Borpallurinn Kulluk á norðurslóðum

artic-articlelarge-v3.jpgSumir láta sig dreyma um að finna olíu á norðurslóðum, en aðrir demba sér út í verkefnið og berjast við náttúruöflin. Það er dýrt spaug, eins og olíufélagið Shell hefur komist að nýlega. Árið 2005 keypti Shell olíuborpallinn Kulluk, sem var frekar óvenjulegur í laginu. Hann rís tæpa 80 metra yfir sjó, og er hringlaga, til að standast betur sjó og hafís. Stálið umhverfis borpallinn og í bolnum er um 4 cm á þykkt. Hann getur borað meir en 6 km niður í hafsbotninn. Shell vantaði olíu, sem þá var á háu verði, um $70 tunnan og fór hækkandi. Í dag er tunnan komin niður fyrir $50.  Þeir tóku þá ákvörðun að byrja að leita á norðurslóðum, þar sem engin samkeppni var fyrir og Kulluk var hannaður sérstaklega fyrir þær aðstæður. Shell keypti því réttindi til olíuleitar fyrir $73 milljónir í Beuforthafi, fyrir norðan Alaska. Svo settu þeir $300 milljónir í að gera upp Kulluk borpallinn. Svo fóru $400 milljónir í að smíða hjálm til að vernda borpallinn frekar. Svo var hann útbúinn 12 akkerum til að verjast sjó og ís. Svo sigldu þeir með Kulluk norður fyrir Alaska í júní 2012. Margvísleg vandamál urðu á vegi þeirra, hjálmurinn eyðilagðist í hafsjó og áður en varir var komið haust og allt fullt af ís. Kulluk var nú kominn nærri landamærum Alaska og Kanada og hér byrjuðu þeir að bora í Beuforthafi. Kulluk byrjaði að bora í október, en hætti strax aftur vegna veðurs og var dreginn til hafnar í Alaska. Shell vildi koma Kulluk sem fyrst aftur til Seattle til viðgerða, og í desember var lagt af stað. Hér getur oft verið slæmt í sjóinn á þessum árstíma, með ölduhæð 5 til 10 metra. Stundum fór togkrafturinn á vírnum milli dráttarbátsins og Kulluk upp í 228 tonn þegar mestu öldurnar gengu yfir. Hinn 27. desember slitnaði toglínan og Kulluk rak stjórnlaust. Þeir komu annari línu á milli, en skömmu síðar byrjuðu fjórar vélar dráttarbátsins að bila, hver á fætur annari. Það var kominn sjór í díselolíuna. Tveim dögum síðar tókst þyrlum að ná allri 18 manna áhöfn á brott af Kulluk. Nú voru tveir dráttarbátar byrjaðir að draga Kulluk, en fljótlega slitnar önnur línan og hinn dráttarbáturinn hefur ekki undan í 50 hnúta vindi og yfir tíu metra ölduhæð. Þeir berast nær og nær landi og skáru loks á línuna. Kulluk rak upp í fjöru. Tveimur mánuðum síðar tilkynnti Shell að þeir gerðu nú hlé á olíuleit sinni fyrir norðan Alaska. Flakið af Kulluk var dregið til Kína og selt í brotajárn. Nokkrir af forstjórum Shell sögðu af sér, aðrir voru reknir. Enn dreymir þá um að komast aftur á norðurslóðir….  Til allrar hamingju gat Kulluk ekkert borað í þessari tilraun.  Þið getir rétt ímyndað ykkur olíumengunina og öll vandræðin við að reyna að ráða við virka olíulind undir þessum aðstæðum í norðurhöfum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

er frekar á móti olíjuleit á norðueslóðum útaf meingunarhættu. er þeirar skoðunar olíja sé ekki á þessum stöðum fyrir tilviljun, að olíja sé dempari á flekaskilin. ef olíjan fer á hverju á þá flekaskilin ð rena jarðskjálftar verða því harðari en ella 

kristinn geir steindórsson briem (IP-tala skráð) 7.1.2015 kl. 10:30

2 Smámynd: Snorri Hansson

Það væri gaman að sjá það mannvirki til borunar á hafsbotni sem stenst

hafís í stórsjó

Snorri Hansson, 7.1.2015 kl. 10:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband