Nation-building er orsök hryðjuverkanna
16.11.2015 | 21:52
Ég var í París hinn 7. janúar 2015, daginn sem hryðjuverkin voru framin í Charlie Hebdo. Ég var EKKI í París nú á föstudaginn, þegar nýju hryðjuverkin voru framin, þar á meðal í Bataclan hljómleikasalnum, aðeins um 300 metrum frá Charlie Hebdo. Reyndar var vettvangur hryðjuverkanna nú á svæði í austur hluta borgarinnar, sem mér finnst lítt spenandi, fyrir utan hinn einstaka Père Lachaise kirkjugarð, þar sem finna má leiði Jim Morrison (The Doors), Maria Callas, Oscar Wilde, Balzac, Delacroix ofl. Í París ríkir nú mikil sorg og allt er nú gert til að komast til rótar í þessu máli. En að mínu áliti eiga hryðjuverkin í París og víðar í heiminum undanfarið rót að rekja til aðgerða heimsveldanna á tuttugustu öldinni og í byrjun hinnar tuttugustu og fyrstu. Uppúr 1990 kom fram ein tegund af heimsveldisstefnu í Bandaríkjunum, sem fékk hið virðulega nafn nation-building. Það voru hugmyndafræðingar, sem störfuðu á vegum George W. Bush, George H W Bush og Tony Blair, sem voru helstu áróðursmenn fyrir nation-building og þeir eru oftast nefndir neocons, eða neo-conservatives. Fremstir þar í flokki voru Paul Wolfowitz, Dick Cheney og Donald Rumsfeld. Æðsta markmið neocons var að reisa Amerískt heimsveldi, þar sem ríkti Pax Americana eða Ameríski friðurinn. Einkum höfðu neocons augastað á mið-austurlöndum, þar sem auðlindir af olíu og gasi eru miklar. Það kemur ekki á óvart að margir neocons og einnig Bush fjölskyldan hafa sterk tengsl í olíufyrirtækjum og félögum tengdum olíuleit, eins og Haliburton, Schlumberger og Hughes Tool Co.
Já, en þú gengur bara ekki inn og tekur yfir landið og allar auðlindir þess? Nei, þeir höfðu aðra og smekklegri aðferð, sem þeir kalla nation-building. Í nær öllum miðausturlöndum var fólkið þá undir hælnum á harðstjóra eða herforingjaráði og lýðræði var af skornum skammti eða ekki neitt. Nú sáu neocons sér leik á borði: þeir lögðu til að Bandaríkin (og fylgifiskar þeirra, þar á meðal Bretar og einnig Ísland undir merki Davíðs og Halldórs í Irak) gerðust einskonar frelsarar eða brautryðjendur í nation-building eða þjóðarreisn, steyptu af stóli harðstjórn, kollvörpuðu mönnum eins og Saddam Hussein og stilltu upp stjórn auðsveipra heimamanna, sem væri þeim velviljuð og boðaði einnig lýðræði að nafninu til meðal fólksins. Við vitum vel hvernig þetta hefur mistekist í Írak, Afghanistan, Libýu og nær alls staðar, þar sem nation-building aðferðinni hefur verið beitt. Það hefur orsakað algjöra upplausn þjóðfélagsins, margra alda gamlar hefðir eru fótum troðnar, þjóðfélagið leysist upp. Undir stjórn harðstjóranna og herforingjaráðsins ríkti áður viss stöðugleiki í þessum löndum. Auðvitað voru mannrétindi þá fótum troðin, en samfélagið virkaði og naglar eins og Hussein gættu þess, að klerkastéttinni væri haldið í skefjum. Nú er efnahagur flestra þessara landa í rústum og öfgahópar múslima hafa náð fótfestu, stjórnin er veikburða og hefur ekki fylgi almennings. Því miður virðist svo að íbúar mið-austur landa séu ekki tilbúnir að leggja út í lýðræðislegt þjóðfélagskerfi. Heimsspekin og hugarfarið sem lýðræði byggir á virðist láta strax í minni pokann, þegar klerkarnir kalla fólkið til bæna, fimm sinnum á dag. Múhammeð trompar allt. Sama sagan er nú að endurtaka sig í Sýrlandi. Bashar al-Assad hafði nokkurn veginn stjórn á landinu, en vegna afskipta vesturlanda og annara erlendra áhrifa er stjórn hans í molum. Enn og einu sinni skapast þá ríkur jarðvegur fyrir hryðjuverkahópa, þegar gamla stjórnarkerfið er hrunið.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hagur, Mannfræði | Facebook
Athugasemdir
Bush eldri fór að ráðum raunsærra ráðgjafa og lét nægja að hrekja her Saddams Husseins út úr Kuveit.
Það tók vestrænar kristnar þjóðir nokkrar aldir að fara út úr myrkri miðalda inn í nútíma lýðræðisþjóðfélag frelsis, jafnréttis og bræðralags.
1978 héldu Kanar að í Íran væri að rísa nútímalegt þjóðfélag undir stjórn hins spillta keisara Resa Palevi og að búið væri að setja klerkana til hliðar.
1979 hrundi þessi stefna eins og spilaborg en það er eins og menn hafi ekkert lært 35 árum síðar.
Ómar Ragnarsson, 16.11.2015 kl. 22:15
Ómar
Reza ríkti frá unga aldri eftir föður sinn. Fyrirmynd þeirra var Ataturk og miklar umbætur voru gerðar í anda hans undir stjórn Reza. (Stalín reyndi mikið að vingast við hinn unga konung).
Reza urðu á mistök seint á ferlinum. Jimmy Carter sveik bandamann sem hafði verið vinveittur Bandaríkjunum frá Theranráðstefnunni (hljómar kunnuglega, sbr. Mubarak). Því fór sem fór.
Einar S. Hálfdánarson (IP-tala skráð) 17.11.2015 kl. 13:25
Margar af þessum einræðisstjórnum í Mið-Austurlöndum eiga rót sína að rekja til blöndu af arbaþjóðernisisma í bland við sósíalisma.
Það er vel hægt að ætla að umrótið í þessum heimshluta stafi að einhverju leiti af hugmyndafærðilegu tómarúmi sem hinn að mestu sálaði kommúnismi skilur eftir sig.
Íslam gengur vissulega á lagið og vissulega hafa verið klaufaleg inngrip vesturlanda, en það er ekki að sjá annað en að t.d. "vorið" í Sýrlandi hafi verið sjálfsprottið, sem og í Líbýiu, Túnis (þar sem lýðræðisöflin virðast enn hafa betur gagnvart ofríkisöflum) og Egyptalandi, en þar urðu menn að bakka þegar einreæðishneigðir islamistar ætluðu að yfirtaka lýðræðið. Meira að segja er Íran ögn að linast í ofstopanum.
Hún er m.ö.o ekki fullnægjandi þessi "vesturlönd á eftir olíunni" kenning til að skýra óróan á þessu svæði.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.11.2015 kl. 20:19
Þegar ég velti fyrir mér atburðum eins og árásinni á tvíburaturnana og nú hryðjuverkunum í París koma ætíð upp í hugann orð palestínska rithöfundarins og læknisins Ghada Karmi.
Ég tók viðtal við hana í London 2011 og þá sagði hún að Vesturlandabúar hefðu aldrei getað skilið hvaða áhrif stofnun Ísraelsríkis hafði í heimi araba. Þegar nýlenduríkin tóku að missa tökin á löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs var komið á fót ríki sem allt frá upphafi var byggt á landvinningum og brottrekstri frumbyggjanna í Palestínu. Ísrael var í augum araba vestræn nýlenda og í stað þess að Palestínumenn náðu að stofna sitt ríki líkt og þjóðirnar í kring var þeim skipað að deila landi sínu með aðfluttu fólki.
Dr. Björn Þórðarson skrifaði eftirfarandi árið 1950:
„Arabarnir í Palestínu töldu, að þessi sjálfsákvörðunarréttur ætti einnig að ná til sín. En af því varð nú ekki, og að þessu leyti var farið með þá sem sigraða þjóð. Þeir voru ekki aðeins settir undir forræði annarra, heldur sviptir heimild til að ráða nokkru um það, hvernig farið yrði með land þeirra. Vissum flokki útlendinga úr öllum heimi var boðið upp á að setjast að í landinu, og heimaþjóðinni var það alveg um megn, að spyrna hér á móti broddunum. Hin sigrandi stórveldi heimsins höfðu gert samþykkt um, að þetta land skyldi notað handa öðrum eftir þörfum“. (Gyðingar koma heim útg. 1950, bls. 145).
Frumkvöðull síonismans, Theodor Herzl, fór ekki í grafgötur með nýlendueðli ríkisins sem hann vildi stofna fyrir gyðinga. Í bréfi sem hann skrifaði árið 1902 til erkiimperialistans Cecil Rhodes (sem breska nýlendan Rhodesía ver nefnd eftir) falaðist henn eftir aðstoð breska heimsveldisins til að byggja upp ríki skv. hugmyndum síonista :
„Ég bið þig um að gefa yfirlýsingu um að þú hafir skoðað áætlun mína og fundið að hún er viðeigandi. Þú munt spyrja; hvers vegna leita ég til þín Hr. Rhodes. Það er vegna þess að áætlun mín er áætlun um nýlendustofnun“.
Hjálmtýr V Heiðdal, 18.11.2015 kl. 12:02
Hér að ofan hafa komið fram þau atriði sem ævinlega eru nefnd þ.e. "Ameríka á eftir olíunni" annars vegar og hins vegar stofnun Ísraelsríkis. Það gleymast algjörlega að wahhabistum í Saudi Arabíu ofbauð þegar Bandaríkjamenn höfðu konur í heliði sínu í Persaflóastríðinu og ekki nóg með það heldur voru búðir þeirra á heilagri jörð Saudi Arabíu. Þessi óhæfa varð til þess að mynduð voru samtökin Al Qaeda. Í Wikipediu standa þessi orð: «According to scholar Bernard Haykel, "for Al Qaeda, violence is a means to an ends; for ISIS, it is an end in itself." Wahhabism is the Islamic State's "closest religious cognate."»
Skúli Víkingsson, 18.11.2015 kl. 21:53
Nation-building er orsök hryðjuverkanna, segirðu? Ég sem hélt að orsök hryðjuverkanna væri, að hatursfullir brjálæðingar tóku upp vélbyssur og fóru að skjóta á óbreytta borgara. Svona veit ég nú lítið.
Theódór Norðkvist, 19.11.2015 kl. 14:08
Theódór: Það sem þú lýsir eru hryðjuverkin sjálf, en ekki orsökin. Hvers vegna eru þeir hatursfullir? Það er skýring fyrir því, sem vert er að kafa eftir.
Haraldur Sigurðsson, 19.11.2015 kl. 14:18
Tja, orsök er eitthvað sem veldur einhverju. Ég veit alveg að þú varst að tala um dýpri orsakir. Það sem ég er að reyna að koma til skila, er að höfuðorsökin fyrir öllum glæpaverkum er alltaf glæpamaðurinn sem ákveður að fremja þau. Allt tal um stefnu USA og annarra í Miðaustlurlöndum er góðra gjalda vert og vissulega mjög margt rangt verið gert í nafni gróða- og valdafíknarinnar. Margir hafa jafnvel nefnt krossfarirnar sem ástæðu fyrir svona voðaverkum, það vantar bara að einhver nefni morðið á Lincoln sem uppsprettu allra voðaverka í dag.
Það er hinsvegar hætta á að svona tal dreifi athyglinni frá þeirri staðreynd að ábyrgðin er alltaf hjá gerandanum, hvað svona voðaverk varðar. Það myndi t.d. (vonandi) enginn halda því fram að rótina að því að eiginmenn berji eiginkonur sínar, sé að finna í hegðun eiginkvennanna. Þér kann að finnast þetta öfgafullt dæmi en vonandi kemur það til skila því sem ég er að reyna að segja.
Svo ég síðan svari spurningu minni, þá er það mín skoðun að glæpamennirnir eru hatursfullir vegna þess að trúarboðskapurinn sem þeir aðhyllast er troðfullur af hatri og illsku. Það sem menn sá í hjarta sér, það uppskera þeir. Og uppskeran alltaf margfalt meiri að umfangi en sjálft sáðkornið.
Hræðilegt ofbeldi og illska hefur alltaf fylgt Íslam. Múhammeð sjálfur og hans fylgismenn dreifðu alls staðar í kringum sig morðum og nauðgunum, hvert sem þeir komu. Hvar voru Bush, Rumsfield, Cheney og félagar þá?
Theódór Norðkvist, 19.11.2015 kl. 14:59
Að mínu viti eru tvær stórar ástæður fyrir hryðjuverkaógninni í Evrópu nú um stundir. Ég er sammála því að önnur ástæðan sé innrásin í Írak og hleypa öllu í bál og brand í miðausturlöndum.
Hin ástæðan er þessi hatursáróður, honum verður að linna. Ég sé ekki þessi hryðjuverk sem einhver stórkostleg átök menningarheima. Þau eru framin af örfáum veikburða einstaklingum sem hafa verið afvegaleiddir í lífinu.
Þeir verða að fá einhvern annan boðskap þegar þeir leita í Moskurnar en að drepa heiðingja. Til dæmis að hjálpa gamalli konu yfir götu - hjálpa kristinni konu yfir götu.
Það verður að berjast af fullri hörku gegna hatursboðskapnum og ég er viss um að það er hægt að gera það í samvinnu við samfélög múslima, 97% til 99% þeirra vilja örugglega ekki fara í þessa vegferð.
Þorsteinn Styrmir Jónsson (IP-tala skráð) 20.11.2015 kl. 13:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.