Hvers vegna þykknar Holuhraun?
29.1.2015 | 07:55
Nýjar mælingar sýna að flatarmál Holuhrauns breytist hægt en hins vegar þykknar hraunið töluvert. Er það nú orðið um 40 metra þykkt umhverfis gígana. Hver er ástæðan fyrir þessari hegðun gossins? Af hverju dreifist það ekki út en hleðst upp í staðinn? Ég tel að það séu þrjár skýringar á þessu. Í fyrsta lagi hefur dregið úr goskraftinum og minna magn af kviku berst upp á yfirborð. Í öðru lagi er landslag fyrir norðvestan hraunið með brekkum og lágum klettastöllum, sem draga úr hraunrennsli í þá áttina. Í þriðja lagi er það Jökulsá á Fjöllum. Þegar hraunið kemur í snertingu við ána þá kólnar það hraðar og þá hleðst upp kantur af hrauni meðfram ánni. Þetta er ekki ósvipað vatnskælingunni á hrauninu í Vestmannaeyjum árið 1973. Þannig er hraunið nú að nokkru leyti rammað inn af ánni með austur brúninni og landslaginu fyrir norðvestan og vestan. Þegar hraunrennslið er orðið lítið, þá nær hraunið ekki að brjótast út úr þessum fjötrum umhverfisins. Myndin sem fylgir er tekin nið norður totu hraunsins 11. september 2014. Hún sýnir tvo af þessum þáttum, sem nú eru að fjötra útbreiðslu hransins. Her sést bergstallur að norðaustan verðu, sem stoppar úbreiðslu hraunsins í þá áttin. Einnig sést vel hvað hraunkannturinn er hár á áreyrunum, þar sem árvatnið kælir hraunið hratt, hleður því upp og hægir á rennsli þess.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bárðarbunga, Eldgos | Facebook
Athugasemdir
Einhvern tímann í haust spurði ég, hvort það var hjá þér eða á facebook síðu Jarðvísindastofnunar, hvort áin væri að hafa betur. Ástæðan var að ég sá þá þróun eiga sér stað sem þú lýsir, þ.e. að áin héldi aftur af hrauninu með kælingu þess við jaðarinn. Þá var mér svarað, að áin léti hratt undan og þetta ætti ekki við rök að styðjast. Var þetta þegar tungan var komin hvað lengst, en dregið hafði úr framgöngu hennar. Síðan hefur tungan gengið mjög lítið fram.
Mér sýnist þú staðfesta þessa ályktun mína, Haraldur.
Marinó G. Njálsson, 29.1.2015 kl. 19:35
Það er egninn vafi að í fyrri hluta gossins hafði hraunið betur. En nú þegar dregið hefur úr goskraftinum virðist áin hafa meiri áhrif.
Haraldur Sigurðsson, 29.1.2015 kl. 20:31
Að sama skapi ætti að hafa dregið mjög úr rennsli jökulárinnar nú um hávetur þannig að varla er hún að hefta útbreiðsluna mikið.
Emil Hannes Valgeirsson, 29.1.2015 kl. 21:22
Vísindmenn hafa áætlað að hraunflæðið hafi verið 300 rúmmetrar á sekúndu í byrjun og 100 núna. Samkvæmt þessu ætti hraunið að vera 2,4 rúmkílómetrar miðað við 200 rúmmetra meðalrennsli á sekúndu en áætla hraunið nú 1,4 rúmkílómetra.
Hvert hefur þessi rúmkílómetri af hrauni farið?
Annars takk fyrir góða pistla.
Einar Lúðvíksson (IP-tala skráð) 30.1.2015 kl. 10:43
Einar, þú gerir ráð fyrir að dregið hafi úr hraunrennsli jafnt og þétt (þ.e. línulega í tíma). Líklegra að rennslið hafi verið langmest í byrjun í tiltölulega stuttan tíma þannig að meðalrennslið er væntanlega vel undir 200 rúmmetrum.
Kjartan Pétursson (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 12:03
Kjartan nei ef að við miðum við 100 m3/sek. sem "vísindamenn" segja að sé rennslið núna og bara brot af fyrra rennsli þá fáum við út 60 sek. x 60 min. x 24 tímar x 150 dagar x 100m3/sek. = 1.296.000.000 = 1,3 rúmkílómetri. "Vísindamenn" segja "Flæðuhraun" vera 1,4 rúmkílómeter þannig að þetta gengur greinilega ekki hjá þeim það liggur fyrir.
Kjartan ég verð að biðja þig að hrekja þetta með útreikningum en ekki röfli!
Hvað segir þú um þetta meistari Haraldur er ég að rugla eitthvað?
Einar Lúðvíksson (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.