Eftirköst Parísargöngunnar

Göngunni miklu er lokið. Frakkar luku göngunni á þann hátt, sem þeir kunna best: að halda veizlu. Ég var gestur í einni slíkri í kvöld í 16. hverfi borgarinnar. Við vorum tólf saman og kampavín og krásir á borðum. Þá losnaði um málbeinið. Mér þótti merkilegt að af þessum tólf höfðu aðeins fimm (allt konur) farið í gönguna, en karlarnir fjórir allir setið heima. Sumir sátu heima til að lýsa mótmælum við stefnu vinstri stjórnarinnar. Almennt er stemningin sú, að ríkið þurfi að taka miklu harðar á málum sem varða hættulega einstaklinga og hreyfingar innan Frakklands. Ég varð margs vísari af því, að hlusta á spjallið yfir matborðinu. Mig grunar að það sé ef til vill að gerast grundvallarbreyting á hugarfari Frakka varðandi réttvísi. Nú vilja margir Frakkar, að það verði heimilt að taka fasta og setja í fangelsi þá, sem gætu verið grunsamlegir og hættulegir ríkinu. Hingað til hafa að sjálfsögðu aðeins þeir verið fangelsaðir, sem hafa hlotið dóm fyrir rétti. Stefna George Bush stjórnarinnar í Bandaríkjunum er nú að ná vissri fóstfestu hér í landi, sem er vagga lýðræðisins (að forn-Grikkjum ógleymdum). Bush hafði þá aðferð að varpa grunsamlegu fólki í fangelsi í Guantanamo í Kúbu án dóms og laga. Nú tala Frakkar um að setja upp fangabúðir, til dæmis í Guiana, nýlendu Frakka í Suður Ameríku, fyrir óæskilega einstaklinga. Eins og kunnugt er, þá voru öfgamennirnir, sem unnu hryðjuverkin í París í síðustu viku allir á skrá hjá lögreglu, bæði í Frakklandi og í Bandaríkjunum, sem vafasamir einstaklingar. Þeim hefið til dæmis aldrei verið hleypt inn til Bandaríkjanna. Fangelsun án laga og réttar er auðvitað eitt af fyrstu skrefum til fasisma, en margir Frakkar líta ekki á það sem stórt vandamál. Þeir vilja að ríkið geri eitthvað róttækt í málinu, til að forðast slíka atburði í framtíðinni.   Það verður spennandi að fylgjast með þróun stjórnmála í Frakklandi á þessu sviði á næstunni, en þau munu hafa áhrif um alla Evrópu.  Já, og að lokum: það tók enginn hér eftir því að forsætisráðherra Íslands vantaði í gönguna.  Þið getið því öll andað léttara þarna heima á Fróni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur.

Fróðlegt að lesa þennan pistil og bestu
þökk fyrir hann.

Fangelsishirða ríkisins fær greinilega
nóg að starfa.

Húsari. (IP-tala skráð) 11.1.2015 kl. 18:53

2 identicon

Bakkabræður eiga ekkert erindi á svona samkomur, mega halda sig heima og bora í nefið.

Við Íslendingar erlendis reynum að vera verðugir og góðir "fulltrúar" landsins. Það hefur yfirleitt tekist vel.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.1.2015 kl. 19:50

3 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Nei, Frakkar hafa aldrei haft miklar áhyggjur af fasisma. Þeir störfuðu jú náið með nasistunum undir "hernáminu" svo það var spurning hvort landið var nokkuð hernumið þá, aðeins stjórnað af Frökkum, hollir undir þýsku nasistana.
Versta við alþjóðastjórnmál í dag er að það er enginn munur lengur á vinstri og hægri. Sama útþennslustefnan hjá Hollande og afskipti af málefnum "þriðja" heimsins eins og var hjá Sarcozy á sínum tíma.

Torfi Kristján Stefánsson, 12.1.2015 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband