríshólsá en þar greinist leiðin. Ef háfjara er, þá er styttra að fara niður Hofsstaðavaðal ofan í Haugsnes, niður yfir Flæðilæk og áfram niður fyrir Axlir, ofan á Skálholt, yfir Norðlingabrú, inn Hádegisás, og niður fyrir innan Ögrið. Þaðan inn með Axlarhausum, fyrir ofan Skaldárvatn og inn að Nesvogsbotni. Síðan er haldið inn með Nesvog og um Selskóg, ofan á Byrgisborg, yfir endann á Grensás og niður á Vatnsás, og mátti þá fara hvort heldur sem vildi inn Vatnsás og ofan í Maðkavík og þaðan Steinólfshöfðann niður á Pláss, eða fara af vestari Vatnsásendanum út í Ásklif niður á Húshala, þaðan niður á Lágholt, niður Silfurgötu ofan á Pláss.
Ef hásjávað var, þegar litast var um við Gríshólsá þá varð að fara niður Engjaskóg, inn með Berhól, inn yfir Taklæk (Saurasíki) inn Vogaskeið niður á Ambáttarholt, inn Stigamannaborg, inn með Illugabjörgum, yfir Rauðsteinalæk, upp Röngugötu, niður Munkaskörð, yfir Kýrbrú, inn með Klifsholti, niður Kvíastöðul, og þaðan inn fyrir Fell, niður Götuholt, niður fyrir Flæðilæk, niður Dældarkotsmela, fram hjá Kaupmannaborg, út fyrir Nesvogsbotn, og þar komið á veginn inn Selskóg, sem áður er lýst.
Leiðin innan frá Álftafirði var á svipuðum slóðum og vegurinn nú. Farið var yfir Vaðilshöfða við botn Álftafjarðar, út hjá Bólstað (bær Arnkels goða), og niður Úlfarsfellshlíð að Hrísasneiðingum. Þaðan framan Úlfarsfells, yfir Krákunes, út fyrir Þórsá. Upp á Hrísamela. Einnig mátti fara af Vaðilshöfða, upp hjá Úlfarsfelli, út yfir Úlfarsfellsháls, niður hjá Hvammi (bæ Þórólfs bægifóts) niður yfir Þórsá út Hrísamela, út yfir Svelgsá, fyrir sunnan Svelgsártún. Út yfir Hauksá, upp Hólahvörf, út í Söðla, niður yfir Brettingsstaðalæk, niður yfir skógarásinn hjá Fögrubrekku, fram hjá Kallhamri, niður Kallhamarsbrekku, og niður á Fornastöðul hjá Saurum. Þaðan niður Sauratögl, og niður á Vogaskeið, og komum þar á götuna sem hér að framan er lýst.
Ef ferðinni er heitið út Helgafellssveitina, þá var farið af Hólahvörfum, upp Hauksdal, fyrir ofan Skálafell, og út og niður Vatnsdal, út Bólin, niður með Drápuhlíðartúnum niður hjá Akranesi, út Drápuhlíðarmela, ýfir Gríshólsá út Hlíð, yfir Bakkaá, á vaðinu fyrir ofan Bakkafoss, og þaðan út Skeið.
Leið úr Eyrarsveit lá um Tröllaháls, in yfir Árnabotn, að Fjarðarhornsá, inn Fjarðarhornsleiti inn hjá Snorrastöðum, að Hraunsfirði, niður yfir Þórsá, inn Hornsmýrar inn með hraununum að Hraunklifi. Hraunkanturinn er þarna 10-12 m hár, og varð því að laga þarna veginn, svo fært væri hestum. Þarna hafði verið klauf í hraunkantinum og þar hefir verið jafnaður botninn og flórað með hellum en þetta var svo bratt og skreift á hellunum, að fæstir kærðu sig um að sitja á hesti yfir klifið. Leiðin lá svo inn Gagngötu inn í Kúlur, niður Smáhraun, að Berserkjahraunsbæ, yfir ………………. Með Höfðum og niður á Hraunháls, niður Hraunhálsmelainn yfir Stafá, áfram inn fyrir ofan Kóngsbakka, inn Kóngsbakkahvörf, inn skeiðið að Kljáá, og þaðan áfram inn fyrir Kljárlæk, og þaðan inn á Skeið þangað sem komið var þegar komið var innan úr sveit.
En nú beinum við af þessum vegi og förum niður Bringur og inn fyrir ár, og komum þá á veginn sem ápur er lýst inn Engjaskóg. Þegar komið var inn á Kóngsbakkahvarfið, þá var litið á hvernig stæði á sjávarfalli. Væri lágsjávað eða fjara, þá var kanski farið af hverfinu niður fyrir innan Klettenda, niður fyrir utan Sandvíkurlæk, og ofan í Sandvík. Þaðan var haldið inn með Kljárbökkum, inn fyrir neðan Bug, og inn fyrir neðan Staðarbakkatún, og áfram inn að Sauðskeri. Þá var farið niður Marbakka og komið ofan í Haugsnes, og þar á götum sem áður er lýst á leið í Stykkishólm. Að vetrinum, ef þungfært var vegna snjóa, þá var oft farið um þessar fjörur. Um litlar fjörur var stefnan tekin frá Sauðskeri á Arnarstaði og eftir að komið var af fjörunum, þá var haldið áfram fyrir neðan Arnarstaðatún, og inn með Arnarstaðavog, og niður fyrir vogsbotninn og inn á Arnarstaðagötu, á leið til Helgafells, en þegar komið var á móts við Bygghamarstún, þa´beygt niður fyrir Flæðilæk og komið á þá götu á Deildarkotsmelum, sem hér framan hefir verið lýst.”
Ekvador valdi dollarann$
21.5.2014 | 08:18
Árið 2000 kaus ríkið Ekvador í Suður Ameríku að taka upp einhliða ameríska dollarann sem opinbera mynt landsins. Íbúum var gefið eitt ár til að skila inn sinni gömlu mynt. Ekvador hafði barist við mikla spillingu og verðbólgan var um 60% árið fyrir umskiftin.
Hver er reynslan og getum við lært eitthvað af þessu, í sambandi við umræðu varðandi íslensku krónuna? Aðstæðurnar eru að vísu allt aðrar en hér, en samt er fróðlegt að skoða hvað hefur gerst eftir dollarvæðingu landsins. Í Ekvador eru um 16 milljón íbúar, sem flytja út banana, olíu, rækjur, gull og bóm. Árið fyrir dollaravæðinguna hafði efnahagur dregist saman um 7.3% og algjört hrun blasti við. Árið 2000 snérist þetta við og efnahagur óx um 2.3%, 5.6% árið á eftir, 6.9% árið 2004 og svo framleiðis.
Önnur jákvæð hlið er sú, að Ekvador getur ekki leyst sig út úr efnahagsvanda í framtíðinni eingöngu með því að prenta peningaseðla. En því fylgir sú neikvæða hlið að ríksistjórn Ekvador ræður ekki að öllu leyti yfir mikilvægum ákvörðunum um mynt sína, heldur er sú stjórn í ríkisbanka Bandaríkjanna í Washington DC.
Hvernig tóku íbúar Ekvador nýja dollaranum? Hé kom í spilið alveg ótrúleg tilviljun. Það vildi svo vel til, að sama árið, 2000, gaf ameríski bankinn út gullpening, sem er eins dollara virði og á honum er greypt mynd af indíánakonu, með barn sitt á bakinu. Þetta er hin fræga Sacagawea, sem veitti landkönnuðunum Lewis og Clark leiðsögn vestur yfir Klettafjöllin og að strönd Kyrrahafsins árið 1804. Hinir innfæddu í Ekvador sáu strax andlit sem þeir þekktu og vildu helst engan annan pening nema gullpeninginn með mynd Sacagawea. Síðan hefur nær allur forðinn af þessum gullpening flutst frá Bandaríkjunum til Ekvador.