Hvað er framundan í Bárðarbungu?
11.10.2014 | 09:55
Sigið í íshellunni yfir öskju Bárðarbungu heldur áfram og Holuhraun heldur einnig áfram að stækka. Myndin frá Veðurstofunni sýnir sigið, eins og það kemur fram á GPS mæli, sem er staðsettur yfir miðri öskjunni. Við fyrstu sýn virðist sigið línulegt, en svo er ekki. Ég hef dregið rauða línu yfir myndina, og þá er augljóst að sigið er einhverskonar exponential function. Sigið beygir af með tímanum, það hægir á sér. Það er því lógiskt að halda að með tímanum verði kúrvan enn flatari og nálgist lárétta stöðu. Þá er sigi lokið og þá gæti gosinu einnig verið lokið. Sig verður vegna þess að kvika streymir út úr kvikuhólfi Bárðarbungu, lækkar þrýsting í þrónni og þá sígur þak kvikuþróarinnar (botn öskjunnar) niður. En þetta er einfaldasta túlkun gagna og margt getur komið fyrir, sem ruglar svo einfaldaða mynd. En samt sem áður eru hér vísbendingar um að stöðugt dragi úr sigi og ef til vill úr gosinu á sama hátt. Hvað sem öðru líður, þá held ég að líklegasta spá um gang mála sé sú, að sig og gos haldi áfram á sama hátt, en smátt og smátt dragi úr virkninni, eins og kúrvan fyrir ofan bendir á. En það eru mánuðir....
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bárðarbunga, Eldgos, Jarðeðlisfræði | Facebook
Athugasemdir
Ég mun ekki fylgjast með þessu svæði nema að Bárðarbungan springi í loft upp
og að úr verði alvöru eldgos.
Jón Þórhallsson, 11.10.2014 kl. 12:18
Það er full alvara í gangi, þegar hraungos gerast á Íslandi. Eitt hraungos orskaði það að um 75% af öllum búpening fórst og þjóðini fækkaði um 24%. Það var Lakagosið eða Skaftáreldar, árið 1783. Ekkert grín.
Haraldur Sigurðsson, 11.10.2014 kl. 12:34
Mun Holugos-hraunið girða fyrir Jökulsána
og beina henni í einhvern allt annan farveg "forever"?
Eða mun hraun-straumuninn stöðvast við ána og fara meðfram henni?
Jón Þórhallsson, 11.10.2014 kl. 12:49
Jökulsá á Fjöllum flæmist undan hrauninu og færist smátt og smátt til austurs. Hraunið mun alltaf vinna í þessu stríði við ána.
Haraldur Sigurðsson, 11.10.2014 kl. 13:18
Það gæti verið fróðlegt að fá að sjá nýjustu tækniteiningar
/loftmyndir af því viðfangsefni og síðan kannski hraun-spá viku inn í framtíðina.
Jón Þórhallsson, 11.10.2014 kl. 13:54
Sæll Haraldur.
Það hlýtur að vera komið nægilegt gagnasafn til að hægt sé að reikna hvað það er langt í að sigkúrfan verði flöt og sigið hætti og þá gosið væntanlega líka, nema það verði bara kaflaskil í virkninni á þeim tímamótum?
Varðandi baráttu Jökulsár og hraunsins þá kemur hraunið til með að flæma ána úr farvegi sínum, svona til skemmri tíma litið, en til lengri tíma hef ég nú meiri trú á að Jökulsá grafi sig niður við hraunjaðarinn og nagi úr honum í aldanna rás. En það veður fróðlegt að fylgjast með því hvað þetta verður löng orrusta, en stríðið milli ár og hrauns verður að líkindum langvarandi....
Kveðja,
Ómar Bjarki
Ómar Bjarki Smárason, 11.10.2014 kl. 15:04
Haraldur.
Ég hef afar gaman að fylgjast með þessu náttúruundri sem ég tel (í fávisku minni) að sé það merkilegasta á Íslandi í ár hundruð.
Getur verið að þessi svigi á línunni sé vegna þess að gangurinn sé að hætta að gliðna og hraunið hafi minni möguleika á öðru en að fara upp í gossprunguna. Fækkun skjálfta í gossprungunni gæti stutt það?
Snorri Hansson, 11.10.2014 kl. 15:08
Ég held að lagið á kúrvunni sé vegna þess að það er að draga úr þrýstingi inni í kvikuþrónni. Sjá næstu bloggfærslu mína.
Haraldur Sigurðsson, 11.10.2014 kl. 15:51
Spurning hvað gerist þegar sigið stoppar. Hugsanlega heldur þá áfram að streyma kvika inn í kvikuhólf Bárðarbungu, þak kvikuhólfsins rís þar til toppi er náð. Þá fer að síga aftur og leikurinn hefst á ný, svipað eins og gerðist í Kröflueldum. Þá gæti orðið goshlé í nokkra mánuði áður en gos hefst að nýju, hugsanlega á sama stað.....
Ómar Bjarki Smárason, 11.10.2014 kl. 17:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.