Hetjudáð Graah sjóliðsforingja á Austur Grænlandi
28.3.2018 | 13:43
Á átjándu öldinni kviknaði áhugi meðal fræðimanna á Norðurlöndum um að leysa gátuna um afdrif norrænna manna á Grænlandi. Þar er fremstur í flokki norðmaðurinn Hans Poulsen Egede (16861758), sem hefur verið nefndur Postuli Grænlands. Árið 1711 sótti Egede um leyfi hjá Friðrik IV Danakonungi til að stofna nýlendu á Grænlandi, í þeim tilgangi að leita að týndum byggðum norrænna manna þar. Hann sigldi loks frá Bergen til Grænlands tíu árum síðar, árið 1721, á tveimur skipum. Hann kannaði suðvestur strönd Grænlands og fann hvergi norræna menn eða afkomendur þeirra á þeim slóðum. Ekki tókst honum að kanna austur strönd Grænlands vegna ísa, en hann og aðrir voru sannfærðir um að hin forna Eystribyggð norrænna manna væri staðsett þar. Egede helgaði sig þá að trúboðastörfum og hóf nú að kristna Inúita á vestur strönd Grænlands og tók sér í því skyni fimmtán ára búsetu í Godthaab, sem nú er höfuðborg Grænlands, Nuuk. En Egede gafst upp við fekari leit að norrænum mönnum á þessum slóðum.
Eitt hundrað árum síðar vaknar áhugi meðal Dana aftur að kanna málið frekar og reyna að leysa ráðgátuna um hvarf norrænna manna á Grænlandi. Á dögum Friðriks VI Danakonungs var gefið út ítarlegt skipunabréf (sex síður) til Wilhelms A. Graah sjóliðsforingja hinn 21. febrúar 1828, þess efnis að hann skyldi stýra leiðangri konungs til kanna austur strönd Grænlands, frá Hvarfi og allt norður til Scoresbysunds við 69oN. Höfuðtilgangur leiðangursins var að leita að vitneskju eða leifum íslensku nýlendunnar, sem talin er hafa verið á þessum slóðum. Undir skipunarbréfið skrifar A.W. Moltke greifi, stjórnarráðsforseti Danakonungs. Skömmu síðar (1848) varð Moltke greifi kosinn fyrsti forsætisráðherra Danmerkur, en Moltke var stiftamtmaður á Íslandi 1819-23. Sennilega kom hugmyndin um Grænlandsleiðangurinn frá Moltke sjálfum.
Þá var vitað, samkvæmt frásögn í Íslendingasögum, að norrænir menn hefðu reist tvær byggðir á Grænlandi: Eystribyggð og Vestribyggð. Af eðlilegum ástæðum álitu menn á nítjándu öldinni að þessar byggðir hefðu verið staðsettar á austur og vestur strönd Grænlands. Margir töldu að hina fornu Eystribyggð væri að finna á suðaustur ströndinni, á því ókannaða svæði sem Danir nefna Kong Frederik VI Kyst. Þar væri því von um að finna ef til vill afkomendur íslensku landnemanna eða einhverjar leifar þeirra. Þessi eðlilega en ranga ályktun leiddi menn í miklar villur á sínum tíma. Kong Frederik VI ströndin nær yfir um 600 km langa strandlengju, sem fjölda af grunnum fjörðum, háum fjallgörðum fyrir ofan og dreif af smáeyjum. Allar aðstæður með suðaustur strönd Grænlands og í hafinu þar undan eru allt aðrar og miklu erfiðari en á vestur Grænlandi. Það stafar fyrst og fremst af Austur-Grænlandsstraumnum, en hann er sterkur straumur úr Íshafinu, sem fylgir ströndinni og ber með sér ógrynni af hafís í suður átt, meðfram austurströndinni. Af þeim sökum er hafið rétt undan suðaustur strönd Grænlands talið mjög erfitt eða jafnvel ófært mikinn hluta ársins.
Wilhelm August Graah (1793-1863) sjóliðsforingi var reyndur siglingafræðingur og landkönnuður. Hann hafði starfað við mælingar meðfram vestur strönd Grænlands árin 1823 og 1824. Einnig starfaði hann við mælingar umhverfis Ísland árið 1822 og á einu korta hans frá þeim tíma er ágæt mynd eftir hann af eldgosi í Eyjafjallajökli, sem ég hef bloggað um hér: https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1061162/. Ef til vill hefur hann kynnt sér íslenska menningu og sögu, því í skrifum sínum um norræna landnema Grænlands á tíundu öld kallar hann þá hreint og beint íslendinga, en ekki Norse eða nærræna menn. Hann er langt á undan sinni samtíð með að eigna Íslendingum landnám Grænlands! Jóni Dúasyni hefði líkað þetta, en hann vildi að Íslendingar endurheimti rétt sinn yfir Grænlandi frá Dönum.
Graah nemur fyrst land í þorpinu Frederikshåb (nú Paamiut) á suðvestur Grænlandi í lok maí árið 1828. Þaðan er haldið til Julianehaab (nú Qaqortoq). Hér í þessu héraði fréttir Graah af rústum frá tímum hinna íslensku landnema. Þar sem þær eru staðsettar á vestur strönd Grænlands gerir Graah ráð fyrir að þetta muni vera hin forna Vestribyggð íslendinganna, en það kom í ljós löngu síðar að hér var hann reyndar kominn í sjálfa Eystribyggð. Það má segja um Graah, að hann leitar langt yfir skammt. Graah hófst nú handa við að láta smíða konubáta eða umiaks fyrir leiðangurinn í austur. Grindin er úr timbri og bundin saman, en síðan er strekkt vatnsheld húð eða skinn af fimtán til tuttugu selum á grindina. Allt hár er rakað af húðinni og mikið magn af selafeiti borin á alla sauma í lokin, til að gera bátinn vatnsheldan. Bátarnir eru léttir og meðfærilegir en ekki einn einasti nagli fer í smíðina. Umiak bátar hans Graah voru um 10 til 12 metrar á lengd og rúmir tveir metrar á breidd.
Graah skráði upplýsingar um leiðangur sinn í merka bók: Undersögelses-reise til östkysten af Groenland: efter Kongelig Befaling, ulført i Aaren 1828-31. Bókin kom út í Kaupinhöfn árið 1832. Þar er að finna mynd af Graah og einnig vandaða og litaða mynd af konubát, sem róið af konum. Ein konan er nakin að ofan, en önnur situr við stýri og með barn í poka á bakinu. Nokkru sunnar á vestur ströndinni er Inuítabyggðin Nanortalik og þangað leitar Graah næst til að fá innfædda leiðsögumenn til fararinnar. Hér hefur Graah vetursetu og undirbýr sig frekar fyrir leiðangurinn til austurs.
Vorið efir leggur Graah af stað, með tvo umiak eða konubáta sína, en áhöfnin var tíu Inuit konur, fimm Inuit karlar, túlkur og náttúrufræðingurinn Vahl. En ferðin gekk erfiðlega í fyrstu vegna hafíss. Þeir þurftu til dæmis að dvela 25 daga á einni eyju til að bíða þess að ísinn færi frá ströndinni. Loks komust þeir af stað í lok apríl og náðu til Aluk syðst á austur ströndinni. Ferðin gekk hægt og erfiðlega, vegna vinda, hafíss og bylja. Hann sendir til baka náttúrufræðinginginn, túlkinn og mikið af Inuítunum frá vestur ströndinni. Graah mannar bátana nú fólki af austur ströndinni.
Loks náði Graah norður til Dannebrog eyjar (nú nefnd Kivdlak, 65° 15′ 36° N), sem er um 100 km fyrir sunnan Kulusuk. Hér sný Graah aftur og hinn 1. október tekur Graah sér vetursetu á eynni Nugarfik (nú nefnd Imaersivik) við 63° 30′ N. Þar reisir Graah moldarkofa fyrir allan hópinn. Veturinn var harður og kostur lítill. Loks tekur að vora og hinn 5. apríl 1830 leggur hann af stað en verður að snúa til baka í húsaskjól í kofanum hvað eftir annað vegna illveðurs og ísa á hafinu. Í einni tilrauninni neyddust þeir til að hafa viðurvist á skeri í hálfan mánuð fyrir norðan Alikajik, vegna veðurs. Seinni partinn í júlí var neyðin mest og Graah átti einnig við veikindi að stríða. Þá var allur matarforðinn á þrotum og þeir átu nú hundamat og tuggðu gömul selskinn. Þá eru eftir af áhöfninni aðeins einn maður og tvær konur, auk Graah. Loks komust þau suður á bóginn og Graah nær loks til Nanortalik í ágúst 1830. Ferðinni var lokið en ein höfuð niðurstaðan var sú, að engar leifar eða minjar fornra Íslendinga var að finna á suðaustur ströndinni. En Graah tókst að gera margar mælingar og safna verðmætum upplýsingum um þetta ókannaða svæði. Einnig eru rit hans sjór af fróðleik um lifnaðarhætti og siði Inúítanna á suðaustur Grænlandi, sem höfðu haft lítil eða engin samskifti við Evrópubúa.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Grænland | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst það nú algert auka-atriði
m.v. þá kenningu um að jörðin gæti verið hol að innan:
Hérna er hægt að finna mann með Dr.gráuðu sem að fullyrðir um að það sé staðreynd: Dr.Frank Strangers:
(Annað myndbandið talið neðan frá á þessari bloggsíðu)
"HOLLOW EARTH / THE SECRET INNER EARTH WORLD (FULL VIDEO):
https://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1286802/
Hver gæti verið afstaða þín til þeirrar kenningar?
Jón Þórhallsson, 28.3.2018 kl. 14:08
Þetta kemur umfjöllun minni um Grænland akkúrat ekkert við, en maðurinn er greinilega bjáni. Allir geta keypt sér doktorsgráðu einhversstaðar í dag.
Haraldur Sigurðsson, 28.3.2018 kl. 14:17
Skemmtileg lesning. Það eru kenningar um að þeir hafi farið vestur yfir haf og talið að þeir hafi blandast mönnum þar. Það er alveg heilt vör'u kerfi norðan frá Baffinseyju ug suður til Nýfundnalands. Sunnan við Leifsbúð í hæðunum þar eru þrívörður og miðvarðan bendir á norður odda Nova Scotia. Svo eru vörðu system niður Nýja England sem hafa verið aldursgreindar þ.e. jarðvegurinn undir þeim sem 800 ára en það finnst svo margt sem bendir á veru Íslendinga og amerikanin þ.e. NEARA fæelagsmenn segja líka Íslendingar nema academian. Páll sjálfur segir að hann sé bínn að finna Kjalarnes. Sjálfur hef ég stundað Rannsóknir á þessi NE svæði og svo í ND þar sem ég fann 464.000 feta hring merktan Vörðum, syðst þar af þrívörður og KRS rúnasteinninn í miðju.Vör'urnar voru í sólstöðu átt eins og rangárhringurinn.
Ég fann með félögum mínum á RI nálægt fylkismörkum RI og Conneticut smá byggð með hringlaga garði vel sokkin með eins og þar hefði verið kirkja og kirkjugarður Hringurinn var 90 fet innanmál plús 3 fet þykkir veggir. Engin hefir snefil áhuga á þessu. Það þarf ekki nema jarðsjá til að skoða garðinn.
Þökk Valdimar.
Valdimar Samúelsson, 28.3.2018 kl. 21:01
Ekki rétt Valdimar, þú sendir mér um þetta efni. Eins og þetta leit út frá mínum bæjardyrum, tel ég það ekki vera minjar eftir norræna menn. Það sagði ég þér. Ég hvatti þig einnig til að gera eitthvað í málunum, en ef sérfræðingar í Connecticut eða Rhode Island eru ekki fáanlegir til að skoða þetta, er lítið hægt að gera. Jarðsjár gefa alls ekki svör við öllu. Gott dæmi um fornleifaspámennsku er konan sem fundið hefur svo margar minjar í Egyptalandi með hjálp gervitunglamynda. En henni brást bogalistin þegar hún taldi sig hafa fundið nýjar minjar um norræna menn á Nýfundnalandi. Hún fann ekki svo mikið sem pýramída og hefur dregið sig í hlé á norðurslóðum eða er skriðin aftur í hlýjan eyðimerkursandinn.
FORNLEIFUR, 29.3.2018 kl. 08:02
Þakka þér fyrir góða grein Haraldur.
FORNLEIFUR, 29.3.2018 kl. 08:04
Þakka Fornleifur. Ég veit mínu viti og þú þínu. Fornleifafræðingar í Rhode Island fá engan pening í rannsóknir og allt byggist á NEARA sem er áhugamanna fálag fornminja.Ef þeir finna verkefni sem þeim líst vel á þá ráða þeir fornleifafræðing eða semja við viðkomandi fylki. Þeir bjóða sig þvi fram sem sjálfboðaliðar eftir ákveðnum formúlum.
Kirkjugarðurinn í Vestur RI er ekki þekktur af akademíunni ennþá Hann hinsvegar passar inn í hring svipaðan rangár hringnum allt miðað við sólstöðu áttir þar.
Ég get líka sagt frá stein refagildrunum sem eru í hundraða tali sem sérfræðingar þar telja vera staður sem þú skilur eftir mat fyrir guðina. Sérðu minni þeirra er það gott að þeir mundu eftir að þarna var sett beita en tímarnir breyttu því á að þetta væri fyrir guðina.
Ég á töluvert af myndum.
Valdimar Samúelsson, 29.3.2018 kl. 12:24
Haraldur síðan Graah var þarna hafa margar rústir fundist. Félagi minn fann stein og torf hlaðnar rústir við flóan við Scoriby sundið á Austurströndinni sem hafa ekki verið bráðabyrgða en samt ekki venjuleg norræn bygging.
Fornleifur. Ég er ekki að segja að það hafi verið samfeld byggð á NA strönd bandaríkja heldur verslunarstaðir með leifi heimamanna eins og lög gerðu ráð fyrir í okkar lögum. Verslunarmennir hafi kennt heimamönnum að byggja steingildrur eða byggt sjálfir. Þær finnast á Norðurslóðum líka eins og Ugava og annarstaðar nálægt Íshafinu. Og aftur eins og Jón Dúason minnist á í bókum sínum. Spurning hvar eru síðustu handritin hans eru.
Valdimar Samúelsson, 29.3.2018 kl. 13:43
Valdimar inn skoski, margir veiðimenn frá Frakklandi og t.d. Skotlandi voru þarna á ferðinni, en indíánar kunnu einnig að búa til gildrur.
Varðandi Jón Dúason, svo er ég viss um að það sem eftir hann lá af handritum hafi lent á Landsbókasafni. Í minningargreinu í Mbl. segir frá því að því mikilvægasta hafi verið bjargað úr húsbruna.
Hringlaga rústir geta veið svo margt, en snið yfir garðlagið , myndi fljótlega sýna hvers kyns er. Þú og vinir þínir verðið að finna ungan og upprennandi fornleifafræðing og fá viðkomandi í för með ykkur - en verða honum ekki reiðir ef hann finnur hringleikahús. Kannski er þetta einkajörð og enginn áhugi á krukki? Það þýðir lítið að vera önugur yfir vantrúa mönnum eins og mér. Enginn er að stoppa ykkur. Áhugamenn hafa oft fundið áhugaverðustu hlutina. Meira get ég ekki gert fyrir ykkur.
FORNLEIFUR, 29.3.2018 kl. 16:23
Fornleifur engin svekktur yfir þínum upplýsingum enda gætir þú ekki sannað né afsannað neitt. Ég veit að þú hefir fylgst með skagafjarðar uppgreftrinum. Ef þú tækir einn slíkan hringlagaðan stað með grunnveggi af kirkju og flyttir þarna út með bæjarstæðum, réttum og öllu já og staðurinn héti staður þú myndir segja að þetta er bara rugl. Garðurinn er líklega 800 hundruð ára og sést á toppinn af grjóthleðslunni 3 fet breidd 8 fet op í vestur 6 fet í suður og margt fleira. Þetta er langt frá mannabyggðum í dalverpi efst við vatnaskil. Ég ætla hinsvegar ekki að kaffæra neinn með mínum fróðleik samt gaman að spjalla. Kv Valdimar.
Valdimar Samúelsson, 29.3.2018 kl. 21:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.