Sigdalurinn í Holuhrauni
17.10.2014 | 14:15
Þegar kvikugangur brýtur sér leið í gegnum jarðskorpuna, þá myndast sprunga og jarðlögin sitt hvoru megin við ganginn þrýstast til hliðar. Gangurinn tekur meira pláss. Af þeim sökum gliðnar landið fyrir ofan, eins og fyrsta myndin sýnir. Landið gliðnar og spilda dettur niður fyrir ofan ganginn, sem við köllum sigdal. Slíkur sigdalur hefur myndast í syðri hluta Holuhrauns. Ein besta myndin af þessum sigdal er radar mynd, sem var tekin úr gervihnettinum TerraSAR-X. Það er Íslenska fyrirtækið Fjarkönnun ehf. sem er samstarfsaðili í verkefninu IsViews með Ludwig-Maximilians-Universität í Munich. Myndir þeirra eru sérstakar, þar sem þær ná allt að 11 cm upplausn. Sjá frekar hér: http://www.isviews.geo.uni-muenchen.de/index.html
Radarmyndin sýnir nýju hraunin (rauðar útlínur) og norður jaðar Dyngujökuls neðst. Bláu örvarnar benda á misgengin, sem afmarka sigdalinn. Takið eftir að vestara misgengið virðist ná inn á Dyngujökul og hefur sennilega orsakað hliðrun á yfirborði hans. Þetta misgengi kemur einnig fram á radarmynd sem var tekin úr TF-SIF hinn 1. September. Snörun á þessum misgengjum er sögð vera allt að 8 metrar. Sigdalur af sömu gerð umlykur einnig gígaröðina, sem Lakagígar mynda frá Skaftáreldagosinu árið 1783.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bárðarbunga, Eldgos, Jarðskorpan | Facebook
Athugasemdir
Þegar rýnt er í loftmyndir af svæðinu, myndir sem teknar voru löngu fyrir gosið, má sjá að sigdalurinn er ekki nýr. Hann hefur hugsanlega myndast að hluta til löngu áður en gosið hófst í Holuhrauni.
Sé loftmynd stækkuð sjást skýr ummerki um misgengi á litla felli sem er á miðri myndinni í bloggi Haraldar, það er suðvestur af syðri gosstöðvunum sem ekki eru lengur virkar. Þetta er hægt að gera á Google Maps.
Rekja má brotlínur sigdalsins eftir þessu gamla misgengi. Það gæti bent til þess að gangurinn undir niðri sé á gamalkunnugum slóðum, hér sé einfaldlega um endurtekið efni að ræða. Gæti það breytt einhverju um mat jarðfræðinga á atburðunum í Holuhrauni og Bárðarbungu?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 17.10.2014 kl. 15:32
Athyglisvert. Er þetta þá einn af þeim möguleikum sem er í gangi undir bungunni hans Bárðar? Eini munurinn er hringlaga sig í stað elipsu.
Sindri Karl Sigurðsson, 17.10.2014 kl. 19:41
Það er líklegt að sigdalurinn hafi byrjað að myndast þegar Holuhraun hið eldra rann, árið 1797. Þá hefur smaksonar gangur myndast. Þeir eru sennilega hlið við hlið hér niðri í jarðskorpunni.
Haraldur Sigurðsson, 17.10.2014 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.