Nína Tryggvadóttir og Surtseyjargosið
28.12.2009 | 12:58
Einn af nemendum Finns Jónssonar og Ásgríms Jónssonar um skeið var Nína Tryggvadóttir (1913-1968) frá Seyðisfirði. Hún dvaldi lengi í New York þar sem hún málaði frábær abstrakt-expressionista verk sem vöktu mikla athygli. Þótt verk hennar væru öll abstrakt, þá var kjarni þeirra íslenskt landslag. Það er augljóst í tveimur málverkunum sem hún nefndi Gos, máluð rétt eftir að Surtseyjargosið hófst 1963. Þessar myndir eru í Listasafni Íslands: olíumálverkið Gos 1964 (131,5 x 105 sm; LI-01383) og krítarmynd sem er sennilega skyssa fyrir málverkið (LI-04168). Nína mun hafa flogið yfir eldstöðvarnar og litavalið ber það með sér, því það endurspeglar liti og áferð í gosmekkinum og í öskunni á ungu eynni sem var að vaxa úr hafi. Myndformið hefur öll einkenni mynda Nínu, ferhyrningar eða kassar eru áberandi, en hér ná þeir vel að gefa hugmynd um sprengingu og mikinn kraft í gosinu, sem tætir allt í brot. Mér finnst þó litavalið einstaklega vel heppnað, þar sem brúnu littónarnir ná alveg litunum á gosmekkinum og öskunni í Surtseyjargosinu, eins og meðfylgjandi myndir sýna. Annars er ferill Nínu í Bandaríkjunum mikil sorgarsaga, þar sem hún varð fyrir árás McCarthyismans. Í kalda stríðinu milli Bandaríkjanna og Sovíetríkjanna eftir seinni heimstyrjöldina greip um sig ótti mikill í Bandaríkjunum sem beindist að kommúnistum. Höfuðpaurinn í baráttunni á móti Sovíetríkjunum og kommúnisma var öldungardeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy. Hann stýrði þingnefnd sem gerði stöðugar árásir á meðlimi verkalýðsfélaga, á marga menntamenn, alla vinstri menn, og þá sem á einhvern hátt höfðu verið tengdir við stefnur kommúnista. Margir voru settir á svarta listann, nokkrir fangelsaðir og sumum vísað úr landi. Listinn er alveg ótrúlegur. Þarna er að finna mikinn hluta af besta liðinu úr Hollywood, og menn og konur á borð við Aaron Copeland, Leonard Bernstein, Charles Chaplin, Paul Robeson, Lena Horne, Luis Bunuel, Dorothy Parker, Dashiell Hammett, Pete Seger, Gypsy Rose Lee. Nína Tryggvadóttir lenti í þessum hóp, sem að sumu leyti má líta á sem mikinn heiður. Þegar stjarna Nínu í New York var að rísa sem hæst, þá var henni bönnuð landvist í Bandaríkjunum í um tíu ára bil, þar sem hún var talin hafa sambönd við kommúnista. Hún var komin inn í innsta hring listamanna í New York þegar þetta gerðist og útlegðin var mikið áfall fyrir hana og fjölskyldu hennar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.