Hvað er ég að gera á eynni Santóríni?

Thera caldearÞessa vikuna, í lok september mánaðar 2009 er ég staddur á einum fegursta stað jarðar, til að taka upp sjónvarpsefni með BBC TV, fyrir heimildakvikmynd um þjóðsögnina um týnda landið Atlantis og um sprengigosið á Santóríni á Bronzöld.  Hér til vinstri er mynd frá Santóríni, sem sýnir hamravegginn sem umlykur eldfjallsöskjuna.    Hvað eiga þjóðsögnin og sprengigosið nú sameiginlegt?Eitt þekktasta eldgos mannkynssögunnar varð á Bronzöld, um 1627 árum fyrir Krist, þegar eyjan Santóríni eða Þera gaus í miklu sprengigosi í Eyjahafi, fyrir sunnan Grikkland. Þá var ríkjandi mjög blómleg og sérstök menning á Krít og í Eyjahafi sem er kennd við Mínóana. Í fornum þjóðsögum Grikkja er talað um Mínos, konung á Krít og hirð hans. Þegar Arthur Evans uppgötvaði höllina Knossos á Krít um aldamótin 1900, þá benti hann á samræmi milli fornminjanna þar og þjóðsagnarinnar um Mínos og hefur Bronzaldarmenningin á Krít og í Eyjahafi síðan verið kennd við Mínos konung. Mínóska menningin er einstök, listræn með afbrigðum, rík og Mínóar voru frábærir sjómenn sem ráku verzlun og siglingar um allan eystri hluta Miðjarðarhafsins. Á seinni hluta Bronzaldar varð skyndilega mikil hnignun á mínósku menningunni og hún leið undir lok. Þá tók við menning á meginlandi Grikklands sem kennd er við Miceneum, og síðar kemur hin klassíska forn-gríska menning um 500 fyrir Krist. En hvað veldur hini hröðu hnignun mínósku menningarinnar? Var það vegna náttúruhamfara? Var það eitthvað líkt því og lýst er í þjóðsögninni um hið horfna land Atlantis? Á fjórðu öld fyrir Krist skráir gríski heimspekingurinn Plató fyrst þjóðsögnina um eynna eða landið Atlantis sem hvarf í hafið, en hann byggir söguna á frásögn Sólons frá um 600 fyrir Krist. Sólon hefur hins vegar sögnina eftir egypskum prestum. Plató var stofnandi hinnar frægu Akademíu í Aþenu, en þar var sjálfur Aristóteles einn af nemendum hans. Saga Platós er í stórum dráttum þannig, rituð um 360 fyrir Krist: “Á eynni Atlantis var stórt og voldugt ríki sem réði yfir allri eynni og mörgum öðrum eyjum, og einnig hluta meginlandsins. En þá urðu miklir jarðskjálftar og flóð og á einum skelfilegum degi og nóttu hvarf eyjan Atlantis í hafið.”Margir fræðimenn hafa stungið upp á að þjóðsögnin um horfnu eynna Atlantis hafi orðið til vegna sprengigossins mikla á Santóríni á Bronzöld. Ég er á þeirri skoðun, að það sé eitthvað sannleikskorn á bak við flestar þjóðsagnir, eins og stórkostlegur náttúrufyrirburður sem hefur verið endursagður um alda raðir og breytist og margfaldast með tímanum. Það er því alls ekki fráleit að athuga nánar hvort gosið og þjóðsögnin séu skyld fyrirbæri. Í ritum sínum Timaeus og í Critias lýsir Plató hinu týnda Atlantis sem hringlaga eyju, og er stórt hringlaga lón eða flói í miðri eynni. Sund tengja innri flóann við hafið. Landafræði Atlantis er þá reyndar mjög lík landafræði Santóríni fyrir gosið mikla á Bronzöld. Það er einnig margt í lýsingu Platós á menningu íbúa Atlantis, sem minnir á mínósku menninguna á Krít. Santorini1866Myndin til hægri sýnir eynna Santóríni um 1866, og kemur vel fram hringlaga askjan, og virka eldfjallið í miðri öskjunni. Ég kom fyrst til Santóríni í september 1975. Þá var ég á hafrannsóknaskipinu Trident, og verkefni okkar var að kortleggja gjóskufall frá Santóríni á hafsbotni, allt frá eynni og til stranda Tyrklands og Egyptalands. Á þeim tíma var tæknin til að kanna hafsbotninn frekar frumstæð. Við sýndum samt framá að gjóskufall frá gosinu var mjög útbreitt um allan eystri hluta Miðjarðarhafs, en okkur tókst ekki að ná sýnum að hafsbotinum umhverfis eynna sjálfa. Ein höfuð niðurstaða rannsókna okkar árið 1976 var sú, að gosið hefði um 39 rúmkílómetrum af efni frá Santóríni, og var þá gosið á Bronzöld orðið með allra stærstu gosum mannkynssögunnar, en ekki þó það stærsta (það er Tambóra gosið í Indónesíu árið 1815). Ég vissi að mikill meiri hluti af efni som kom upp í gosinu væri á hafsbotni (sennilega um 90%), og að þetta efni væri aðallega vikur og aska sem hafði borist út í og yfir hafið í gjóskuflóðum. Næstu þrjátíu árin gerði ég ítrekaðar tilraunir til að koKortma af stað leiðangri þar sem hafsbotninn umhverfis Santóríni væri rannsakaður með nýjustu tækni, einkum með fjarstýrðum og ómönnuðum kafbát. Loks varð sá draumur að raunveruleika vorið 2006, en þá stýrði ég tveimur hafrannsóknaleiðangrum í Eyjahafi. Hinn fyrri var á gríska skipinu Aegaeo, og þá mældum við þykkt og útbreiðslu setlaga umhverfis Santóríni. Strax á eftir stýrði ég leiðangri á bandaríska skipinu Endeavor, en þar höfðum við um borð einn allra besta fjarstýrða kafbát sem til er, og ber hann nafnið Hercules. Allt um leiðangrana tvo til Santóríni og niðurstöður þeirra má lesa á vefsíðu okkar: http://www.uri.edu/endeavor/thera/ Kortið til vinstri sýnir útbreiðslu gjóskulagsins frá gosinu á Bronzöld, en jafnþykktarlínur á laginu eru í metrum.  Við sýndum fram á að það er um 20 til 30 metra þykkt lag af gjóskuflóðsefni á hafsbotni allt í kringum eynna og nær lagið að minnsta kosti 30 km í allar áttir frá Santóríni. Þessar nýju niðurstöður gerðu kleift að setja fram miklu nákvæmari mynd af stærð gossins á Bronzöld, og getum við nú sagt með vissu að það hefur verið um 60 rúmkílómetrar, eða næstum tvöfalt stærra en við áætluðum áður. Þar með urðu líkurnar miklu meiri á að gosið hefði haft afgerandi áhrif á mannlíf í öllu Eyjahafi, og þar á meðal má telja víst að gosið hefði myndað tsunami eða flóðbylgju þegar svo mikið magn af gjósku streymir út í hafið. Sama sumar fundust jarðmyndanir á norður og austur strönd eyjarinnar Krítar, sem eru flHesiodóðbylgjuset og frá Bronzöld. Tengslin milli þjóðsagnarinnar um Atlantis og gossins mikla á Bronzöld verða einnig miklu traustari nú. En það eru hugsanlega önnur tengsl milli eldgossins og forn-grískra sagna. Um 700 fyrir Krist orti Hesiod, einn allra fyrsti af skáldum grikkja, kvæðið Theogónia, sem fjallar að miklu leiti um hina flóknu ættfræði guðanna. Í kvæðinu kemur fram stórkostleg lýsing á orustu guðanna við risana á Olympus fjalli, en þar munaði mjóu að hin illu öfl risarnir sigruðu, sem hefði orðið endir heimsins eins og við þekkjum hann í dag.  Salvatore Rosa gerði merka mynd af orustunni, sem er sýnd hér fyrir neðan.     Robert Graves var sá fyrsti sem benti á að í lýsingunni á orustunni miklu í Theógóníu koma fram þættir sem minna mikið á stórkostlegt eldgos úti í hafi. Til dæmis er rætt um að jörðin öll brenni og að hafið sjóði af hita, og að stór björg fljúgi um loftið, að miklar sprengingar heyrist og svo framvegis. Hesiod var ættaður frá eyjunum skammt fyrir austan Santóríni og er ekki fráleitt að forfeður hans hafi varðveitt sagnir af gosinu mikla. Það er rétt að benda á, að enginn sem var innan um 50 km fjarlægð frá Santóríni hefði komist af í gosinu. Þeir sem voru utan hættusvæðisins og sáu gosið hafa vafalítið skort einfalda skýringu á þessu einstaka náttúrufyrirbæri og strax leitað yfirnáttúrulegra skýringa. Hver skýring var betri en sú, að hér væru guðirnir Evaog risarnir að berjast?Jæja, við erum nú búnir að taka upp sjónvarpsefnið fyrir BBC og kominn tími til að yfirgefa Santóríni aftur. Ég mun fara með trega frá gömlum vinum mínum og frábærum gestgjöfum í litla þorpinu Akrótíri, sem reka gistihúsið Carlos Pansion, einkum ekkjunni Evu (sjá mynd hennar hér til vinstri) og börnum hennar Arsenio, Maríu og Raphael. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Afar áhugavert. Það er stórvöntun á heildstæðri heimildamynd um þetta efni. Sérstaklega finnst mér skorta upp á tenginguna við Exodus, plágurnar í Egyptalandi og Nóaflóðið.

Ég er snannfærður um að mýtur gamlatestamentisins eiga rætur sínar að rekja í þessa atburði.  Það virðist þó ekki vera beint orthodox að nefna það gagnvart Kristnum trúarbrögðum, sem vilja absolútt standa á því að fjandans bókin sé heilagur sannleikur.

Mér finnst líklegt að þessir atburðir séu grunnurinn undir eingyðistrúnni, heimsendaelementinu og hinum refsandi og oftopafulla Guði kristinna. Það er kannski efni í sér mynd að rekja saman þessa þætti. 

Eftir því sem mér hefur skilist er sagan af Atlantis sé allegoría hjá Plató, sem hugsanlegt að vísi lauslega til þessara viðburða, en hef litla trú á því að verið sé að tala um alvöru land eða heila menningu.  Mínóska menningin hnignaði en hvarf ekki við þetta eins og þú minnist á.

Eyjan í miðjum gígnum, var jú byggð og þar var lítil borg, en tæpast var verið að tala um land. Það þarf að teygja sig fjandi langt til að fá það heim og saman.

Að Sólon hafi fengið sögnina frá Egypskum presti er vitnisburður um það að þessir atburðir voru á sveimi á þessum slóðum. Plágurnar í Exodus tala um myrkur að degi, blóðrauða níl, skordýraplágur, öskufall, uppskerubrest, eld af himnum, eldstólpa etc. Það er varla hægt að hugsa sér myndrænni lýsingu á akkúrat svona fyrirbrigði. 7. ára plága, stemmir ágætlega held ég.

Ég vildi nú ekkert spæla þig eða gera líti úr þessu verkefni, en mér finnst miklu athyglisverðara þetta með biblíutenginguna og sagnir Gilgamesh, en tengslin við allegóríu Platós.

Þaetta vakti fyrst athygli mína í skrifum Graham Philips (Act of God, minnir mig) en ég hef grúskað svolítið í trúarsögunni. Það er allavega ljóst að Gamla testamentið er að mestum hluta fabúla frá 6. öld fyrir krist, en einhver kveikja er að sögunum. Sumar frá Egyptum aðrar frá Babyloníu og Assyriu m.a.

Hlakka til að sjá þetta. Þú meldar kannski sýninguna.

Jón Steinar Ragnarsson, 30.9.2009 kl. 19:17

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég hef haldið mig að mestu við vitneskjuna sem við fáum úr jarðfræðinni, en látið aðra um að kanna tengslin við fyrirbæri sem koma fram í gamla testamentinu.

Hvað snertir Nóaflóðið, þá er það nær örugglega ekki tengt gosinu mikla á Bronzöld, en mjög sennilega tengt því þegar Miðjarðarhaf flæddi inn í Svartahafið, fyrir um 5500 árum. Nú er meira og meira að koma fram sem styrkir þðá hugmynd, einkum varðandi fornleifamynjar á 150 m dýpi í Svartahafinu. Ég verð víst að blogga um það síðar.

Ég skýrði ekki náið áhrifin frá santóríni gosinu, en þau hafa verið margvísleg og miklu meira en menning Mæinóa varð fyrir barðinu. Við höfum nú vitneskju um flóðbylgju samtíma gosinu, sem var 8 til 12 m yfir sjávarmál, á austur og norður ströndum Krítar. Vafalaust hefur hún gert mikinn usla í flota Mínóanna og allri byggð með ströndum eyjarinnar. Önnur áhrif eru tengd loftslagi, gjóskufalli og áhrifum gjóskuflóða sem fóru yfir sjóinn.

Haraldur Sigurðsson, 5.10.2009 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband